16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

59. mál, lyfjalög

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur skilað nál. á þskj. 205 um frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 49/1978. Þetta mál er ekki eitt af meiri háttar málum þingsins. Þó ber að útskýra það lítillega.

Hér er um að ræða í 1. gr. breytingu á lyfjalögum í þá veru, að ráðh. skipi, eins og áður hefur verið, þrjá menn í stjórn sjóðsins, þ. e. Lyfsölusjóðs, til fjögurra ára í senn, en það er nýmæli. Áður hafa menn getað setið í stjórninni um allan aldur. Eru allir sammála um að þessi breyting sé til bóta.

Sú orðalagsbreyting, sem gert var ráð fyrir í 2. gr. frv., hlaut ekki stuðning í hv. heilbr.- og trn. Ed., enda teljum við í Nd.-nefndinni ekki heldur ástæðu til breytinga þar.

Meginbreytinguna er að finna í 3. gr. frv. Þar er sú breyting lögð til, að í stað þess að framlag til Lyfsölusjóðs sé 1% af áætluðu cif-verði innfluttra lyfja og lyfjaefna verði um að ræða beint framlag úr ríkissjóði sem samsvari áætlaðri þessari upphæð. Ástæðan fyrir þessu mun vera sú, að framkvæmd þessa ákvæðis hefur gengið ákaflega illa og það er talið dýrara að reikna þetta 1% af cif-verði út og innheimta það heldur en að veita þetta beint úr ríkissjóði.

Þetta mál hefur hlotið umfjöllum í hv. heilbr.- og trn. Nd. Þar eru menn einhuga um að það verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru í Ed.

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að á nál., sem lagt var hér fram á þskj. 205, varð það slys að nafn hv. þm. Péturs Sigurðssonar var ekki undir nál. Það hefur verið leiðrétt og skjalið verður prentað upp. Hann var sannarlega viðstaddur afgreiðslu málsins. Þetta er mér að kenna, ég mun hafa gleymt að biðja hann að skrifa undir nál.