16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það hefur komið í minn hlut að mæla fyrir þessu máli hér í hv. Nd., og ég vil gjarnan segja örfá orð, þau skulu ekki vera mörg.

Ég vil flytja hv. fjh.- og viðskn. þakkir fyrir, hve greiðlega hún hefur unnið að þessu máli og skilað nái. og skilað málinu attur hingað inn í Nd., og einnig fyrir þær yfirlýsingar sem hafa komið fram um að stjórnarandstæðingar muni fyrir sitt leyti greiða fyrir að þetta mál geti fengið afgreiðslu hér í deildinni hið fyrsta.

Við 1. umr. málsins fóru fram nokkuð almennar umr. um þessi málefni og við skiptumst þar á skoðunum og vorum ekki alveg sammála, ég og hv. þm. Matthías Bjarnason. Við spjölluðum dálítið saman um þetta mál og ég geri ekki ráð fyrir að það hafi orðið á því í sjálfu sér nein breyting frá því að sú umr. fór fram.

Ég hef áður — a. m. k. tvívegis eða oftar — sagt hér í umr. á hv. Alþingi að það væru tveir þættir okkar efnahagsmála sem væru langveikastir um þessar mundir. Annars vegar er staða útflutningsatvinnuveganna og hins vegar er aðstaða hagkerfis okkar til að veita svigrúm fyrir fjármögnun á uppbyggingu og framförum í landinu sjálfu. Við höfum þurft að leita meira — ég vil segja: en góðu hófi gegnir til útlanda, á erlenda lánamarkaði, til að afla lánsfjár til nauðsynlegrar uppbyggingar og framfara. Hins vegar eru ýmsar ástæður fyrir því, sem ég gerði grein fyrir við 1. umr. og skal ekki endurtaka við þetta tækifæri.

Það er einkum tvennt, sem veldur þeim vanda sem sjávarútvegurinn er í um þessar mundir, og þó raunar fleira. Það er í fyrsta lagi það, að olíukreppan, sú fyrri, sem skall á í árslok 1973, og ekki síður sú síðari, sem skall á árið 1978 og fór að hafa verulega mikil áhrif í hagkerfi okkar á árinu 1979, hefur valdið vissum þáttaskilum sérstaklega hjá hluta útgerðarinnar. Nú er það staðreynd, að um 25–30% af útgerðarkostnaði skuttogara fara í olíuútgjöld og líklega 7–10%, að því er mig minnir, hjá bátaflotanum. Þetta kemur ákaflega misjafnt niður eftir því, hvar skip eru staðsett á landinu og hvað menn þurfa að sækja sjó langt. Þetta hefur valdið miklum erfiðleikum í sambandi við útgerð, og við höfum alls ekki séð fram úr þessu máli sem ekki er von. Þetta er ein af ástæðunum fyrir mjög miklum erfiðleikum.

Nú er það svo í sambandi við ákvörðun á gengi, að þar er tilhögun þannig, eins og kunnugt er, að Seðlabankinn gerir tillögur til ríkisstj. um gengisákvarðanir. Þó að ég vilji ekki á neinn hátt draga fjöður yfir að vitanlega á ríkisstj. þátt í þessum málum er það samt svo, að Seðlabankinn hefur þetta verkefni og ríkisstj. hefur staðfest tillögur Seðlabankans í þessum efnum. En ég get endurtekið það, sem ég hef sagt áður einnig, að ég tel að víð höfum teflt á tæpasta vað í þessum málum á þessu ári. Það stafar vitanlega fyrst og fremst af því, að ríkisstj. hefur lagt mikla áherslu á að reyna að halda genginu sem stöðugustu til að veita viðnám gegn verðbólgunni.

Nú er það auðvitað svo, að þegar þetta sérstaka mál, sem hér er til umr., er metið, þá verður að hafa í huga að nú er verið að vinna að ákvörðun um fiskverð og það er í raun og veru verið að fjalla um að leggja heilbrigðan grundvöll fyrir rekstri sjávarútvegsins. Auðvitað verður að taka tillit til þess þegar menn meta hvernig líkur séu á að þetta lán Verðjöfnunarsjóðsins, sem hér er til umr., verði greitt til baka eða ekki. Nú lá auðvitað ekkert fyrir um það t. d. 1978 að það yrði örugglega greitt til baka. Það lá ekkert fyrir um það fyrr en búið var að gera þessi mál öll upp. En það var greitt til baka og þurfti ekki þá að grípa til ríkisábyrgðar. Það er auðvitað staðreynd.

Varðandi horfurnar í sjávarútveginum sérstaklega og í útflutningsatvinnuvegum okkar er auðvitað eðlilegt að menn reyni að meta hvernig mál standi varðandi markaðsmál okkar. Eins og sakir standa og verið hefur á þessu ári má segja að staðan í þeim málum hafi verið tiltölulega góð þegar á heildina er lítið og við höfum notið hagstæðs verðs í sambandi við okkar útflutningsafurðir.

Nú hef ég ekki aðstöðu til á þessari stundu að meta hvernig staðan verður í þessum efnum á næstunni. Hún er þegar á heildina er litið nokkuð sterk. Hvort hún versnar eða hvort hún batnar skal ég ekkert um segja. Það er ekki því að leyna, að umhverfis okkur, í þeim löndum, sem við skiptum mest við, og yfir höfuð í heiminum er auðvitað verulegur samdráttur og það hefur þau áhrif að ástæða er til að fara varlega í þessum efnum og gera frekar ráð fyrir hinu verra en hinu betra. Ég skal þó ekkert um það fullyrða hvað verður í þessum efnum á næstu mánuðum. En eins og sakir standa er staðan í þessum efnum sæmilega góð.

Við ákvörðun fiskverðs er auðvitað aðallega þrennt sem þarf að gæta: Það er í fyrsta lagi, að útgerðin, sem er e. t. v. númer eitt í þessu öllu, verði rekin með eðlilegum hætti, í öðru lagi, að sjómenn beri úr býtum það sem sanngjarnt er og eðlilegt miðað við sjávarútveginn og aðra landsmenn, og í þriðja lagi, að fiskvinnslan geti borið sig. Þetta eru auðvitað þau þrjú meginsjónarmið sem koma til greina við ákvörðun á fiskverði og ráðstöfunum í sambandi við það. Er að sjálfsögðu unnið að þessum málum með svipuðum hætti og gert hefur verið á undanförnum árum. Ég hef í nokkurra daga fjarveru hæstv. sjútvrh. fylgst náið með þessum störfum og ríkisstjórninni í heild. Ég skal ekki spá um hvernig mönnum gengur að ráða við þau vandamál sem við er að fást. Þau eru veruleg. Það er ástæða til að viðurkenna það. En ég ætla að vona að það verði hægt að fá lausn á þeim sem verður viðunandi.

Auðvitað er það svo, að þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki annað og ekki þriðja sem við Íslendingar eigum í erfiðleikum með ákvörðun á fiskverði og í sambandi við ákvarðanir sem varða það að sjávarútvegurinn í heild verði rekinn með eðlilegum hætti. Það er síður en svo. Þetta er ekki aðeins árlegur viðburður, þetta er viðburður sem hefur átt sér stað öðru hvoru á hverju ári um langa hríð. Það stafar auðvitað m. a. af því, hvað mikil hreyfing er á þessum málum, hvað mikil hreyfing er t. d. á markaðsmálunum og hvað miklar sveiflur á þeim vettvangi.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vil endurtaka að ég er þakklátur nefndinni fyrir, hve greiðlega hún hefur unnið að þessu máli, og fyrir þær yfirlýsingar, sem hafa komið fram af hennar hálfu um að hún vilji greiða fyrir því, að þetta mál fái afgreiðslu hér í hv. þd. sem allra fyrst.