16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Umræður um þetta dagskrármál hafa tekið óvænta stefnu nú eftir hádegið. Ráðherrar rása út og suður og kemur þá smátt og smátt í 1jós að það er ekki öll sagan sögð við stjórnarandstöðuna þó að stjórnarsinnar séu spurðir um eitthvað viðvíkjandi þeim málum sem á að afgreiða, eins og glöggt kom fram í ummælum hæstv. fjmrh. áðan. Skal ég ekki að sinni gera það að umtalsefni, en vil fyrst ræða nokkuð ýmislegt af því sem fram kom í ræðu hæstv. viðskrh. í dag.

Það var eftirtektarvert að svo virtist sem hæstv. viðskrh. hefði tekið að sér að vera talsmaður ríkisstj. í þessu máli nú við 2. umr. þess, sem er óvenjulegt þar sem þau brbl., sem hér eru til umfjöllunar, voru gefin út af hæstv. forsrh. Það hefði þess vegna verið miklu eðlilegra að hæstv. forsrh. hefði svarað þeim atriðum, sem spurt var um varðandi túlkun frv. og önnur efnisatriði, hefði ekki skorast undan því. En ég hygg að hann hafi verið upptekinn við annað. Ég man nú eftir að það hafi komið fyrir áður að einstakir ráðh. hafi flutt framsögu, en ég vænti þess, að sá maður, sem gaf lögin út, hafi eitthvað um þau að segja. Þegar hann er lagaprófessor ofan í kaupið og doktor í þriðja lagi, þá ætti hann a. m. k. að hafa víðsýni til að vita hvað hann hefur sjálfur gefið út í samráði við ríkisstj. Var þetta ekki í endaðan ágúst? Ég held að hann sé búinn að flytja eina brtt. síðan í Ed. og gott ef hún var ekki tekin til baka, svo að hann er orðinn allkunnugur þessu. Mér finnst allt í lagi að hann fái einu sinni aðeins að kannast við eigin króga, alger óþarfi sé að vera alltaf að taka af honum ómakið að svara fyrir eigin gerðir. Þó kann ég náttúrlega vel að meta þá miklu umhyggju sem þessi ráðh. Framsfl. ber fyrir hæstv. forsrh., sem er sennilega til komin af því að hæstv. viðskrh. hefur orðið var við að forsrh. dregur yfirleitt taum Framsfl. í ríkisstj., ef á þarf að halda, og eins aðstoðarforsrh., Jón Ormur, því að við vitum náttúrlega að ekki mundu þessir menn mjög hallast á sveif með erkifjandanum Alþb., án þess að ég fari fremur út í það.

Ég vil í fyrsta lagi gera athugasemd við það orðalag ráðh. — ekki aðeins í dag, heldur oft endranær — þegar þeir eru að tala um að Seðlabankinn ákveði gengisbreytingar. Við vitum það allir sem hér erum inni, að Seðlabankinn kemur ekki með tillögur um að breyta genginu án þess að hafa fyrst kannað hvaða hljómgrunn slíkar tillögur hefðu hjá ríkisstj. Ef Seðlabankinn þykist hafa reynt það til þrautar, að ríkisstj. sé ekki til viðtals um breytingar á gengi krónunnar, gefur Seðlabankinn náttúrlega ekki út auglýsingu þess efnis, að hann telji nauðsynlegt að breyta gengi krónunnar. Þetta veit hæstv. viðskrh. Það er þess vegna verið að skorast undan ábyrgð þegar ríkisstj. er að kenna Seðlabankanum um að gengið fellur, auk þess að ríkisstj. ber hina þinglegu ábyrgð. Það getur vel verið að hægt sé að vera með svona undanbrögð á kaupfélagsstjórafundum hjá Sambandinu, en það er alveg þýðingarlaust að vera að halda því fram hér á Alþingi, að hin pólitíska ábyrgð á gjaldeyrispólitíkinni hvíli á herðum seðlabankastjóranna. (Gripið fram í: Ég sagði það ekki.) Það var gefið í skyn. Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi. Ég þekkti gamla konu norður í Norður-Þingeyjarsýslu sem sagði mér að það væri ekkert betra þegar verið væri að gefa í skyn.

Auðvitað ber ríkisstj. fulla ábyrgð á gjaldeyrispólitíkinni. (Gripið fram í: Hver setti lögin um Seðlabankann?) Alþingi. (Gripið fram í: Hver var þá forsrh.?) Ólafur Thors. Nú skulum við aðeins rifja upp hvaða markmið það voru sem hæstv. viðskrh. vildi helst hafa í sambandi við útgerðina. Hann setti sér það markmið í fyrsta lagi að útgerðin yrði rekin með eðlilegum hætti. Hann fór ekki nánar út í það, við hvað hann ætti með því að útgerðin yrði rekin með eðlilegum hætti. Nú getum við spurt sjálfa okkur að því. Telur hæstv. viðskrh. að útgerðin sé rekin með eðlilegum hætti ef vel stæð útgerðarfyrirtæki, t. d. í hans kjördæmi, við getum sagt 36–40 tonna bátar eða 50 tonna bátar, vel reknir, sem eru búnir að borga sig niður og skila dálaglegum hagnaði, — ef þeir geta ekki endurnýjað sig, telst útgerðin þá vera rekin með eðlilegum hætti? Hæstv. viðskrh. hristir höfuðið.

Ástandið er þannig í dag, að það getur enginn ungur, duglegur, efnilegur skipstjóri ráðist í skipakaup, eins og áður hefur verið, vegna þess að fjármagnskostnaðurinn er of mikill. Eigum við að nálgast það öðruvísi? Mér skildist á hæstv. forsrh., sem hefur mikið víðsýni og langa reynslu í stjórnmálum og er fljótur að átta sig á hlutunum, — mér skildist á honum áðan að stór og mikil útgerðarfyrirtæki, sem rækju allt í senn: hraðfrystingu, skreiðarframleiðslu og saltfisksverkun, væru mjög vel stödd. Nú skulum við hugsa okkur slíkt fyrirtæki sem rekið væri með fyrirmyndarbrag, það væri viðurkennt af öllum, og væri búið að greiða sín skip vel niður. Stendur þessi rekstur með eðlilegum hætti ef þetta fyrirtæki leggur ekki í að endurnýja sinn togaraflota, leggur ekki í að láta gamlan togara í skiptum fyrir nýjan af því að reksturinn ber það ekki, þrátt fyrir það að eigið fé sé langt yfir þau mörk sem talin eru góð? Auðvitað telst þetta ekki að útgerðin sé rekin með eðlilegum hætti. Telst það að útgerð sé rekin með eðlilegum hætti þegar maður rekst hér í Reykjavík á menn sem fyrir nokkrum misserum komu hér sjaldan, en eru nú orðnir algengir farþegar í flugvélum og eru að ganga hér á milli stofnana, búnir að fá „konverteringu“ á lánum og fara upp í sjútvrn. og spyrja: Hvað meintuð þið með því sem þið voruð að segja við okkur í vor eða í haust? Áttum við að fá eitthvað meira? Áttum við t. d. að fá rekstrargrundvöll? — Hvað er svo sagt við þá uppi í sjútvrn.? Það er sagt við þá: Farið í sjóðina og semjið um það, hvernig þið getið bjargað lambsskinnunum. Þið fáið ekki meira. Ef þið hefðuð skuldað olíu en ekki sjóðunum, þá fengjuð þið kannske „konverteringu“. En úr því að þú skuldar ekki olíu færð þú enga „konverteringu“.

Er þetta að hafa eðlileg rekstrarskilyrði, að það sé ekki sama hver rekstrarkostnaðurinn sé sem skuldaður er? Telst útgerð í landinu vera rekin með eðlilegum hætti þegar það liggur fyrir að einstakir ráðherrar hafa komið að máli við innheimtumenn opinberra gjalda og farið fram á það við sýslumenn að innheimta ekki með eðlilegum hætti opinber gjöld til þess að hlífa útgerðarfyrirtækjum, þegar farið hefur verið fram á það af stjórnarráðinu við Póstgíróstofu að láta ekki standa í skilum með orlof, þegar talað er um það af löggiltum endurskoðanda, að viðstöddum fulltrúum ríkisstj., að fyrirtæki séu kannske með mjög góða eiginfjárstöðu en útilokað sé að komast yfir rekstrarörðugleika? Hvernig skyldi standa á því, að öll þessi mörgu grónu fyrirtæki, sem risið hafa upp á s. l. árum, eiga nú í erfiðleikum? Af hverju skyldi ganga á eignirnar?

Hæstv. forsrh., sem hefur óvenjumikla yfirsýn og hefur kynnt sér málin vel, sagði áðan að tapið á bátaflotanum væri minna í ár en það hefði verið í 10 ár, — ég man ekki hvað það var, ég held að það hafi ekki verið í öldum reiknað, stæði heldur skár en undanfarin 10 ár, — afkoma sjávarútgerðarinnar í heild. Ef þetta er rétt, hvenær urðu þá þær miklu eignir til sem eru í útgerðinni? Ég get nefnt fjölmörg útgerðarfyrirtæki sem skiluðu ágætum hagnaði, ég tala nú ekki um fyrstu árin eftir að viðreisnin hætti og aftur þegar 1. þm. Vestf. var sjútvrh. og hv. 1. þm. Reykv. var forsrh. Þá var töluvert um eignamyndun í sjávarútveginum. En nú er alltaf verið að ganga á eignirnar. Þannig hefur þetta breyst. Ég kann ekki að reikna, kann ekki á neinar reikningskúnstir, en ég á bók heima sem ég kíki annað slagið í þegar ég er að átta mig á Þjóðviljanum. Hún heitir: „Hvernig lýgur þú með statistik.“ Það skyldi nú ekki fara svo, að maður yrði að rifja þessa bók upp líka til þess að skilja ræður hæstv. forsrh.?

Auðvitað vitum við það öll, sem hér erum inni, að þær miklu eignir, sem til allrar hamingju eru til í sjávarútveginum, sýna að raunverulegt tap hefur ekki verið öll þessi ár í sjávarútvegi. Hvers vegna skyldu allir þessir menn leggja leið sína núna upp í Framkvæmdastofnun sem jafnvel hafa aldrei komið þangað áður, — duglegir menn, gætnir menn, sem reka sín fyrirtæki vel, eru vaknir og sofnir yfir rekstrinum, leggja sig fram um nýtni, leggja sig fram um að framleiða þær réttu tegundir sem best verð fæst fyrir? Samt sem áður þurfa þeir að fara og biðja um einhver hungurlán inni í Framkvæmdastofnun. Svo er sagt við okkur hér að afkoman sé betri núna, heldur skárri en hún hafi verið undanfarin 10 ár. Þetta er einhver flatur reikningur. Ætli þetta sé ekki álíka reikningur og þegar hæstv. forsrh. gaf út eftirfarandi fréttatilkynningu fyrir ári, þegar hann var að tala um hvað verðbólgan hefði lækkað mikið? Verðbólgan hefur þannig hjaðnað úr rúmlega 60% í 51% á starfstíma ríkisstjórnarinnar, segir þar, reiknuð á ársgrundvelli. Ríkisstjórnin mun vinna að áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu misserum og stuðla að því að tryggja sem best kaupmátt launafólks.

Ég biðst afsökunar, herra forseti, ég gleymdi að biðja leyfis að fá að lesa upp drottins orðið.

En hvert var framhaldið af þessu? Stóð ríkisstj. við að vernda þann kaupmátt sem var 12. nóv. 1980? Fjallaði ræða hæstv. forsrh. um að vernda þann kaupmátt? Ætli þetta sé ekki viðlíka reikningur og reikningurinn um það að eignamyndunin í sjávarútveginum hafi öll orðið á þessu ári? Eða hvernig bar að skilja þetta? Auðvitað vitum við að sjávarútvegurinn er ekki, hvorki togaraflotinn né bátaflotinn, rekinn með hagnaði eins og nú standa sakir. Það væri fróðlegt að sjá þær tölur sem hæstv. forsrh. hefur um október-grundvöllinn í sambandi við bátaflotann, ef hann framreiknaði þann grundvöll í samræmi við lægra gengi og kauphækkanir. Hvað skyldi koma út úr því? Það mætti segja mér að út úr því kæmi að hallinn á bátaflotanum væri í kringum 5–6% ef rétt væri reiknað. Væri fróðlegt að heyra hvað hann fengi út úr því, t. d. ef hann hefði fyrir því að hringja upp í Þjóðhagsstofnun eða tala við alla efnahagssérfræðinga sína sem eru komnir á laun í forsrn. Annars sagði hæstv. forsrh. fyrir tæpu ári, á gamlársdag, og þóttist góður, þegar hann fullyrti við þjóð sína að hann væri að segja satt, með leyfi hæstv. forseta: „Að undanförnu hefur ríkisstj. reynt að búa þannig um hnúta, að útflutningsatvinnuvegir geti lifað og dafnað við stöðugt gengi. Nú í árslok hefur það gerst í fyrsta sinn um alllangt skeið, að allar greinar fiskvinnslunnar hafa jákvæða afkomu. Frystiiðnaðurinn, sem átt hefur á þessu ári í alvarlegum erfiðleikum, hefur nú að mati Þjóðhagsstofnunar um 3.5% í afgang.“ Ef þessi orð voru sögð til þess að upplýsa almenning í landinu en ekki til að vekja rangar hugmyndir, væri þá staða fiskvinnslunnar í dag eins og hún er? Er hægt að útskýra stöðu fiskvinnslunnar þannig? Hefur eitthvað óvænt gerst, síðan þessi orð voru sögð, sem veldur því, að staða fiskvinnslunnar ætti að vera verri? Ég man ekki betur en hæstv. viðskrh. hafi einmitt talað um það á næstu vikum eftir að hæstv. forsrh. sagði þetta, að staða fiskvinnslunnar væri betri en vænta mætti vegna hagstæðrar stöðu dollarans. Sá mikli viðskiptabati, sem varð á þessu ári, ætti þess vegna einmitt að hafa valdið því, að það væru alls ekki erfiðleikar núna hjá fiskvinnslunni, ef þessi ummæli hefðu við rök að styðjast, ef þau hefðu staðist og haft merkingu deginum lengur.

En hvernig stóð þá á því, að hæstv. forsrh. treysti sér til að segja þetta? Það stóð þannig á því, að hann notaði jólaleyfið — það er annasamur tími oft hjá hæstv. forsrh. — til þess að láta gengið síga jafnt og þétt. Hann lét lækka gengið jafnt og þétt. Síðan átti ný fiskverðsákvörðun að taka gildi 1. jan. Ummælin áttu m. ö. o. við allan þann fisk sem frystur var á gamlársdag. Er það forsvaranlegt að tala með þessum hætti? Hvernig eiga menn að trúa orðum valdhafanna ef þeir tala með þessum hætti, ef hver einasti maður í landinu, sem ætlar að hlusta á hæstv. forsrh. sinn sem honum þykir vænt um og langar að vita hvað hann meinar, þarf alltaf að vera að spekúlera í hvað hann skyldi nú meina annað en það sem hann segir? Til langframa er áreiðanlega heppilegra að menn reyni nokkurn veginn að segja það sem þeir hugsa, noti merkustu ræður sínar til að segja satt og gefa rétta mynd af ástandinu eins og það er. Það er enginn vafi á því.

Það væri hins vegar skemmtilegt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. viðskrh. hvaða breytingar hann telur nauðsynlegt að gera á rekstrargrundvelli útgerðarinnar til þess að hægt sé að reka bátana með eðlilegum hætti. Telur hann t. d. að þetta skipti svo miklu máli að hann sé reiðubúinn að fórna sínum stól fyrir það? Hefur hann nokkrar meiningar í atvinnumálum og Framsfl. yfirleitt? Ég nenni ekki að tala um þá hina sem sitja í ríkisstj. En hafa þeir framsóknarmenn yfirleitt nokkrar meiningar um það, að atvinnureksturinn þurfi að bera sig, þurfi að ganga, að það sé óskynsamlegt að slátra mjólkurkúnni? Ekki gerir Stefán í Auðbrekku það við sínar kýr. Ekki slátrar hann þeim. Hann er einn stærsti bóndi landsins síðan Björn á Löngumýri. Nei, það er ekki háttur framsóknarbænda í Eyjafirði að byrja á því að slátra mjólkurkúnum. Og ég hef orðið var við það fyrir norðan, að mörgum þar þykir undarlegt hvernig þrengt er að atvinnurekstrinum hér fyrir sunnan. Þeim finnst sínir fulltrúar ekki nógu kokhraustir hér fyrir sunnan, að þeir tali ekki nógu vel upp í ráðamennina um það, hvernig eigi að standa að atvinnurekstrinum.

Vegna þess að ég veit að hæstv. forsrh. vill gjarnan líkjast þeim mönnum öðrum úr Sjálfstfl. sem hafa gegnt hans stöðu, þá langar mig til að rifja það upp, að einn slíkur maður talaði um að það væri höfuðskylda stjórnvalda að sjá um að undirstöðuatvinnuvegirnir hefðu vaxtarskilyrði og rekstrargrundvöll. Þessi forveri hæstv. forsrh. sagði líka að ríkisstjórn, sem ekki gæti gert þetta, væri ekki vanda sínum vaxin og ætti að segja af sér.

En það er náttúrlega varla við því að búast, að hæstv. ráðh. vilji fara að tala við okkur af hreinskilni um rekstrarvanda útgerðarinnar. Ætli verði ekki haldið áfram að fara með fimmaurabrandarana um seðlaprentunina og Matthías Bjarnason? Sama daginn eða sömu vikuna og iðnaðurinn snýr sér til Alþingis vegna þess, hversu bág staða hans er, er hæstv. forsrh. að gera grín að þeim erfiðleikum hér í þingsölum til þess að reyna að hitta Matthías Bjarnason, en það var nú „búmerang“ og hitti þann mann fyrir sem tók upp á því gráa gríni, því að auðvitað er það ekkert spaug hvernig búið hefur verið að iðnaðinum í þessu landi. Skal ég ekki fara út í það nú.

Hæstv. viðskrh. talaði um að sjómenn ættu að fá eðlileg kjör, og skal ég taka undir það, og að fiskvinnslan ætti að geta borið sig, og skal ég líka taka undir það. Auðvitað hangir þetta allt þrennt saman. Og það er náttúrlega munurinn á þessum tveim mönnum, að hæstv. viðskrh. gerir sér grein fyrir að það er erfitt um vik að ákveða fiskverð þegar fiskvinnslan getur ekki tekið á sig meiri byrðar, útgerðin er rekin með tapi og sjómenn hafa dregist aftur úr. Hvernig á að skipta engu? Það er enginn afgangur. Þá er auðvitað erfitt fyrir fiskvinnsluna að samþykkja hærra fiskverð. En það sýnir náttúrlega hversu hringavitlaust þetta kerfi okkar er, að hlutirnir hækka á víxl, alveg burt séð frá því, hvort nokkur afgangur er í þjóðarbúinu. Og það er einmitt sú skekkja þessarar ríkisstj. sem verst var, að hún hefur aldrei gert minnstu tilraun til að stilla útgjöldum þjóðarbúsins í heild svo í hóf að það væri í samræmi við afrakstur þess. Það er þess vegna sem sígur á ógæfuhliðina. Á sama tíma og öll teikn benda til að afraksturinn verði minni hrósar hæstv. fjmrh. sér af því að hafa seilst enn dýpra ofan í vasa skattborgaranna.

Ég gat ekki að mér gert að fara að hlæja undir ræðu hæstv. forsrh. þegar hann var að tala um að útgerðin stæði betur núna en hún hefði staðið s. l. 10 ár — eða skár, svo rétt sé haft eftir. Hæstv. forsrh. sagði að bátaflotinn í heild hefði allgóða afkomu, en tók sig þó á. Hann sá að þetta gat ekki alveg staðist svo hann tók sig eitthvað á og fór að tala um að sumir nýrri bátarnir hefðu kannske einhvern fjármagnskostnað. En hvað þýðir það ef nýju bátarnir hafa svo mikinn fjármagnskostnað að þeir geta ekki borið sig? Það þýðir auðvitað að það getur engin endurnýjun orðið í flotanum. Það er sá alvarlegi hlutur. Það er ekki hægt að endurnýja bátana eins og ráðherrabílana. Hvaða skoðanir skyldi hæstv. viðskrh. hafa á því eða hæstv. sjútvrh., sem ég veit nú ekki hvar er, hann er a. m. k. ekki hér á landi frekar en vant er um þetta leyti árs? Hvernig skyldu þeir telja eðlilegt að ráðast gegn þessum vanda, hvernig eigi að endurnýja bátana? Um allt land eru ungir og duglegir skipstjórar og útgerðarmenn sem gjarnan vilja fá nýja báta. Og á það hefur verið bent, að ógjörningur sé að endurnýja þá nema með því að annaðhvort verði af opinberri hálfu efnt til sérstakrar raðsmíði á bátum hér innanlands, sem yrði styrkt af opinberu fé eða nyti sérstakrar fjármagnsfyrirgreiðslu, eða með því að heimila kaup á nýlegum bátum erlendis frá. Auðvitað má ekki blanda því saman, að togaraflotinn er of stór, og hinu, að nauðsynlegt er að endurnýja bátaflotann. Hvernig standa nú þessir menn að vígi sem þurfa að fá leyfi fyrir nýjum bát? Hefur sá maður mesta möguleika til að fá nýja bátinn sem hefur best staðið sig? Eru það meðmæli í augum þessarar hæstv. ríkisstj. með manni sem vill fá nýjan bát, að hann hafi rekið sinn bát með góðum hagnaði, aflað mikið með litlum tilkostnaði? Eða er vænlegra í þessum efnum að vera með einhverja hallærisútgerð, kaupfélagsútgerð? Þegar allt er undir leyfum og pólitískum hrossakaupum komið má auðvitað litli skipstjórinn sín lítils. Þó hann kunni að ganga um sinn bát úti á sjó, þó hann viti hvar eigi að leggja netin, þó að fiskurinn sé fyrsta flokks, þá veit hann ekki hvernig hann á að ganga hér um stjórnarráðið til þess að fá heimild fyrir nýjum bát, af því hann er ekki í klíku, af því hann hefur ekki selt sál sína, af því hann kann ekki að fóta sig í þessu vonda þjóðfélagi pots og sérréttinda sem við erum að búa til. Þess eru jafnvel dæmi að frekjast hafi verið til að kaupa togara á staðina og það látið bitna á þeim duglegu útgerðarmönnum sem búa á viðkomandi stöðum.

Nú var það auðvitað eftirtektarvert í ræðu hæstv. forsrh., sem hefur brugðið sér frá, að hann talaði um að öll skip þyrftu ekki á jafnháu fiskverði að halda, sum skip væru nýrri en önnur, eins og nýju togararnir. Þau þyrftu að greiða miklar fúlgur í vexti og afborganir. Og hann varpaði fram þeirri spurningu, hvort öll skip þyrftu jafnhátt fiskverð. Þetta er náttúrlega afskaplega merkileg yfirlýsing. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því, hvernig hæstv. forsrh. hugsar sér það. Hann getur náttúrlega hugsað sér að ríkið greiði háar fjárfúlgur upp í fjármagnskostnað nýjustu togaranna. Það má vel vera að það sé í athugun og verði gert nú um áramótin. En við erum að afgreiða fjárlög þessa dagana sem eiga að taka gildi 1. jan. Ef til stendur að greiða úr ríkissjóði háar fjárfúlgur vegna fjármagnskostnaðar togaraflotans, af hverju er þá ekki farið að ræða um það í fjvn.? Svo er annað. Vera má að það hafi verið rætt um það á fundi fjh.- og viðskn. Ed. áðan að setja inn í lánsfjáráætlun ríkisstj. að það ætti að taka einhver sérstök erlend lán eða lán í Seðlabankanum eða lán hjá lífeyrissjóðunum eða lán hjá litlu börnunum, að ríkissjóður taki á sig fjármagnskostnaðinn með lántökum. Hæstv. forsrh. leggur mikla áherslu á það núna að afgreiða lánsfjáráætlunina. Ég vænti þess þá, ef það stendur til, að sá möguleiki hafi verið ræddur á sameiginlegum fundum fjh.- og viðskn. Ég á ekki sæti þar. Ég á hins vegar sæti í sjútvn. og ég veit að það mál hefur ekki borið á góma þar. Og þegar ég hef farið upp í ráðuneyti og annað til að fá einhverjar upplýsingar, þá hefur ekki verið talað um neinar upphæðir í þessu sambandi sem máli skipta. Það var eitthvert lítilræði í sambandi við framlag ríkissjóðs í Fiskveiðasjóð sem talað var um, annað ekki, ekkert sem máli skiptir í sambandi við þann gífurlega halla sem er á togararekstrinum. Það er miklu, miklu meiri halli en svo að menn geti leyft sér að tala bara um það í framhjáhlaupi án þess að gera grein fyrir sínu máli.

Ef könnuð er fjárvöntun í rekstri meðalskips, og tekin þau 19 úrtaksskip sem könnuð voru nú í október, — það er síður en svo að talan 19 sé endanleg tala um þau skip sem eiga í mestum erfiðleikum, þetta er einungis sá fjöldi togara sem sendir fullnægjandi gögn til þess að hægt sé að gera sómasamlegt yfirlit um þeirra rekstur, — þá kemur í ljós að fjárvöntunin í rekstri meðalskips er 2 531 017 kr. á ári eða um 16% af heildartekjunum. Í þessari skýrslu segir enn fremur að til þess að meðalskip í úrtakinu væri rekið hallalaust þyrfti fiskverð að hækka um 33.3% miðað við aðalforsendur rekstraráætlunar. Á sama hátt þyrfti aflamagn að aukast í 5 500 tonn á ári í 4 162 tonnum til þess að hallalausum rekstri yrði náð, hvorki meira né minna. Svo talar hæstv. viðskrh. um það í forföllum sjútvrh., að markmiðið hjá ríkisstj. sé að koma útgerðinni á eðlilegan grundvöll. Það er út af fyrir sig gott að opna viðræður um það. En við hvað er átt með því? Er þetta bara til að láta prenta hjá Þjóðviljanum og Tímanum að markmiðið sé að fá einhvern eðlilegan grundvöll? Eða stendur til hjá hæstv. ríkisstj. að gera eitthvað til þess að sá eðlilegi grundvöllur náist? Það skyldi þá ekki fara svo eftir nokkur misseri, að sá Herakles fyndist sem gæti hreinsað fjósið?

Það er auðvitað alveg rétt hjá hæstv. forsrh. sem hann sagði í dag, að það hefur enginn hagnaður verið af hraðfrystiiðnaðinum á þessu ári, nema síður sé. Það er vitaskuld alveg hárrétt. Ég hafði pínulítið gaman af því, þegar hann var með vangaveltur um stóru fyrirtækin sem rækju allar greinarnar, skreiðarframleiðslu, saltfisksframleiðslu og frystingu. En ég skildi ekki þegar hæstv. forsrh. varpaði fram þeirri spurningu, hvort eðlilegt og sanngjarnt væri gagnvart þessum fyrirtækjum að krefjast þess, að ráðstafanir væru gerðar með verulegum gengislækkunum eða á annan veg til að frystingin bæri sig og þar með um leið að stórauka hagnaðinn bæði af skreið og saltfiski. Ég skildi ekki alveg við hvað hann átti. Nú vitum við náttúrlega um skreiðina, að verðið á henni hefur alls ekki verið jafnhátt á þessu hausti og reiknað hafði verið með á s. l. vetri. Nígeríumenn hafa látið standa á því að opna ábyrgðir, með þeim afleiðingum að fjármagnskostnaðurinn hefur aukist og birgðakostnaðurinn hefur aukist. Enn fremur hefur verðið lækkað og þar að auki hafa orðið innbyrðis breytingar á skreiðinni sem valda því, að við höfum borið minna úr býtum en ella. Þannig hefur langan fallið í verðflokki og er núna með ýsunni í staðinn fyrir að hún var áður með þorskinum. Svo er mér ekki kunnugt um annað en að t. d. hausaverkunin standi mjög illa. Það eru miklar birgðir víða í landinu af hausum. Hins vegar hefur ekki opnast ábyrgð fyrir hana. Þarna festa menn sitt fé og mér er ekki alveg ljóst hver niðurstaðan verður þegar upp er staðið. (Gripið fram í.) Á hinn bóginn vil ég minna á það, að Skreiðarsamlagið hefur farið fram á það við ríkisstj. hvað eftir annað að sendiráð verði opnað í Nígeríu — eða a. m. k. reynt að ráða þar ræðismann, þó ekki væri annað, til að gæta íslenskra hagsmuna. Við eigum auðvitað mjög mikil viðskipti við Afríku og það væri ekkert óeðlilegt að við veldum Nígeríu sem það land sem við opnuðum sendiráð í til að gæta hagsmuna okkar þar, því að Nígería er að verða eitt af okkar stærstu viðskiptalöndum og þýðingarmikið sérstaklega fyrir þá sök, að Nígeríumenn greiða okkur í beinhörðum gjaldeyri en ekki er um vöruskipti að ræða af einu eða öðru tagi.

Nú geri ég ráð fyrir að hæstv. forsrh. viti á þessari stundu allt um það hvernig skreiðarverðið verður á næsta ári í Nígeríu. En ýmsir aðrir menn vita minna um það. Ég geri t. d. ráð fyrir að hæstv. viðskrh. sé ekki reiðubúinn að tala um það á þessari stundu, hvaða verð hann muni fá á Nígeríumarkaðnum á næsta ári. Ég veit ekki betur en þaðan sé komin sendinefnd nú nýverið sem hafi ekki komist langt áleiðis í sínum þreifingum, enda voru Norðmenn nýbúnir að vera þar á ferðinni og það hefur aldrei verið neitt heillamerki að eiga í harðri samkeppni við þá á fiskmörkuðunum. Ég held því að það séu allt ágiskanir út í loftið og raunar úr tómri tunnu talað þegar verið er að halda því fram, að skreiðarframleiðslan standi um þessar mundir sérstaklega vel. Þetta minnir mig hálfpartinn á skemmtilegar umræður sem fóru fram í Ed. vorið 1974 þegar þáv. hæstv. forsrh. var að tala um að hengja upp fyrir fluguna.

Þegar hæstv. forsrh. talar um það í dag, að það sé bjart fram undan á saltfiskmörkuðum og að saltfisksverkunin geti greitt svo og svo hátt fiskverð eftir áramótin og jafnvel greitt upp tapið á frystingunni, þá miðar hann kannske við það, að meðalverðið á dollar verði svipað á næsta ári og það hefur verið á þessu. Vel má vera líka að hæstv. forsrh. reikni með sama dollaraverði t. d. í Portúgal. En ég er ekki viss um að það náist heldur. Þarna er talað af allt of mikilli óskhyggju og ábyrgðarleysi. Auðvitað liggur ekkert fyrir á þessari stundu um hvernig næsti vetur muni koma út. Hitt er auðvitað rétt, að það bætir stöðuna og gefur svigrúm að allar greinar sjávarútvegsins skuli þó ekki vera á hausnum. Það er nú talsvert undrunarefni og það er ekki vafi á því, að ef stjórnin lifir til haustsins verður ekki einu sinni hægt að benda á þorskhausana.

Hér vék hv. 1. landsk. þm. áður að því, hvernig tónninn hefur verið frá þessari hæstv. ríkisstj. til sjómannanna. Skal ég ekki fara inn á það. En ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, að ræða hæstv. forsrh. bar það með sér að nú er í athugun hjá ríkisstj. — hann verður ekki öðruvísi skilinn — að færa á milli fyrirtækja í landinu. Ef hæstv. ríkisstj. telur að eitt fyrirtæki sé aflögufært á að taka peninga frá því og setja í annað fyrirtæki sem er ekki eins aflögufært. Ef skreiðarframleiðandinn er samkv. tölum Þjóðhagsstofnunar talinn græða eitthvað á skreiðinni, þá á að klípa af því ögn og setja í Sambandsfrystihúsin o. s. frv.

Auðvitað er ekki hægt að reka þjóðfélag með þessum hætti. Auðvitað verðum við að byggja útflutningsframleiðsluna þannig upp að hún standi undir sér. Og auðvitað voru þeir menn, sem kosnir voru á þing fyrir Sjálfstfl. í síðustu kosningum, ekki til þess kjörnir og hafa ekki til þess umboð að koma aftur á uppbótakerfi hér á landi, fölskum gjaldmiðli og mismunandi gengi krónunnar eftir því hvaða framleiðsla eða hvaða menn eiga hlut að máli, síður en svo.

Ég sé að tíminn hefur hlaupið frá mér, herra forseti. Það hefði vissulega verið ástæða til að ræða þessi mál miklu ítarlegar, ræða hæstv. forsrh. gaf tilefni til þess. Á hinn bóginn er ég ekki óánægður yfir þeirri ræðu. Það kom bara á daginn að í athugun eru hjá ríkisstj. ýmsar ráðstafanir sem átti að halda leyndum á meðan þingið situr. Síðan á að fara fram á það fyrir jólin að Alþingi afsali sér löggjafarvaldinu, það á að senda menn heim. Síðan á að takast á við sjómenn. Síðan á að gera eitt og annað. Ég veit ekki hvort eða hvar það verður gert. (Gripið fram í: Það verður mikil glíma.) En ég geri ráð fyrir því, að viðkomandi menn verði ekki afskaplega háreistir þegar þeir eftir á þurfa að gera grein fyrir sínum málum hér á Alþingi, ef þeir þá koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut, sem er náttúrlega mesta spurningin, því að auðvitað eru þessar bollaleggingar hæstv. forsrh. af því tagi, að maður finnur að ekki hefur náðst samstaða um þær innan ríkisstj. Hann langar til að stíga í vænginn við hæstv. félmrh. Svo er bara spurningin hvert þrekið verður. Ég veit að þeir eru hraustir og og stæðilegir, ýmsir af ráðherrum Framsfl. Best treysti ég hæstv. utanrrh. til að standa sig þegar í nauðirnar rekur. Hann er vanur að kljást við þá suma hverja sem kveinkuðu sér undan honum meðan við höfðum forsrh. í landinu sem menn höfðu ástæðu til að kveinka sér undan ef þeir höguðu sér ekki vel. Það má vel vera að í þessu máli verði hann að taka að sér það hlutverk undir lokin að verða í reynd sá maður sem ber eitthvað saman, einhverja niðurstöðu. Sú niðurstaða verður þó ekki í samræmi við ummæli hæstv. forsrh., að færa á milli greina, flækja efnahagskerfið, rugla rekstrargrundvöllinn og skekkja þjóðlífsmyndina. Það er ekki sú leið sem hæstv. utanrrh. vill fara. Eins og áður verðum við að leggja okkar traust á hann, því að við vitum að hann á það til að láta til sín heyra ef hann telur ástæðu til.