16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera eilitla hönd fyrir höfuð hæstv. forseta í þessu máli. Hæstv. forseti átti ekki von á öðru, þegar þingfundur hófst, en að samkomulag væri um afgreiðslu mála á þessum deildarfundi og hafði fallist á þá beiðni mína, sem ég hafði rætt við fjmrh. eins og vandi er, að ég fengi að leggja tilteknar spurningar fyrir hæstv. fjmrh. kl. hálffjögur. Hins vegar gerðist það á fundinum, að hæstv. forsrh. hóf ræðuflutning sem var þess eðlis að hann hlýtur að vekja mjög harkaleg viðbrögð stjórnarandstæðinga. Sá ræðuflutningur hæstv. forsrh. var gjörsamlega að tilefnislausu og mun hafa komið hæstv. forseta þessarar deildar jafnmikið á óvart og öðrum hv. þm. M. a. af þeim sökum frestaðist það þangað til klukkuna vantaði rúmlega 9 mínútur í fjögur að ég gæti beint tiltekinni fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Hef ég ekkert um það að sakast við hæstv. forseta.

Ég vil aðeins láta það koma fram, að þeir atburðir, sem gerst hafa hér í dag og urðu til þess að tefja málsmeðferð í þessari hv. deild, voru ekki af völdum hæstv. forseta, síður en svo, heldur vegna furðulegrar framkomu hæstv. forsrh. sem flutti gjörsamlega að ástæðulausu þá ræðu sem segja má að hafi hleypt öllu þessu máli í strand.