16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er enn önnur aðfinnsla við þingstörfin sem ég vildi gera hér. Hún er sú, að stjórnarandstöðunni gefst ekki færi á að tjá sig í málum sem hér eru tekin á dagskrá. Það gerðist í gær, að tekið var fyrir það mál sem er núna nr. 2 á dagskrá, 150. mál, um tollskrá o. fl. Hæstv. fjmrh. fékk tækifæri til þess að flytja sína framsöguræðu en enginn úr stjórnarandstöðunni fékk tækifæri til þess að tala. Umr. var slitið, enda þá komið að fundum þingflokka. Síðan ekki meir. Nú er liðið langt á þennan þingdag og þetta mál hefur enn ekki komist á dagskrá. Enginn úr stjórnarandstöðunni hefur enn fengið tækifæri til að tjá sig um þetta mikilvæga mál. Það er að sjálfsögðu alveg ófært, að grautað sé á þennan hátt í dagskrá, að hæstv. ráðherrar fái hér hver um annan þveran að flytja framsöguræður í stórum málum, en síðan sé skrúfað fyrir stjórnarandstöðuna svo að hún fái ekki tækifæri til að tjá sig.