16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu hafið þessa ræðu mína á sama veg og með sömu orðum og ég viðhafði í því máli sem við höfum nýlega lokið umr. um, en ég sé ekki ástæðu til að tefja tímann vegna slíkrar endurtekningar. Ég vil hins vegar vitna til orða hæstv. forseta deildarinnar nú fyrir skömmu er hann bendir réttilega á það, að orð forsrh. hér í umr., áður en við gengum til þingflokksfunda, hafi verið þannig að hann hafi séð sig til neyddan að óska eftir að hann væri viðstaddur þessa umr. til þess að gera nokkru nánari grein fyrir þeim orðum sem hann lét falla. Reyndar má segja hið sama um yfirlýsingu hæstv. fjmrh. sem er einnig á þann veg, að ég fæ ekki séð annað en að til aðila, sem þessi mál varða, hagsmunaaðila sem þegar hefur verið leitað til, þurfi að leita aftur og bera málið undir þá með hliðsjón af yfirlýsingum þessara hæstv. ráðh. sem virðast nota tækifærið til þess að slá undir belti hæstv. sjútvrh., sem fjarstaddur er, og tala þvert ofan í það sem hann hefur jafnvel gefið yfirlýsingar um.

Ég hafði satt að segja ákveðið, þegar ég kvaddi mér hljóðs við umr, áðan, að vekja aðeins athygli á tveimur atriðum, öðru frekar smávægilegu en hinu miklu þyngra.

Það fyrra var að í Ed. var hv. þm. og formanni þingflokks Alþb., Ólafi Ragnari Grímssyni, bent á ákveðna staðreynd. Sú staðreynd er fólgin í því, að hann hefur hvað eftir annað talið sig vera hér hinn eina sanna umboðsmann og talsmann fátæku þjóðanna í þriðja heiminum, og ekki aðeins hér í þingsölum, heldur líka í fjölmiðlum og nú fyrir stuttu í sjónvarpinu. Þegar málið, sem við erum nú að ræða, er skoðað niður í kjölinn kemur í ljós að það, sem verið er að gera, er að láta skreiðarneytendur í þriðja heiminum — í hinum fátækustu þjóðum sem í heiminum búa í dag — borga niður frosna fiskinn sem fer til ríkustu þjóðar heimsins, til Bandaríkjanna. Um þetta flytur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson till. og mælir fyrir og greiðir atkv. með — og reyndar stjórnarflokkarnir allir saman.

Hitt atriðið, sem ég ætlaði að benda á — og þótt á það hafi verið bent af hv. 1. þm. Vestf. þótti mér ekki alveg nóg að saumað — er sú umsögn sem barst frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands til Ed. og er prentuð sem fskj. með nál. fulltrúa sjálfstæðismanna í fjh.- og viðskn. þar, þeirra hv. þm. Lárusar Jónssonar og Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Þar sem mér er kunnugt um að nákvæmleg sömu skoðanir ráða í hugum þeirra sem eiga heima innan Sjómannasambands Íslands, þá tel ég rétt að nú þegar fái hv. deild að heyra hvað þessir aðilar segja. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa þetta bréf. Það hljóðar svo:

„Á fundi stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 16. nóv. 1981 var tekið fyrir bréf fjh.- og viðskn., dags. 4. nóv. s. l., þar sem leitað er umsagnar sambandsins um frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingar á gengi íslenskrar krónu hinn 26. ágúst 1981 0. fl., ásamt brtt. við frv.

Um frv. þetta vill sambandsstjórn taka eftirfarandi fram:

Þar sem gengi er ein af meginforsendum fiskverðsákvarðana og þar með ráðandi þáttur um tekjuskiptingar í sjávarútvegi og þá ekki síst um tekjur sjómanna telur sambandsstjórn nú eins og fyrr að við ráðstöfun gengismunar, sem um getur í 1. gr. frv., beri sjómönnum fullur réttur til hlutdeildar í honum.

Samkv. ákvæðum 2. gr. er veitt heimild til sérstakrar lántöku Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Sambandsstjórn telur að með lántökuheimild þessari sé farið inn á braut, sem ekki einasta gengur þvert á efni og markmið laga um sjóðinn, heldur sé jafnframt verið að halda uppi fölsku gengi með því að skuldbinda sjávarútveginn og þar með sjómenn inn í óvissu framtíðarinnar.

Um „millifærslu“ fjár af uppfærðum gengismun afurðarlána milli deilda sjóðsins vill sambandsstjórn ekki segja annað en það, að allar slíkar millifærslur hljóta mjög að orka tvímælis og ber því að varast þær í lengstu lög.“

Þetta er bréf stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Nú skal það viðurkennt af mér, að það hafa verið skiptar skoðanir um fyrri mgr. þessa bréfs, hvort það sé algerlega rétt hugsun sem þar liggi að baki eða ekki, og skal ég ekki fara út í það. Hins vegar hlýtur það að leiða hugann að orðum hv. 1. þm. Vestf. og síðan þeim orðum sem komu fram í ræðu hæstv. forsrh. Hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, margundirstrikaði að það þyrfti að skrá krónuna rétt. En rétt á eftir leyfði hæstv. forsrh. sér að halda því fram, að Matthías Bjarnason hefði gert hér háværa kröfu um gengisfellingu. Ég hef að vísu orðið þess var, eftir að hafa flett nokkuð söluhæstu bókum jólamarkaðarins og þar á meðal bók hæstv. forsrh., að sagnfræði og sannfræði hans er ekki með því allra besta sem við þekkjum. En að leyfa sér að koma hér fram fyrir okkur á sama fundi í þessari deild, nokkrum mínútum eftir að við hlustuðum á orð Matthíasar Bjarnasonar, það vissulega færir okkur þá trú, — ekki trú, við skulum segja skoðun, að ekki sé allt með felldu sem þar hafi verið sagt, vegna ágreinings sem hafi komið upp um sannmæli í þeirri ágætu bók. En það, sem auðvitað kallár á frekari umr., eru þau orð sem féllu hjá hæstv. forsrh.

Við skulum láta vera það sem hæstv. viðskrh. sagði þegar hann þakkaði þingnefnd fyrir hennar störf. En vissulega hefði hann mátt þakka þm. líka fyrir að koma hér og sitja yfir vitleysunni í hæstv. ráðherrum nótt eftir nótt og dag eftir dag, þegar þeir sjálfir létu ekki svo lítið að geta verið hér við þær umr. sem fjalla um þeirra eigin mál, þarf reyndar að koma með þá helst í böndum hingað niður í þing til þess að halda þeim í stólum sínum meðan verið er að ræða þessi mál þeirra. En látum það vera.

Rétt eftir að hæstv. fjmrh. gaf sína yfirlýsingu þess efnis, að það væri nú aldeilis ekki ríkissjóður sem mundi taka á sig greiðslu þess láns sem ákveðið er að taka vegna Verðjöfnunarsjóðsins, og það fólst í máli hans að allar aðrar deildir sjóðsins mundu verða gerðar gjaldþrota áður — þá er náttúrlega ekki annað en ganga næst að aðilum hans, sem eru útgerðin og sjómennirnir, það er væntanlega hugur hans sem fylgir þessum orðum hans, — þá stendur hæstv. forsrh. upp og flytur furðulegustu ræðu sem hefur verið haldin um langan tíma hér á Alþingi. Vegna þess að þessi orð hans og reyndar málið í heild beinist mikið að því sem fram undan er á vinnumarkaðinum — þar á ég að sjálfsögðu við samningana við sjómannastéttina, bæði yfir — og undirmenn — þá komumst við ekki hjá því að nota þetta tækifæri nú til þess að ræða það sem ég álít vera væntanlega áramótaaðgerð ríkisstj. sem forsrh. er hér að boða að sjútvrh. fjarstöddum. Og þar sem það stendur líka fyrir dyrum, þrátt fyrir mótmæli okkar sjálfstæðismanna, að þingið verði sent heim þó að við höfum boðist til að koma hér til fundar milli jóla og nýárs og strax í byrjun janúar, þá er náttúrlega enn þá meiri ástæða til að ræða þessi mál nú.

Ég held að það sé full ástæða til að fjölmiðlar taki orðrétt upp ræðu forsrh. til þess að láta íslenska sjómannastétt vita hvaða hugur býr að baki hjá honum og um leið sjálfsagt hæstv. ríkisstj. Það mætti jafnvel taka um leið og birta í heild þann furðulega kafla sem hefur verið unninn fyrir hæstv. forsrh. í þeirri bráðabirgðaskýrslu sem var lögð á borð okkar í gær og kallast skýrsla starfsskilyrðanefndar. Sú nefnd er skipuð fimm eða sex forstjórum undir stjórn seðlabankastjórans Jóhannesar Nordals, sem forsrh. hefur væntanlega skipað til þess að finna einhverjar leiðir til að ná af sjómönnum því sem kallast hefur skattfríðindi sjómanna. Þá, sem lesa þetta, hlýtur auðvitað að reka í rogastans ef þetta á að verða annað tveggja: björgunarleið ríkisstj. í fjármálum eða þá útgöngudyr til þess að hamra á og beita sem vopni í samningum við íslenska sjómannastétt, sem ég trúi miklu frekar að eigi að vera.

Ég vil láta það koma fram hér strax af þessu gefna tilefni, — og reyndar öðrum tilefnum sem hafa verið gefin hér á Alþingi á liðnum árum, — að það er auðvitað rétt sem fram kemur, að það hefur oft og tíðum verið samið um þennan skattafrádrátt sem enn er í gildi. Það hefur líka verið samið um annan og meir skattafrádrátt sem hefur verið svikinn. Hann hefur verið svikinn t. d. af þeirri vinstri stjórn sem tók við eftir að viðreisnarstjórnin fór frá. Þá byrjuðu fyrstu svikin þegar tekið var af mönnum sem höfðu áunnið sér með samningum ákveðinn skattafrádrátt. Hæstv. þáv. ráðherra, Lúðvík Jósepsson, beitti sér fyrir því, að sá hluti skattsins væri tekinn af. Þar á ég við hluta af skattfríðindum farmanna. En ég bendi á það, að ef ríkisstj. tekur þetta af standa menn auðvitað frammi fyrir því, að það þarf að meta stöðu sjómanna hjá útgerðarfyrirtækjunum að nýju vegna þess sem liggur að baki þessu hjá sjómönnum, alveg sama hvað skattafrádráttarliðurinn er kallaður í sjálfu sér. Það verður aldrei hægt fyrir útgerðina sem slíka og yrði mjög slæmt fordæmi vegna annarra vinnustétta, sem vinna í landi, ef ætti að taka inn í sjálft launakerfið það sem þarna liggur að baki. Þar á ég að sjálfsögðu við vinnuaðstöðuna og hættuna. Ég hef aldrei heyrt þess getið, að margir seðlabankastjórar eða bankastjórar almennt eða forstjórar létu lífið í sínu starfi. Hins vegar hef ég margoft bent á það hér, að það er ákveðin prósenta af starfandi sjómönnum á hverju ári sem kemur ekki til hafnar aftur. Það er nýbúið að ræða þetta í framsöguræðu fyrir þáltill. sem einn skynsamasti þm., sem fram hefur komið á vegum Framsfl. frá því að Björn Pálsson sat hér, hélt fyrir nokkrum dögum og fjallaði m. a. um slys í höfnum.

Ég bendi á að þessir tveir þættir hafa verið látnir liggja í láginni í samningum sjómanna þótt þeir séu alls staðar teknir undir mat þegar metin eru störf nú á dögum í þjóðfélögum um allan heim. Þar er tekin inn starfsaðstaðan og hættan sem fylgir starfinu. Sjómannastéttin hefur hins vegar látið þetta liggja á milli hluta fram til þessa, vegna þess að sjómenn hafa notið nokkurra skattfríðinda á móti, sem hafa kannske frekar verið huggun þeim, sem heima eru, en þeim sjálfum. Það er kannske ofsagt hjá mér, en það er nú svona samt. Hins vegar hefur aldrei verið viðurkennt af sjómönnum að þessi skattafrádráttur kæmi á móti þeirri miklu fjarveru sem þeir búa við fram yfir allar aðrar stéttir þjóðfélagsins. Þegar allar aðrar stéttir eru að fara hér út fyrir borgarmörk, sama hvort það er iðnaðarmaður eða embættismaður, þá kemur sérgreiðsla fyrir það.

Það skyldi þó aldrei vera að í sérkjarasamningum, sem hæstv. fjmrh. hefur gert við opinbera embættismenn, séu einhver ákvæði um það, ef embættismennirnir eru fjarverandi? Og það skyldi þó aldrei vera, að það sé orðinn einhver samningur á milli ráðh. um það — vegna þeirrar áherslu sem hæstv. fjmrh. lagði á sérkröfur og sérkjarasamning opinberra starfsmanna — að þeir séu búnir að finna þarna leið til þess að ná samkomulagi í sambandi við sjómannasamningana um næstu áramót? Kannske verða gerðir sérsamningar um trosið og sjómenn fari þá að hirða trosið eins og í gamla daga og það verði þeirra búbót á móti því sem opinberir starfsmenn fá. En við skulum láta það gott heita, enda var það undir öðrum dagskrárlið.

En það, sem auðvitað verður að ræða hér miklu frekar, er furðuleg ræða hæstv. forsrh. Hann leyfði sér að halda því fram hér enn einu sinni; að það væri í raun allt í lagi með atvinnumál landsmanna. Það væru nokkrir erfiðleikar hjá nýju togurunum og nýrri skipum vegna mikils fjármagnskostnaðar, en yfirleitt væri allt annað í lagi nema það væru einhverjir smáerfiðleikar í frystingunni. Þetta fáum við að heyra á sama tíma og við heyrum frá stjórnarmönnum í Framkvæmdastofnun ríkisins og Byggðasjóði að það hafi aldrei í sögu stofnunarinnar fylgst að jafnmargar neyðarbeiðnir um björgun frá verkum þessarar hæstv. ríkisstj. og í raun liggi nú fyrir til úrlausnar neyðarbeiðnir sem nemi að fjármagni miklu hærri upphæð en allt það fjármagn sem Byggðasjóður hefur yfir að ráða á einu ári.

Síðan kemur hæstv. forsrh. hér og segir: Þetta er allt í lagi. — Hver er nú lausn hæstv. forsrh. á þessum vanda? Jú, hann ætlar að koma á mismunandi fiskverði, hann ætlar að koma á svona 120–130 fiskverðum. Ég fæ ekki séð annað og skilið af orðum hans. Það á að borga fiskverð eftir því í hvaða vinnslu fiskurinn fer, það á að borga fiskverð eftir því af hvaða bátum fiskurinn kemur, hvaða togurum og reyndar líka eftir því á hvaða stöðum honum er landað. Ég er hræddur um að þeir verði orðnir rasssíðir einhverjir sem fást við þetta fiskverð um áramótin áður en þeir verða búnir að ná lausn. Og kem ég þá auðvitað að þeim orðum sem ég lýsi megnustu vanþóknun á hjá hæstv. forsrh., þegar hann talar um að þeir séu að reka á eftir sjálfum sér, fulltrúar sjómannasamtakanna sem eru í Verðlagsráði sjávarútvegsins.

Þessi hæstv. ráðh. veit mætavel að þessir menn eru valdir til fjögurra ára. Og þótt þeir sitji þar sem einstaklingar og hafi eitthvert samband við sína félaga á sjónum og við sína flokksbræður í ráðherrastólunum, þá er málið ekki lengur í þeirra höndum. Málið er komið í hendur sjómannafélaganna sjálfra og hvers einstaks félagsmanns sem í þeim er. Það er komið þangað núna og það verður í þeirra höndum eftir 25. des. þegar allsherjarverkfall fiskiskipaflotans skellur á. Og það verkfall er hvorki komið til af óskum þeirra, sem sitja í stjórn Verðjöfnunarsjóð, né annarra forustumanna sem vel vilja þessum útvegi og sínum umbjóðendum, heldur eru þeir reknir út í þetta af hæstv. ríkisstj. Ætli þeirra lausnir eigi ekki að verða eitthvað í líkingu við það sem t. d. kemur fram í reglugerð hæstv. félmrh., sem ég var að fá í hendur í dag, þar sem verið er að betrumbæta lögin um rétt sjómanna til ellilífeyris, sem er ein bótin á loforðasvikaferil ríkisstj. í þeim loforðum sem gefin voru sjómönnum þegar þeir voru — án þess að fá tækifæri til þess að semja um sína félagsmálapakka — látnir byrja á að borga þá að fullu allt frá haustinu 1978. Þegar verið er að reyna að bæta nokkuð þar úr og skila hluta þeirra milljarða, sem hafa verið teknir af þeim á þessu tímabili, þá neyðist hæstv. félmrh. til að gefa út reglugerð sem m. a. hefur þetta inni að halda, með leyfi forseta:

„Nú er skriflegri sönnun um starfstíma sjómanns ekki til að dreifa og er þá heimilt að meta til slíkrar sönnunar vitnisburð tveggja valinkunnra manna eða fleiri um starfstíma sjómanns. Slíkur vitnisburður verður að bera með sér hvar, hvenær og hve lengi sjómennska sú er stunduð, sem sönnunin nær til.“

Ég bið til guðs að þeir séu ekki allir dauðir, þeir valinkunnu menn sem störfuðu með þessum gömlu sjómönnum sem eiga að njóta þessa. Og ég segi fyrir sjálfan mig — og ég veit að ég mæli þar fyrir nær alla starfandi sjómenn — ég bið til guðs þeirra vegna að jafnvalinkunnir menn og hæstv. forsrh. og fjmrh. verði ekki til þess kvaddir að dæma um og úrskurða kaup og kjör sjómanna eftir að næstu áramót eru liðin.

Hæstv. forsrh. — ég veit að nú verður allt sett á fulla ferð í Þjóðhagsstofnun og öðrum þjónustustofnunum ríkisstj. — talaði um góðar tekjur og afkomu sjómanna. Nú vil ég bara vegna hæstv. ráðherra — og þá á ég líka við hæstv. viðskrh. — þegar þeir fara að koma með þann samanburð vara þá við þessari endurteknu vitleysu sem þeir alltaf eru að gera þegar þeir tala um góðar tekjur sjómanna. Það var hæstv. viðskrh. sem sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Sjómenn eiga að bera úr býtum það sem sanngjarnt er og eðlilegt miðað við hag útgerðar og launamál í landi.“ En má ég þá biðja hæstv. viðskrh. — af því að þetta voru hans orð en ekki forsrh., nógu mikið var af vitleysunni hjá forsrh., — má ég þá ekki biðja hann um að taka sjálfsagðar staðreyndir inn í þetta mat, eins og ég er búinn að biðja um á undanförnum árum og hæstv. sjútvrh. hefur lofað að láta gera, vegna þess að hann er loksins farinn að skilja að það verður að liggja til grundvallar hver vinnutímafórnin er við launin sem mennirnir fá. Hver er vinnutímafórnin? Hver er fjarvistin að heiman? Hver er fjarvistin frá heimilinu? Þetta eru atriði sem verða að koma þarna inn. Það hefur verið viðurkennt af sjútvrh. Að sjálfsögðu situr hæstv. dómsmrh. enn þá og gerir ekki neitt í því þótt hann viti að lögbrot séu framin á hverjum einasta degi, og á ég þá að sjálfsögðu enn einu sinni við vökulögin. (HBl: Hann er upptekinn við kirkjumálin.) Ég veit ekki hvort hann er upptekinn við kirkjumálin eða í samkór lögreglukóra á Norðurlöndum eða hvar það er, en hann á auðvitað að vita þetta og veit það, hæstv. dómsmrh.

Það er reyndar ein spurning enn þá sem ég hefði viljað varpa fram til hæstv. fjmrh. í sambandi við yfirlýsingu hans um lánið sem Verðjöfnunarsjóður á að taka með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs: Ef ekki verður hægt að greiða þetta lán, á þá að vera hægt að ganga að öðrum deildum sjóðsins til þess að borga það? Þetta er auðvitað meginspurning. Eiga aðrar deildir sjóðsins að borga fyrir þá deild sem verður gjaldþrota, — áður en rætist hugsjón þeirra ráðherranna sem stefna að því að koma öllum þessum rekstri undir ríkið eins og sjálfstæðismennirnir í ríkisstj. og framsóknarmenn stefna drjúgum að með kommúnistum, — eiga aðrar deildir að borga þetta, taka þátt í þessari greiðslu áður en gengið verður að útgerðinni og sjómönnum, sem er auðvitað næsta stig?

Ég hef drepið hér á nokkur þeirra atriða sem urðu mér tilefni til að taka til máls nú. Hér var alger friður um það í deildinni að láta þetta mál ganga fram. Við héldum allir í stjórnarandstöðunni að samkomulag væri um að málið gengi fram á skaplegum tíma í dag. En þá taka þessir tveir hæstv. ráðh., forsrh. og fjmrh., að núa okkur því enn um nasir, að við í stjórnarandstöðunni höfum verið opnir fyrir því að flýta þinghaldi og greiða fyrir þingmálum og það með þessum hætti. Þeir kalla á það með sínum yfirlýsingum og gefa í skyn að hverju sé stefnt núna í ráðuneytunum, að hverju sé unnið og hvernig eigi að kaffæra þær kröfur sjómannastéttarinnar sem eru ekki aðeins réttlátar og sanngjarnar og hafa verið viðurkenndar af sjútvrh., m. a. með yfirlýsingum hans um nýja gengisfellingu. Það er fyrsta yfirlýsingin sem kemur fram opinberlega eftir síðustu gengisfellingu. Hún kemur frá hæstv. sjútvrh. á fundi kaupfélagsstjóranna. Og hann viðurkennir það og bendir meira að segja á ákveðna upphæð gengisfellingar sem verður aldrei snúið upp á hvorki hv. þm. Eyjólf Konráð eða Lárus Jónsson í Ed. né á hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, þó að hann hafi bent á að gengið þyrfti að vera skráð rétt. En það getur svo sem verið að þeir séu ákveðnir í að gera þetta. Það er mjög undarlegt hvað það stendur orðið mikið hér fyrir framan af splunkunýjum ráðherrabílum. Þeir eru kannske að undirbúa þetta strax. Ég held að fjölmiðlafræðingar, sem hér sitja inni, ættu að fara út fyrir dyrnar og telja hvað nýju bílarnir eru margir og hverjir eiga þá.

Nei, það er auðvitað enginn ráðherrabíll hér nú, það er rétt, nema kannske þeirra sem koma á hjólunum. Þeir eru farnir að fela nýjustu reiðskjótana í næstu húsasundum.

Ég vil að lokum, herra forseti, enn endurtaka það, að sú umr., sem nú verður, skrifast auðvitað á reikning þessara tveggja hæstv. ráðherra. Og ég tek undir það sem hér var sagt af þm. áðan utan dagskrár, að það er hart að fá slíkar yfirlýsingar og umr. frá ráðherrum í lok fundartíma og svo hlaupa þeir burt og láta ekki sjá sig fyrr en eftir dúk og disk. Svo er komið til okkar og sagt við okkur: Þið skuluð standa hér og vinna, vera bæði á tveimur nefndarfundum í einu og á fundi í ykkar þingdeild. Mönnum er boðið upp á slíkt. Ég minnist þess hér í fyrri tíð, að hæstv. forsrh. tókst miklu betur hreinlega að segja ekki neitt þegar mikið lá við og kappræður voru í þinginu. Hann lét þá vera svo ótímabærar og vitleysislegar fullyrðingar sem hann viðhafði hér áðan.