16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það hefur orðið að samkomulagi flokka þingsins að greiða fyrir því, að þetta frv. geti hlotið afgreiðslu fyrir jólaleyfi, og munum við að sjálfsögðu standa við það og haga okkar málflutningi hér á þingi þannig að við greiðum frekar fyrir því en hitt að málið hljóti afgreiðslu.

Hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hefur þegar gert ítarlega grein fyrir efni þessa frv. svo og afstöðu okkar sem meiri hl. skipum og leggjum til að frv. verði fellt. Hann hefur einnig gert mjög ítarlega grein fyrir því ákvæði frv., sem er nýmæli, að færa fjármuni á milli deilda Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Ég aðeins ítreka þau orð hans, að þar er ríkisstj. að gefa mjög varhugavert fordæmi.

Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var stofnaður með lögum nr. 72 frá 28. maí 1969 að tilhlutan þáv. ríkisstj., sem var samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Hlutverk Verðjöfnunarsjóðsins er, eins og segir í 1. gr. laganna, að draga úr áhrifum verðsveiflna er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins. Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var þannig hugsaður sem eitt þýðingarmesta hagstjórnartæki í voru landi til að jafna þær miklu hagsveiflur sem hljótast af því í íslenskum þjóðarbúskap hve atvinnulíf Íslendinga er einhæft og útflutningsframleiðsla landsins einhæf.

Hins vegar var þessu hlutverki sjóðsins ekki sinnt lengur en fram á árið 1971, þegar tveir flokkar, sem nú mynda einnig ríkisstj., komu til valda. Eitt fyrsta hlutverk þeirrar ríkisstj., sem kom til valda árið 1971, var að ganga með öllu fram hjá því hlutverki sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var stofnaður til þess að gegna. Innistæður sjóðsins voru orðnar talsverðar þegar sú ríkisstj. tók við völdum. Hennar fyrsta verkefni var að eyða öllum þeim innistæðum þrátt fyrir einmuna góðæri, bæði til sjávarins hvað aflabrögð varðar og hvað verðlag varðar á erlendum mörkuðum á íslenskum útflutningsvörum, sem þá átti sér stað. Strax árið 1971 má því segja að kippt hafi verið fótunum undan Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og því hlutverki sem hann átti að gegna. Því hefur síðan verið haldið áfram með nokkrum hléum þannig að Verðjöfnunarsjóðnum hefur nánast aldrei verið heimilað að gegna hlutverki sínu nema mjög skamma hríð í senn.

Nú á að fara inn á enn nýjar brautir. Ég leyfi mér að efast um að lagalegar heimildir séu fyrir hendi. Það kemur mjög glögglega í ljós, ef menn lesa lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, að þegar þau lög voru sett kom mönnum ekki einu sinni til hugar að slíkur sjóður gæti tekið lán til að greiða verðuppbætur á fisk eða fiskafurðir. I 4. gr. og 5. gr. laganna er rætt um eignir Verðjöfnunarsjóðsins og tekjur hans. Ég vek athygli manna á því, að hvergi í lögunum um Verðjöfnunarsjóð er gert ráð fyrir að sá sjóður geti tekið fé að láni, enda væri slíki og hlýtur að vera gjörsamlega að sniðganga hlutverk Verðjöfnunarsjóðsins. Sjóður eins og Verðjöfnunarsjóðurinn á að sjálfsögðu ekki að geta tekið fé að láni. Hann á eingöngu að ráðstafa þeim tekjum, sem hann hefur, til að jafna tímabundnar sveiflur í afurðaverði. Slíkur sjóður á ekki að geta tekið fjármuni að láni.

Nú er hins vegar gert ráð fyrir því í 3. gr. frv., eins og það kemur frá Ed., að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins taki fjármuni að láni erlendis frá til að greiða verðuppbætur á fisk til að halda uppi fiskverði sem ekki er grundvöllur fyrir að öðrum kosti. Auðvitað gefur auga leið að það er mjög hæpið, að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins geti tekið erlend lán eða yfirleitt nokkur lán, og mjög hæpið, að það geti gerst nema um mjög skamman tíma, þegar ljóst er talið að til dæmis verðfall á fiskafurðum erlendis sé mjög tímabundið og fyrirsjáanlegt að miklar verðhækkanir verði aftur á þeim tilteknu afurðum. Þær aðstæður eru þær einu sem gætu hugsanlega réttlætt að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins tæki lán. Nú eru engar slíkar aðstæður fyrir hendi. Það er ekkert, sem bendir til þess, að ástandið á fiskmörkuðum okkar nú sé mjög tímabundið, og ekkert, sem bendir til þess, að verðlag t. d. á loðnuafurðum fari mjög hækkandi innan mjög skamms tíma. Jafnvel sú röksemd fyrir erlendri lántöku til handa Verðjöfnunarsjóði á því ekki við rök að styðjast. Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. gripið til þess ráðs að veita ríkisábyrgð fyrir lánum þessum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, og hygg ég að einnig það sé nýmæli.

Nú hefur komið fram í fjh.- og viðskn. á fundum hennar með starfsmönnum Verðjöfnunarsjóðsins, að þeir telja harla ótrúlegt og raunar útilokað að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins geti greitt það lán sem sjóðnum er ætlað að taka. Þeir telja nær fullvíst að lánið muni falla á ríkissjóð. M. ö. o.: það, sem hér er að gerast, er að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins er á pappírnum skráður lántakandi að erlendu láni til að halda uppi fiskverði sem ekki væri hægt að halda upp að öðrum kosti, en í rauninni er það ríkissjóður sem er lántakandi og er ætlað að greiða lánið. Fyrir liggur að Verðjöfnunarsjóðurinn lýsir yfir að það sé nánast útilokað að hann muni geta greitt þetta lán.

Það er aðeins eitt fordæmi fyrir slíkri afgreiðslu og það fordæmi hefur einnig núv. hæstv. ríkisstj. gefið. Það var þegar ríkisstj. heimilaði þriðja aðila, Framleiðsluráði landbúnaðarins, sem ég held að ég fari nærri um að hefur nær engar eigin tekjur, að taka erlent lán til að greiða viðbótarútflutningsbætur með útfluttum landbúnaðarafurðum umfram það hámark sem íslensk lög heimila ríkissjóði að greiða. Ríkissjóður gerðist síðan ábyrgðaraðili fyrir þessu láni sem fyrirsjáanlegt var að falla mundi á ríkissjóð, enda hefur það nú gerst og í fjárlagafrv. yfirstandandi árs er gert ráð fyrir tilteknum fjárhæðum, að mig minnir 2 milljörðum gamalla króna, í útgjöld úr ríkissjóði til að greiða vexti og afborganir af því láni. M. ö. o.: það er farið út á þá braut í fjármálalegri stjórnun að ríkissjóður gerist formlega ábyrgðaraðili fyrir lántöku þriðja aðila úti í bæ, sem liggur fyrir að ekki muni geta greitt svo mikið sem eina krónu af fjármagnskostnaði, afborgunum og vöxtum umrædds láns, sem óhjákvæmilega hlýtur að falla á ríkissjóð, og sama leikinn er nú verið að endurtaka hér gagnvart Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Þessi leikur er aðeins leikinn til að fela þá staðreynd, að í fyrsta lagi er verið að greiða úr ríkissjóði meiri útflutningsuppbætur með landbúnaðarafurðum en lög leyfa og í öðru lagi er ríkissjóður einnig að taka að sér að greiða uppbætur á fiskverð í landinu. Ríkissjóður er þannig orðinn beinn aðili að niðurgreiðslum og uppbótargreiðslum á ýmsar helstu afurðir sem landsmenn framleiða. Þetta er algjört nýmæli, sem hæstv. ríkisstj. er farin að taka upp, og boðar satt að segja ekki gott og er mjög varhugavert og hættulegt fordæmi.

Í lokin er rétt að geta þess, svona aðeins til að sýna fram á hversu varhugavert þetta er og hversu fráleitt að til þess sé ætlast að ríkissjóður sé hér aðeins ábyrgðaraðili, en ekki raunverulegur greiðsluaðili, að ríkissjóður biður ekki einu sinni stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins að gera greiðsluáætlun, að gera áætlun um hvernig sjóðurinn ætli að greiða það lán sem verið er að heimila honum að taka. Það er ekki einu sinni að ríkisstj. óski eftir því við stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, þegar hún veitir honum ríkisábyrgð fyrir lántöku, að hún geri nokkra grein fyrir hvernig hún hugsi sér að endurgreiða það lán sem er verið að veita ríkisábyrgð fyrir, né heldur spyrst ríkisstj. fyrir um hvaða tryggingar Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins geti sett ríkissjóði fyrir að geta staðið í skilum með þetta lán. Auðvitað er svarið við þeirri spurningu mjög einfalt. Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins getur enga tryggingu sett frekar en Framleiðsluráð landbúnaðarins. Hér er aðeins um að ræða sams konar talnaleikfimi og varðandi Framleiðsluráð landbúnaðarins. Það er verið að fela þá staðreynd, að einnig á þessu sviði er verið að leggja til að ríkissjóður taki að sér að greiða uppbætur á fiskverð með sama hætti og ríkissjóður tekur að sér að greiða útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir fram yfir það sem íslensk lög heimila. Þetta er fóðrað þannig í báðum tilvikum um að þriðji aðili úti í bæ, í öðru tilvikinu Framleiðsluráð landbúnaðarins og í hinu tilvikinu Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, er að formi látinn taka erlent lán fyrir þessum uppbótar- og niðurgreiðslum, sem ríkissjóður er síðan látinn ábyrgjast. Þessir aðilar úti í bæ eru ekki einu sinni spurðir um hvernig þeir hyggist endurgreiða þau lán, sem ríkissjóður gerist ábyrgur fyrir, né heldur hvaða tryggingar þeir geti veitt til þess að hægt sé að ætla að þeir geti endurgreitt lánið, enda er þeim aldrei ætlað að endurgreiða þetta lán, þetta er allt saman ætlað að færist á ríkissjóð. Þetta eru dæmigerð vinnubrögð hæstv. fjmrh. til að láta líta svo út á pappírnum að afkoma ríkissjóðs og lántökur ríkissjóðs séu allt aðrar en þær í rauninni eru.