16.12.1981
Efri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

66. mál, iðnráðgjafar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur rætt um þetta frv., þ. e. frv. til laga um iðnráðgjafa. Eins og kunnugt er voru gerðar smávægilegar breytingar á frv. frá því sem það upphaflega var lagt fram í Nd. Þessar breytingar eru kannske ekki stórvægilegar, en gefa þó frv. örlítið annan blæ.

Í 1. gr. var bætt við þar sem stendur: „Ákveði samtök sveitarfélaga eða iðnþróunarfélög, sbr. 2. gr., að ráða iðnráðgjafa til starfa á sínum vegum“. Orðunum „á sínum vegum“ var bætt inn í, ég hygg fyrst og fremst í ljósi umræðna sem urðu í tengslum við frv. um að það skyldi vera skýrt kveðið á um að iðnráðgjafarnir væru ráðnir til starfa á vegum heimaaðila. Orðin „á sínum vegum“ eru af þeim toga.

Við höfum að sjálfsögðu engar athugasemdir við þetta né heldur við hina brtt. sem iðnn. Nd. gerði við frv. Hún er við 4. gr. þar sem stendur: „Tryggð skulu tengsl iðnráðgjafa við tækni- og þjónustustofnanir og samtök iðnaðarins“. Orðunum „og samtök“ var bætt inn í frv. frá því það var upphaflega lagt fram.

Iðnn. Ed. er að sjálfsögðu samþykk þessum tveimur breytingum sem að okkar dómi — ég veit að ég túlka viðhorf nefndarinnar rétt — þjóna í ríkari mæli þeim tilgangi sem ætlast er til af þessu frv. sem vonandi verður samþykkt og verður að lögum. Iðnn. leggur því til að frv. verði samþykkt eins og það var afgreitt frá Nd.

Ég vil geta þess, að eins og kemur fram í nál. frá Nd.-nefndinni var leitað umsagna nokkurra aðila, svo sem sveitarstjórnarmanna og forsvarsmanna iðnaðarins sem og Alþýðusambands Íslands svo einhverjir séu nefndir. Það er mála sannast, að flestar þessar umsagnir eru jákvæðar í garð frv., sérstaklega þó sveitarstjórnarmanna og Alþýðusambands. Það var athugasemdir að finna í umsögn Félags ísl. iðnrekenda sem og Landssambands iðnaðarmanna. Ég lít svo á að meginathugasemdirnar, ef ég má svo að orði komast, sem þeir höfðu fram að færa, hafi verið teknar inn í frv. Ég hygg að það hafi verið aðaláhyggjuefni þeirra að í frv., eins og það var upphaflega lagt fram, var ekki gert ráð fyrir að það væru tryggð tengsl við samtök iðnaðarins. Eins og ég gat um áðan er það mjög eðlileg og sjálfsögð breyting, enda liggur í hlutarins eðli að iðnþróun verður ekki hrundið af stað, henni verður ekki fylgt eftir, nema menn hafi allajafna góða samstöðu með og samvinnu við þá aðila þar sem vafalaust er hin haldbesta og mesta þekking á þessum málum nú þegar.

Ég ætla ekkert að fjölyrða um þetta frekar. Það er skoðun mín a. m. k. að ráðning iðnráðgjafa sé skref fram á veginn. Ég vil ekki líta svo á að hér sé um aukna miðstýringu að ræða, eins og vikið hefur verið að. Ég vil minna á að það eru landshlutarnir eða iðnþróunarfélögin á hverjum stað sem ráða þessa aðila til starfa enda þótt öll gjöld skuli greidd úr ríkissjóði.

Hitt er ljóst að iðnráðgjafar, enda þótt þeir væru nú ráðnir — og þeir eru þegar ráðnir til starfa mjög víða, það er gert ráð fyrir átta ársstörfum í þessu sambandi, — þeir leysa náttúrlega ekki allan vanda. Þegar iðnaður á í hlut er um að ræða svo fjölþætta starfsemi að útilokað er að einn maður hafi yfirsýn yfir allt það svið sem þar er um að ræða. En það er skoðun mín að hér sé stigið a. m. k. eitt spor fram á við.

Herra forseti. Aðeins að lokum: Það er von mín og að sjálfsögðu annarra nm., að það verði tryggt á milli 2. og 3. umr. um fjárlög að fjármagn fáist til að greiða þau laun sem getið er um og þarf vegna ráðningar í þessi störf.