16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég bjóst við að að lokinni þessari umr. yrði þetta mál jafnvel afgreitt út úr deildinni í dag og 3. umr. hefði þá getað farið fram á skömmum tíma, en eftir ræðu hæstv. fjmrh. held ég að það sé borin von. Ég sé ekki annað en að frv., eins og það liggur fyrir, sé komið í harðasta hnút.

Eftir því sem mér hefur verið sagt — hæstv. viðskrh. leiðréttir það þá ef það er ekki rétt — liggur fyrir loforð frá sjútvrh. þess efnis, að ríkisábyrgð verði veitt fyrir láni að upphæð 42 millj. til Verðjöfnunarsjóðsins, jafnframt að skilyrði fyrir þessu hafi verið þau, að verði á því tímabili, sem lánið á að standa, þ. e. tvö ár, hækkun á afurðum í þeim gjaldeyri sem þær eru seldar við, um 30% endurgreiði Verðjöfnunarsjóður lánið, ef ekki, þá falli ábyrgðin á ríkissjóð. Nú lýsir hæstv. fjmrh. yfir að hér sé um einfalda ábyrgð að ræða, en í lagagr., eins og hún liggur núna fyrir, segir að lán þessi megi þó aldrei nema samtals meira en 70% af heildarinnistæðu í Verðjöfnunarsjóði hverju sinni. Með þessu orðalagi er verið að fara yfir á heildarinnistæðu Verðjöfnunarsjóðsins, m. ö. o. inn á allar deildir. Auðvitað rúmast þetta innan þeirra marka og þó um hærri upphæð væri að ræða.

En er þá litið svo á að það eigi að taka úr öðrum deildum til að greiða þetta lán ef þessi deild, loðnudeildin eða síldarafurðadeildin, er gjaldþrota? Er þá ætlun ríkisvaldsins að grípa inn í aðrar deildir? Þá finnst mér vera komið alveg nýtt viðhorf í þessu máli og það ekki lítið alvarlegt.

Í fjh.- og viðskn. var sá skilningur lagður í þetta, að hér væri um lán að ræða til þessarar ákveðnu deildar við Verðjöfnunarsjóðinn. Þegar við tölum um að það séu litlar sem engar líkur til að þetta lán verði endurgreitt miðum við auðvitað við stöðu þessarar deildar eins og hún er nú og líkur á að hún verði á næstu tveimur árum.

Ég sé ekki annað en að fjh.- og viðskn. verði að fá tækifæri til að boða til fundar að yfirlýsingu fjmrh. fenginni. Ég vil á engan hátt standa í vegi fyrir að þetta mál nái fram að ganga. Það má enginn taka mál mitt á þann veg. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er ég reiðubúinn að afgreiða frv. og gera það að lögum þegar í dag. En eftir yfirlýsingu fjmrh. er algjörlega útilokað að málið komi til 3. umr. Þetta verður að liggja alveg ljóst fyrir. Mér finnst undarlegt í alla staði, að við lokaafgreiðslu máls sé svona yfirlýsing flutt þvert ofan í skilning sem nefndir hafa lagt í málið og alveg örugglega hæstv. sjútvrh. og þá væntanlega líka hæstv. viðskrh.

Ég ætla svo aðeins með örfáum orðum að fjalla um þá hóflegu ræðu sem hæstv. viðskrh. hélt. Í efnahagsaðgerðum eða efnahagsáætlun ríkisstj., sem dagsett er á síðasta gamlársdag, segir að „Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins skal útvegað fjármagn til þess að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar, ef þörf krefur vegna stöðvunar gengissigs.“ Mér finnst þetta ekki vera að útvega fjármagn, þessi yfirlýsing hæstv. fjmrh., heldur þvert á móti.

Ég vil líka minna á að hæstv. sjútvrh. sagði í þessari hv. deild 27. apríl, að mönnum væri að sjálfsögðu ljóst að staðan að þessu leyti væri óvenju erfið við fiskverðsákvörðun nú. Það væri meiri munur á afkomu frystingar annars vegar og hins vegar skreiðar fyrst og fremst og reyndar saltfisks einnig, sérstaklega eftir að meiri verðhækkun fékkst en menn höfðu gert ráð fyrir og verið hefði áður. Þarna væri hreinlega um það að ræða að lagfæra nokkuð fyrir frystinguna með öðrum leiðum en að fella gengið. „Ég held að menn verði hreinlega að horfast í augu við það,“ sagði hæstv. sjútvrh.Ríkisstj. taldi sér ekki fært að fella gengið eins og nauðsynlegt hefði verið til þess að veita frystingunni lágmarksafkomugrundvöll.“ — Það var viðurkennt í lok aprílmánaðar að frystingin hafði ekki lágmarksafkomugrundvöll. Hann viðurkennir það hreinlega — og er virðingarvert af hæstv. ráðh. að gera það — að ríkisstj. hafi ekki tekið rétta ákvörðun.

Hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðunni í fyrra, 23. okt. 1980, að ríkisstj. hefði gert ráðstafanir til að bæta frystihúsunum upp á einn eða annan hátt, einkum með aðlögun gengis, útgjaldahækkanir og tekjutap sem orðið hefðu síðan stjórnin var mynduð. Þetta er auðvitað ekki annað en að viðurkenna staðreyndir um verðbólguna sem ríkisstj. gerði á árinu 1980.

Þegar vinstri stjórn var mynduð 1978 var dollarinn 260.40 kr., í febr. 1980, þegar þessi ríkisstj. tók við, fór hann í 400.70 kr. miðað við gamlar krónur, en um áramótin síðustu, eftir 11 mánaða valdatíma þessarar stjórnar, er verð á dollaranum komið í 614.70 kr. Þetta hefði einhvern tíma þótt í frásögur færandi eða á meðan kommúnistar voru í stjórnarandstöðu. Síðan er tekin sú stefna að standa á bremsunni, eins og það er kallað, m. ö. o. — eða ég vil kalla það svo: að hætta að viðurkenna staðreyndir. — Og það segir í stefnuræðunni í haust: Gengi íslensku krónunnar hefur ekki verið jafnstöðugt um langt áragil. — Hugsið ykkur! Það er nú stöðugleiki eða hitt þó heldur! Gengið er stórlega falsað, það vita allir menn. Og hvað segir svo sjútvrh. á margumtöluðum kaupfélagsfundi: Hins vegar kvaðst hann sannfærður um að fiskverðshækkun, sem nú er fram undan, yrði ekki undir 13–14%, sem væri hækkun sem atvinnuvegirnir gætu augljóslega ekki tekið á sig án aðstoðar. — Þar játar hann alveg skilyrðislaust að hér verður eitthvað að koma til. Hvað kemur annað til, hvaða önnur aðstoð kemur til en að skrá gengi krónunnar rétt?

Hv. formaður fjh.- og viðskn. mælti að þessu sinni fyrir minnihlutaáliti. En þó að hann hafi orðið í þessu máli í minni hl. skeður það aldrei í fjh.- og viðskn. að ekki sé reynt að afgreiða mál með góðu samkomulagi þó að skiptar séu skoðanir um afstöðu til mála, enda held ég að það eigi aldrei að leggjast á það, að minni hl., ef hann vill, fái mál afgreidd, að hann geti fengið það ef málið hefur fengið sómasamlega meðferð í nefnd. Hann reyndi af veikum mætti að bera nokkuð í bætifláka fyrir þá ríkisstj. sem hann sennilega styður enn þá. Það er auðvitað háttur góðra manna, sem eru trygglyndir að eðlisfari, að reyna það og við því er ekkert að segja. Þetta er ungur maður og þrekmikill og því hefur hann e. t. v. að mörgu leyti meira úthald en þeir sem eru orðnir þreyttir og lasburða. — En hann talaði um að við hér hefðum oft gert svipað áður, og það gerði líka flokksbróðir hans, hæstv. viðskrh. Það er alveg rétt, að þær ábyrgðir, sem ákveðnar voru, voru ákveðnar þá í ljósi þeirra staðreynda að það mundi vera nokkurn veginn — svona 90% — öruggt að þær féllu ekki. Eina er að það var vitað og lofað fyrir fram 1975 hvernig yrði farið með loðnu- og fiskimjölsverð næst þegar gengi yrði breytt, sem allir sáu þá fram á að yrði gert, en aldrei var farið í að hreyfa á milli deilda og því síður í eignaupptöku deilda því að það er að mínum dómi algjörlega ólöglegt.

Það er sjáanlegt að Seðlabankinn, en formaður fjh.- og viðskn. er formaður bankaráðs Seðlabankans, notar núna fjármagnið í formi lána til að jafna tap í atvinnurekstri. Og það er það sem er verið að gera: Það er verið að framfleyta þessu eitthvað um sinn í formi aukinnar seðlaprentunar. Ef þessi stefna á að halda áfram væri sennilega ein mesta þörf að flytja seðlaprentun inn í landið, en ekki láta þessa framleiðslu alla fara fram erlendis. Nú rembast menn, bæði innan ríkisstj. og utan, við að ávísa á endurmatsreikninga Seðlabankans sem þessum hv. þm. er nú mjög óljúft, eins og skiljanlegt er. Það er ekkert eftir annað en að Flugleiðir noti sér gengisbreytingar og borgi vinnulaun með hækkuðu verði á flugvélum sínum í ísl. kr. Þá finnst mér að Seðlabankinn ætti að geta sent þeim nokkur bílhlöss af seðlum alveg eins og öðrum.

Þetta er sú efnahagsstefna sem maður sér þarna í hnotskurn. En hvað snertir sjávarútveginn var hann með nokkuð öðrum hætti hjá Alþb. fyrir kosningarnar. Þegar barist var fyrir að fá samningana í gildi sagði ég að það þyrfti að gera áætlun um þróun sjávarútvegs og fiskiðnaðar á næstu 5–10 árum og stefna að því, að útflutningsverðmæti sjávarafurða, ykist verulega á þessu tímabili með öflugum stuðningi opinberra aðila. Efla bæri markaðsleit og sölustarfsemi á framleiðslu lagmetisiðnaðarins og stuðla að því, að verðmætustu hráefni sjávarafurð, svo sem grásleppuhrogn og síld, yrðu í vaxandi mæli seld úr landi sem fullunnin vara. Einnig yrði sérstaklega unnið að stórauknum útflutningi á niðursoðinni þorsklifur. — Hvað hefur gerst í þessu öllu? Aldrei hafa verið birgðir af grásleppuhrognum fyrr en núna, eftir að Alþb. er búið að vera í ríkisstjórn í þrjú ár. Aldrei hefur stuðningur til eflingar framleiðsluatvinnuvegunum — og þá síst sjávarútvegi — verið minni en einmitt núna. Það er verið að afgreiða fjárlög þar sem ekkert er gert til þess að auka eða efla útflutningsverðmæti, hvorki sjávarafurða né útfluttra iðnaðarvara.