21.10.1981
Neðri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

10. mál, héraðsútvarp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil, eins og næsti hv. ræðumaður á undan mér, fagna því að þetta frv. skuli hafa verið lagt hér fram. Ég tel að sérhvert spor eins og það sem hér er lagt til að stigið verði, sem verður til þess að afnema einokun Ríkisútvarpsins eins og hún hefur verið síðan 1930, sé spor í rétta átt. Auðvitað var ofurskiljanlegt með hverjum hætti útvarpið var sett hér upp 1930 og fram eftir árum. Hins vegar hafa á síðustu árum gerbreyst aðstæður og m. a. í þá veru að útvarp er orðið langsamlega ódýrasta fjölmiðlunarleiðin. Þegar þess eins er gætt, að hlutföll í þessum efnum hafa snúist við á ekki löngum tíma, hljóta líka að gerbreytast öll sjónarmið.

Hins vegar vil ég segja það, eins og raunar næsti ræðumaður á undan mér, að ég tel að það frv., sem hv. þm. Benedikt Gröndal hefur hér mælt fyrir, gangi í ýmsum efnum ekki nógu langt. Hins vegar má vera að frv., sem svona er útbúið, eigi möguleika hér á hinu háa Alþingi. En mér þykja ekki vera í þessu miðstýringarþankar, sem ég tel að séu óþarfir, og að skynsamlegra væri, ef mögulegt væri af pólitískum ástæðum, að fara hreinlega þá leið að stofnun í miðjunni, Ríkisútvarpið eða önnur stofnun, dreifði leyfum til útsendingar á FM-bylgjum til sveitarstjórna, en þær hefðu það síðan alfarið í höndum sér, hverjum þær framseldu valdið, hvort það væri til félaga, einstaklinga eða með hverjum hætti það væri gert, og gengi þetta þann veg fyrir sig að borgarstjórnin í Reykjavík fengi ákveðið mörg leyfi, bæjarstjórnin á Ísafirði ákveðið mörg leyfi o. s. frv. og bæjarstjórnirnar eða borgarstjórnin hefðu það alfarið á sinni hendi hvernig þessi mál skipuðust áfram. Ég er ekki heldur viss um að það sé heppilegt, eins og t. a. m. segir í 2. gr. frv., að héraðsútvarp eigi að einbeita sér að efninu sem framleitt er í viðkomandi héraði eða snertir það sérstaklega. Ég efast um að eftir slíkum skilyrðum yrði nokkurn tíma farið. Því má ekki útvarp í héruðum, í Breiðholti eða hvar sem er vera með annað efni en það sem er staðbundið? Það er einnig talað um staðbundnar fréttir og auglýsingar. Því má ekki Útvarp Ísafjörður segja fréttir frá Póllandi að vild ef á Ísafirði er áhugi á slíku? Eins segir hér að ekki megi flytja það efni á sama tíma og fréttir eða auglýsingar eru fluttar í Ríkisútvarpinu. Það eru miðstýringarþankar af þessu tagi sem ég tel vera bæði óþarfa og ástæðulausa. En ég legg ástæðu á að kannske eru þau tilteknu sjónarmið, sem ráða, viðkvæmnin fyrir hinu eiginlega Ríkisútvarpi, hún sé enn svo mikil að svona frv. eigi ekki möguleika öðruvísi en vera svona úr garði gert.

Stundum hefur gætt í umræðum um að veita meira frelsi í útvarpsrekstri tiltekinnar viðkvæmni hjá þeim sem starfa við Ríkisútvarpið, hið eiginlega Ríkisútvarp. Slíka viðkvæmni tel ég vera algerlega ástæðulausa. Vitaskuld mun Ríkisútvarpið eftir sem áður vera langsamlega sterkast, ekki bara sem útvarp, heldur sterkasti fjölmiðillinn í landinu. Það ræður fyrir mestum tekjum, það hefur lengsta dagskrá og auðvitað eru ár og dagar þangað til nokkurt svæðabundið útvarp kemur til með að geta ógnað stofnun sem á sér svo langa sögu og á svo mikið undir sér sem Ríkisútvarpið. Engu að síður er meginhugsunin í þessu frv. að veita leyfi til bundinna svæða til útvarpsrekstrar. Vil ég mjög taka undir það með flm., að það sé hin skynsamlega leið að fara almennt. En sjálfur kysi ég að þær breytingar yrðu gerðar á þessu frv., að mörg þau skilyrði, sem hér eru sett, yrðu numin burt. Ég er ekki viss um, eins og segir í 3. gr., að það eigi að vera lögbundið að setja upp sérstakt héraðsútvarpsráð. Mér finnst satt að segja reynsla af útvarpsráðinu nú allra síðustu árin ekki vera á þann veg að það sé alls kostar til eftirbreytni. M. ö. o.: atriði eins og þetta ættu sveitarstjórnir að hafa með höndum eða sá aðili sem sveitarstjórnirnar framvísa útvarpsleyfinu til til einhvers ákveðins tíma, f. d. tveggja ára eða svo.

Flm. gat einnig um það í framsöguræðu sinni, að það orkaði tvímælis að menntmrh. ætti að hafa afskipti af slíku útvarpi. Undir það vil ég mjög taka. Það orkar mjög tvímælis.

Herra forseti. Kjarni málsins í þessu frv. er valddreifing útvarps og leyfi til útvarpsrekstrar. Það er auðvitað aðalatriði málsins. Næði frv. fram að ganga í þessari mynd, að ég ekki tali um að eitthvað af þeim takmörkunum og eitthvað af þeim miðstýringarþönkum, sem enn skarta í þessu frv., yrði tekið burtu, þá yrði það auðvitað meiri háttar framför, að ég ekki segi bylting í íslenskri fjölmiðlun. Það kann að vera að hinn stóri kostur við þetta frv., að það sé með þeim hætti úr garði gert, að meiri hl. Alþingis geti sætt sig við það í þessari gerð eða eitthvað þvílíkri gerð. Þá yrði auðvitað mikill sigur unninn. Framkoma þessa frv. er mikið fagnaðarefni.