17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til þess, að við í þessari hv. deild gefum okkur góðan tíma til að fjalla um það frv. til lánsfjárlaga sem hér er til umr., svo mjög sem það mun snerta alla þróun og gang efnahagsmála næsta árið og raunar lengur. Það fer ekki hjá því nú þessa síðustu starfsdaga þingsins fyrir jól við þessar umr., að inn í þær blandist nokkuð staða og horfur í efnahagsmálum almennt.

Um þetta leyti í fyrra var mjög að því spurt, til hverra ráðstafana hæstv. ríkisstj. hygðist grípa í efnahagsmálum, svo sem fyrirsjáanlegt var og raunar höfðu verið boðaðar. Þá varð næsta fátt um svör hjá hæstv. ráðherrum þótt eftir væri gengið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, enda var það svo sem ekki skrýtið því engin samstaða var þá um úrræði í efnahagsmálum. Raunar kom rækilega fram síðar að samkomulag náðist ekki milli hæstv. ráðh. fyrr en á gamlársdag og þá náðist samkomulag um það eitt nánast að skerða laun launafólks í landinu um 7%. Það kallaði Alþb. og talsmenn þess „skipti á sléttu“. Hefði einhvern tíma þótt og þykir enn og mun væntanlega þykja um nokkuð langa framtíð athyglisvert hvernig Alþb., sem allajafna og ætíð telur sig málsvara launafólks í landinu, telur sig málsvara þeirra sem lægst hafa launin, — hvernig Alþb. í þessari ríkisstj. stóð fyrir aðför að laununum.

Síðan þetta gerðist hefur margt og mikið gerst. Frá ráðherrum þessarar ríkisstj. hefur það raunar eitt heyrst það sem af er árinu, að nú verði verðbólgan 40% og þar með sé allt á þurru, öllum markmiðum náð, ríkisstj. standi við allt sem hún hafi sagt. En það er nú vert, vegna þess að hér er verið að ræða frv. til lánsfjárlaga fyrir næsta ár, að huga aðeins að því, hvernig að þessu hefur verið staðið á þessu ári.

Það er athyglisvert, að um skeið virtist sem þessi fullyrðing hæstv. forsrh. um 40% verðbólgu um áramót mundi standast reikningslega. Nú er það svo, að ef almennt launafólk væri spurt um hvernig krónurnar í launaumslaginu endist miðað við það sem var í fyrra, þá hygg ég að þau svör mundu verða mjög á eina lund. Þegar horft er til baka og hugað að þróun efnahagsmála á þessu ári kemur það nefnilega í ljós, að hvað sem menn vilja kalla þá þróun, sem orðið hefur, hefur hæstv. ríkisstj. haft næsta lítið með þan mál að gera. Það, sem annars vegar hefur ráðið og stjórnað þróun á þessu ári, er auðvitað fyrst og fremst þróun gengismála erlendis. Það, hversu Bandaríkjadollar styrktist, var sterkur og hélt áfram að styrkjast fram eftir öllu ári, olli því, að við fengum sífellt hækkandi verð fyrir okkar útflutningsafurðir. Samtímis þessu gerðist það svo og var að gerast allt árið, að Evrópumyntir lækkuðu gagnvart dollar þannig að verulega stór hluti innflutnings okkar varð ódýrari. Enn bættust svo við hin hagfelldu skilyrði sem þessari ríkisstj. voru búin af markaðsöflun erlendis að olíuverð hækkaði hvergi nærri eins og við hafði verið búist. Í raun má segja að olíuverð hafi lækkað. Þessari ríkisstj. gekk því allt í haginn á þessu ári að því er hin ytri skilyrði varðaði. En það hefur hvergi nærri verið nóg. Nú stefnir enn í óefni. Nú stefnir enn í sama sullumbullið í efnahagsmálum, sömu bráðabirgðalausnirnar til tveggja, þriggja mánaða sem verið hafa haldreipi ríkisstjórnar hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsens frá því að hún hóf störf.

En andstætt því, sem var í fyrra þegar spurt var og spurt um hvað gera ætti í efnahagsmálum, stangast nú yfirlýsingar hæstv. ráðh. á um það hvað gera skuli. Alþb. lýsir því hátíðlega yfir að núna verði ekki hreyft við kaupinu, hins vegar eigi að taka gjaldeyrisvarasjóðinn og væntanlega dreifa honum til fyrirtækja í sjávarútvegi sem eiga við margvíslega rekstrarörðugleika að etja. (Gripið fram í: Við búum á gulleyjunni.) Þetta verður nú væntanlega gert. — Já, við búum víst á gulleyjunni að mati hæstv. fjmrh. Betur ef satt væri. Aðrir ráðh. í hæstv. ríkisstj. hafa enn aðrar hugmyndir um hvað gera skuli.

En meðan um þetta er þráttað og karpað sígur enn á ógæfuhlið. Hæstv. forsrh. ræðir það í löngu máli, hve afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi sé yfirleitt ágæt og hversu lítið þar þurfi að gera. Það er sjálfsagt rétt ef hin gullna meðaltalsregla er látin gilda um allt. Þetta minnir á þegar hv. formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar var að ræða hér um Flugleiðamálið í fyrra eða hittiðfyrra og talaði um hið fræga meðalfargjald Flugleiða sem átti að vera mjög lágt, en gallinn var bara sá, að það gat enginn maður keypt farseðil á þessu fræga meðalfargjaldi. Eins er nú hætt við, þegar hæstv. forsrh. er að ræða í löngu máli og ítarlegu, sem mér er tjáð að hafi borist vítt og breitt um landsbyggðina nú þegar, um ágæta afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi og beitir þar meðaltalinu, að ekki séu allir alveg sáttir við það og einhvers staðar séu erfiðleikar svo miklir að þar þurfi sérstakar ráðstafanir til að koma og það ekki litlar.

Ég minntist áðan á að frá ríkisstj. og ráðh. heyrðist gjarnan það eitt, að nú væri verðbólgan 40% og síðan væri allt í himnalagi þó að raunar væri allt í kaldakoli býsna víða og stefndi í óefni. En ég hygg að þegar litið verður til baka verði mönnum þetta ár nokkuð minnistætt og að þetta ár verði mönnum minnistætt fyrir þær sakir fyrst og fremst, að þetta er árið sem mesta svindl- og plataðgerð, mesta svindl- og „blöffaðgerð“—ef nota má þá slæmu slettu — efnahagsmála var leikin. Þar á ég við myntbreytinguna. Það leynir sér ekki, þegar rætt er við fólk um hver þróun verðlagsmála hafi verið á þessu ári og hvernig launin endist, að öll svör eru á eina lund. Raunar hafa margir hv. alþm. gert þessi mál að umtalsefni. Þar vil ég sérstaklega nefna hv. 2. þm. Austurl., forseta þessarar deildar, sem gert hefur þessi mál mjög rækilega og skilmerkilega að umræðuefni, hvernig almenningur var í rauninni hlunnfarinn með myntbreytingunni — hlunnfarinn þannig að svo virðist sem verðlagseftirlit hafi gersamlega brugðist, einkum að því er varðar verð á ýmsum smærri varningi. Segir mér ekki aðeins svo hugur um, heldur eru þess skjalfest dæmi, að ýmsir verslunarmenn — þeir eiga þar þó ekki allir jafna eða óskipta sök — notuðu tækifærið við myntbreytinguna og hækkuðu ýmsar vörur ekki aðeins ríflega, heldur margfalt. Það má kannske segja að ríkið hafi undir forustu hæstv. fjmrh. gengið þar á undan með góðu eftirdæmi, því að hér var lögleitt fyrir atbeina ríkisstj. að afnema notkun aura úr öllum opinberum greiðslum. Það var þá sýnt hvert stefndi um alla þróun verðlagsmála. Raunar má segja að ríkið hafi þarna skapað fordæmi.

Það er áreiðanlegt, að þessi myntbreyting hefur valdið launafólki í landinu meiri kjaraskerðingu en nokkur önnur aðgerð efnahagmála á þessu ári. Þá á ég bæði við þá 7% launaskerðingu, sem ríkisstj. lét sig hafa það að bjóða almenningi um s. l. áramót, þá á ég einnig við þær hækkanir, sem leyfðar voru, bæði umbeðnar og óumbeðnar, um síðustu áramót, þá á ég líka við allar þær gengisfellingar, sem ríkisstj. hefur staðið fyrir á árinu, síðast nú nýlega, sem gerði það raunar að verkum að það, sem um var samið í samningum, þau 3.25% fóru þar fyrir lítið. Ég hygg að þessi aðgerð, myntbreytingin og það hvernig að verðlagsmálum hefur verið staðið á árinu, hafi valdið fólki meiri kjaraskerðingu en nokkur önnur aðgerð. Þetta er vissulega alvarlegt mál.

En svo er ekki bara það, heldur ber að hafa í huga líka að vísitala framfærslukostnaðar, sem nú er notast við og nú er hampað og nú er veifað, mælir alls ekki lengur hvað það kostar fólk að lifa. Þar er langur vegur frá. Þar er miðað við 20 ára gamla neyslukönnun sem er ekki í neinu samræmi við lífshætti í dag og það, hvernig útgjaldaskipting venjulegra fjölskyldna nú er. Þetta er vissulega ástæða til að hafa í huga þegar rætt er um þessi mál. — Og þegar verið er að fjalla um þetta er ekki úr vegi að geta þess, að það var verið að leggja í pósthólf þm. fréttabréf Kjararannsóknarnefndar fyrir nóvembermánuð 1981. Þar segir raunar um tímakaup og kaupmátt á bls. 12, með leyfi forseta:

„Kaupmáttur greidds tímakaups jókst verulega á 4. ársfjórðungi 1980 og gætti þar áhrifa nýrra kjarasamninga, sem flestir tóku gildi í lok október 1980.“

Og þá víkur að árinu 1981: „Á 2. ársfjórðungi ársins 1981 rýrnaði kaupmáttur greidds tímakaups í dagvinnu um 0.8% hjá verkamönnum og um 1.8% hjá iðnaðarmönnum, en stóð í stað hjá verkakonum miðað við 1. ársfjórðung ársins 1981.“

Þá er ógetið þeirrar kaupmáttarrýrnunar, sem ekki hefur verið mæld, en vissulega væri ástæða til þess að gerð yrði ítarleg rannsókn á, eins og ég raunar hygg að hv. 2. þm. Austurl., forseti þessarar deildar, hafi gert tillögur um. Sú kaupmáttarrýrnun, sú kjararýrnun er bein afleiðing myntbreytingarinnar um s. l. áramót og þess, hvernig verðlag á ýmsum varningi hefur verið margfaldað. Það mætti nefna um það ýmis dæmi, en ég ætla ekki að gera það hér að þessu sinni. Til þess gefst tækifæri síðar þegar um þau mál verður nánar fjallað.

Það eru ýmis atriði varðandi þetta frv. til lánsfjárlaga sem ástæða er til að gera hér að sérstöku umtalsefni, og mun ég þó aðeins víkja að fáum.

Í ítarlegu nál., sem minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar leggur fram og rætt hefur verið hér í dag, er m. a. vikið að hinni uggvænlegu þróun varðandi erlendar lántökur. Það má vel vera, að þm. stjórnarliðsins þyki það vera að bera í bakkafullan lækinn að gera þau mál enn að umtalsefni hér. Ég hygg þó að svo sé sannarlega ekki. Að því hafa verið leidd gild rök, ekki aðeins í þessari umr. í dag, heldur oftlega áður, og ekki aðeins í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., heldur síðustu ríkisstj. og þar áður og þar áður, hver hætta fylgdi því, ef erlendar lántökur færu um of vaxandi, en okkur eru kunn dæmi úr sögunni þar sem þjóðir hafa beinlínis glatað sjálfstæði sínu þegar siglt hefur verið of krappt í þeim efnum og menn ekki sést fyrir.

Í því Fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar, sem ég vitnaði til áðan, er yfirlit yfir þróunina að því er varðar erlend lán. Þar er yfirlit um greiðslubyrði af erlendum lánum í prósentum af útflutningstekjum. Sé horft aftur í tímann gefur það býsna fróðlega mynd af þeirri þróun sem hér er um að ræða. 1972 var greiðslubyrði af erlendum lánum í prósentum af útflutningstekjum 11.4%. 1973 var þessi sama tala 9.1%, 1974 var hún 11.2%, 1975 hækkar hún nokkuð, upp í 14.2%, 1976 lækkar hún í 13.8 og lækkar síðan næstu ár: 1977 13.7, 1978 13.3, 12.8 fyrir árið 1979, 14. I% fyrir árið 1980. Síðan fer enn að síga meir á ógæfuhlið samkvæmt þeim tölum sem birtar eru í nál. minni hl., því að fyrir árið 1981 er talið að hliðstæð tala, greiðslubyrði erlendra lána sem prósenta af útflutningstekjum, verði 16–17% og á næsta ári enn hærri tala, sú hæsta nokkru sinni, eða 18%. Þetta er vissulega alvarlegt mál. (Forseti: Ég vildi spyrja hv. ræðumann hvenær hann hygðist fresta ræðu sinni. Hann hefur það í raun og veru á valdi sínu varðandi kaflaskipti.) Já, ég er, herra forseti, reiðubúinn að fresta ræðu minni nú þegar og halda henni áfram þegar fundur hefst að nýju. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var þar kominn í máli mínu, þegar fundarhlé var gert hér fyrr í kvöld, að ég var nokkuð að fjalla um erlendar lántökur og hvernig greiðslubyrðin hefur verið vaxandi prósentuhlutfall af útflutningstekjum allar götur síðan 1972, en tölur hafði ég ekki tiltækar yfir lengri tíma. Í ítarlegu áliti minni hl. er töluvert rækilega fjallað um erlenda lánsfjáröflun. Það gefur auðvitað auga leið, að á því er grundvallarmunur hvort um er að ræða erlendar lántökur, sem ætlaðar eru til framkvæmda sem skila arði, eða hvort um er að ræða eyðslu- og neyslulán. Nú er það því miður svo, að sívaxandi hluti af þeim erlendu lánum, sem við tökum, eru eyðslulán, og það sem er enn ískyggilegra er að sívaxandi hluti þessara erlendu lána er tekinn til að standa undir hallarekstri ríkisfyrirtækja. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, sem vissulega væri ástæða til að ræða hér í töluvert löngu máli, hvernig núv. ríkisstj. stendur að rekstri fjölmargra ríkisfyrirtækja sem gætu verið öflug fyrirtæki ef rekstri þeirra væri sýndur eðlilegur skilningur og ef þessi fyrirtæki fengju að hækka gjöld fyrir þjónustu sína með eðlilegum hætti. En á það skortir mjög verulega og því er gripið til þeirrar gervilausnar, sem hlýtur auðvitað að leiða til ófarnaðar áður en langt um líður og í sumum tilvikum innan tiltölulega skamms tíma, að reka þessi fyrirtæki fyrir erlent lánsfé og fjármagna þannig stórfelldan hallarekstur.

Í áliti minni hl. segir um þetta, að nú séu tekin erlend lán til að fjármagna taprekstur ríkisfyrirtækja, og samkv. brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. við þetta frv. er bætt við lánsfjáráætlun 50 millj. kr. erlendu láni til handa Byggðasjóði til að veita hallærislán, eins og það er kallað hér, til undirstöðuframleiðslugreinar þjóðarbúsins, til sjávarútvegsins, og svo er einnig um iðnaðinn. Staðreynd er, að erlend lántaka hefur þrefaldast að raungildi til A- og B-hluta ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja undanfarin ár eða síðan 1979. Nú eru tekin erlend lán til að framlengja erlend lán. Í því sambandi er kannske sérstök ástæða til að vekja athygli á 9. gr. þessa frv. til lánsfjárlaga þar sem svo segir, með leyfi hæstv. forseta.

„Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að taka erlent lán á árinu 1982 að fjárhæð 144 millj. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Framkvæmdasjóður mun jafnframt annast lántöku sem Framleiðsluráði landbúnaðarins er heimilt að taka að fjárhæð allt að 20 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán Framleiðsluráðsins og tekur ábyrgðin jafnt til greiðslu afborgana, vaxta og annars kostnaðar.“

Það er ástæða til að staldra þarna svolítið við. Við Alþfl.-menn höfum hvað eftir annað varað við afleiðingum þess að stofna til stórfelldrar lántöku til að greiða útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir, heldur eigi að fylgja þeim reglum sem eru í lögum um það mark sem þar er sett og við eigum — og um það höfum við raunar flutt tillögur — að reyna að draga úr því fjármagni sem fer til þess að borga með matvælum á erlendum mörkuðum. Nú eru 16 milljarðar gamlir í fjárlagafrv. til þessa. Hér er reiknað með 2, og enn er í fjárlagafrv. reiknað með 2 til að borga af eldri lánum vegna þessa sama. Hér stefnir auðvitað í fullkomið óefni.

Þau eru mörg, plöggin sem berast á borð okkar þm. núna á aðventu, og ekki gefst tími til að lesa þau öll, því miður. Eru þar ekki fyrirferðarminnstir miðarnir frá hæstv. iðnrh., en fleiri leggja hér gott til. Hæstv. forsrh. hefur einnig sent þm. þykkar bækur. Er þar á meðal áfangaskýrsla starfsskilyrðanefndar sem ég veit ekki hvort mönnum hefur gefist tækifæri til að kynna sér, en þar er margvíslegan fróðleik að finna, m. a. um mál sem ég ætla hér að gera að umtalsefni, framleiðslumál landbúnaðarins, sem gera nauðsynlegar þær stórfelldu lántökur sem gert er ráð fyrir í.9. gr. þessa frv. til lánsfjárlaga. Hér er í upphafi kaflans lýsing á því kerfi sem hæstv. núv. ríkisstj. stefnir að að taka upp. Ég ætla að leyfa mér að vitna til skýrslunnar með örfáum orðum, með leyfi hæstv. forseta. (StJ: Ekki samt lesa alla skýrsluna.) Það er sjálfsagt að verða við því, hv. þm. Stefán Jónsson. Við getum byrjað hér, þar sem stendur: „Skipun nefndar og afmörkun verkefnis“, fyrst tilmæli hafa komið þar um, en það gæti reynst drjúglangur lestur. En ég get með glöðu geði lesið fyrir hv. þm. og fleiri hvernig þessi nefnd er til komin. Það er upphafið að þessa nefnd skipaði forsrh. (Gripið fram í.) Já, það gæti orðið það. En þessi nefnd er skipuð 9. sept. 1980 til að gera samanburðarathugun á starfsskilyrðum iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar með tilliti til samkeppnisaðstöðu í útflutningi og á heimamarkaði. Að öllu gamni slepptu ætla ég að vitna til þeirra orða sem ég var að byrja á áðan, en það getur vel verið að ástæða verði til að lesa frekar úr skýrslunni í kvöld. En hér segir frá því kerfi sem núv. ríkisstj. er að leiða stjórn efnahagsmála inn í og leiða okkur inn í. Það segir hér í niðurstöðukaflanum.

„Á stríðsárunum og eftir þróaðist hér hafta- og millifærslukerfi, sem fól í sér mjög misjöfn starfsskilyrði fyrir atvinnugreinarnar. Sjávarútvegur aflaði á þessum árum um 90% af verðmæti útflutningsafurða. Rekstrarstaða sjávarútvegs og annarra útflutningsgreina var oft erfið, þar sem verðbólga og óraunhæf gengisskráning þrengdu sífellt að.“ Allt á þetta við núna og það meira að segja mjög vel. „Sem ráð við því urðu millifærslur og ýmis fríðindi í skattlagningu og fjármögnun helst fyrir valinu.“ Þetta er nákvæmlega það sem okkur er sagt að standi nú fyrir dyrum. — „Iðnaður var svo að segja alveg bundinn heimamarkaði og samkeppnisstaða hans varin með tollum og beinum innflutningshömlum á samkeppnisvörum. Að nokkru leyti vegna þessara aðstæðna var iðnaður yfirleitt settur skör lægra í opinberri fyrirgreiðslu, skattmeðferð og aðgangi að lánsfé.“ — Ég hygg að menn geti verið sammála um að það sé enn satt. „Reynt var að ná ákveðnu tekjustigi fyrir bændur“ — og þá kem ég að þessu „fyrst með einokun innlenda markaðarins og síðar einnig útflutningsuppbótum á umframframleiðslu.“ Allt á þetta við. „Við bættust ýmsar ívilnanir, sérstaklega varðandi fjáröflun.“ Þetta er ekki fortíðin. Þetta er nákvæmlega það sem á sömuleiðis við núna.

Í kafla, sem merktur er 2.1 og heitir „Niðurstöður með tilliti til atvinnugreina“, er rætt fyrst, með leyfi forseta, um landbúnað. Þá er rétt að hafa í huga að landbúnaður er eina meginframleiðslugreinin sem ekki hefur þurft að taka þátt í niðurtalningunni. Þar hefur ekki verið um sömu skerðingu að ræða og hefur verið gagnvart öðrum greinum einhverra hluta vegna. En þar segir svo:

„Landbúnaður býr við nær algera markaðsvernd, sem engin hinna atvinnugreinanna gerir. Þetta á þó ekki við nokkrar smærri búgreinar, svo sem loðdýrarækt, sem er útflutningsgrein, og mjög hliðstæð útflutningsiðnaði í samkeppnisaðstöðu.

Sé litið á önnur skilyrði en markaðsstöðu, er landbúnaður ýmist verr eða betur settur en aðrar greinar, sem nefndinni var falið að athuga.

a) Landbúnaður greiðir hærri aðflutnings- og sölugjöld af innfluttum matföngum en sjávarútvegur og iðnaður.

b) Uppsöfnun söluskatts er meiri en í öðrum greinum og er ekki bætt.“

Þegar litið er á önnur skilyrði en markaðsstöðu er landbúnaður ýmist betur eða verr settur en aðrar greinar, sem nefndinni var falið að athuga, segir hér. Hér kemur og fram, að landbúnaður er undanþeginn launaskatti og bein framlög úr ríkissjóði til landbúnaðar eru meiri en til annarra greina. Fjárfestingar eru fjármagnaðar hlutfallslega minna með lánsfé, en lánskjör bæði til fjárfestingar og rekstrar eru landbúnaði hagstæð.

Ég ætla ekki að sinni að vitna frekar í þessa löngu og ítarlegu áfangaskýrslu. Það er rétt að benda á að þetta er aðeins áfangaskýrsla. Það má guð vita hversu stórt það plagg verður sem þm. fá í hendur þegar þessi nefnd skilar endanlegri skýrslu. Í þessu sambandi væri kannske ekki úr vegi að koma því á framfæri við hæstv. forsrh. og til þeirrar nefndar, sem þarna á hlut að máli, að ólíkt hygg ég að væri skynsamlegra og vænlegra til árangurs og vænlegra til þess að menn kynntu sér málin ef niðurstöðum á borð við þetta væri skilað samandregnum í styttra mál. Þá væri þó von til þess, að menn læsu það. Ég held að því miður fari ekki hjá því í öllu pappírs- og gagnaflóði, sem þm. berst í viku hverri, að ýmislegt verði út undan, ýmislegt sé ekki lesið sem vissulega væri ástæða til að lesa. Þess vegna ber ég þessa ósk fram og á raunar við fleira. Mætti hæstv. iðnrh. t. d. taka sér það til eftirbreytni að skila þm. skýrslum sem væru gagnorðari, aðgengilegri og læsilegri en verið hefur.

Ég hef hér nokkuð fjallað um erlendar lántökur og gagnrýnt það eins og aðrir stjórnarandstæðingar, hvert stefnir þar. En það er ekki þar með sagt að ekki sé ástæða til að afla erlendra lána til arðbærra framkvæmda. Það eru eyðslulánin og rekstrarlánin sem ég hef verið að gagnrýna.

Þá kem ég að því, sem vissulega er ástæða til að fara hér um nokkrum orðum og hefur raunar verið drepið stuttlega á, en það er beiðni frá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar um fyrirgreiðslu í sambandi við lánsfjáráætlun. Það hefur ekkert svar fengist við því, hvort orðið verður við þessu. Það er ljóst, að það verður ekki gert í lánsfjáráætlun, en hins vegar er forsvarsmönnum Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sagt í öðru orðinu að það sé vonandi að hún geti rúmast annars staðar, hún geti rúmast innan orkumálaþáttar fjárlaga. Hér er sem sagt allt óljóst og svör öll mjög þokukennd, hvorki sagt í rauninni af né á. Þó svo amast sé við erlendum lántökum á það ekki við um skynsamlegar orkuframkvæmdir sem sannanlega skila þjóðarbúinu miklu og ástæða er til að hraða fremur en að draga á langinn. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna hér til beiðni frá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sem þm. Vesturl. barst í byrjun þessa mánaðar. Það er beiðni sem er undirrituð af hitaveitustjóra Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og er á þessa leið:

„Ég sendi hér með beiðni Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar um rýmkun á lánsfjárheimild þessa árs í von um að þú getir liðkað fyrir því að þetta fáist samþykkt.

Beiðni þessi var send iðnrn. þeir kváðust leggja hana fyrir fjh.- og viðskn. Alþingis. Á síðasta ári kom upp sama staða af svipuðum ástæðum. Þá var erindið sent beint til fjmrh. Ljósrit fylgir af því bréfi og grg. Í fyrra var málið afgreitt þannig, að leyft var að taka lán sem var svipað í dollurum og upphafleg áætlun hafði gert ráð fyrir, en að sjálfsögðu var það verulega hærra en nam krónutölu lánsfjáráætlunar.

Framkvæmdir við hitaveituna hafa gengið vel í ár. Dæling hófst í Deildartungu 27. okt. Þar er þó eftir um viku vinna við virkjun á hvernum o. fl. Útlit er fyrir að takist að fylla lögnina til Akraness í dag, 1. des., og hægt verði að hleypa vatni á hús eftir um það bil vikutíma.“

Af hálfu Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar var iðnrn. skrifað hinn 25. nóv. núna í haust og þar segir, að ljóst sé orðið að lán samkv. lánsfjáráætlun 1981 nægi ekki til að standa skil á greiðslum sem falla til áramóta. Nauðsynleg viðbótarlán virðast vera um 15 millj. kr. Fjárhagsáætlun, sem gerð var 30. okt. 1980 og síðan uppreiknuð miðað við 1. jan. 1981, gerði ráð fyrir að framkvæmdakostnaður ársins yrði 63 millj. 560 þús., þar af væri fjármagnskostnaður 18.8 millj., tekjur 14.9 og lánsfjárþörf 67.4 millj. Í lok þessa bréfs segir á þá leið, að nú sé orðið ljóst að greiðslur vegna framkvæmda muni dragast eitthvað fram á næsta ár og ætti því að duga hitaveitunni að fá heimild til 15 millj. kr. viðbótarlántöku eins og fram er tekið í byrjun. „Ekki ætti að þurfa,“ segir hér, „að hrófla við áætlun næsta árs af þeim sökum, þar sem gera má ráð fyrir að þau stofngjöld, sem ekki hafa innheimst á þessu ári, náist inn á því næsta og gangi á móti þeim kostnaði sem flyst á milli ára.“

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd hér er um að ræða. Það er hæstv. forsrh., veit ég er, mætavel kunnugt því að hann fylgdist gerla með öllum undirbúningi þessa máls og átti raunar mikinn þátt í að þetta komst af stað, sem vissulega ber að þakka. Þess vegna þykir mér það miður að þetta ágæta fyrirtæki, sem íbúar Vesturlandskjördæmis eiga mikið undir að komist sem allra fyrst í gagnið, skuli ekki njóta velvildar í ríkisstj. núna svo sem það áður gerði. Það þarf ekki að færa mörg rök fyrir þessu. Það nægir hversu hagkvæmt þetta er. Það nægir að vitna í örstuttu máli í grg. sem fylgdi með beiðni um rýmkun lánsfjárheimildar í fyrra, en þar segir, með leyfi forseta:

„Olíusala á starfssvæði Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar er röskir 3 milljarðar kr. á ári miðað við núverandi verðlag. Eftir að hitaveitan tekur til starfa eru árlegar tekjur veitunnar áætlaðar 1.6 milljarðar kr. á ári. M. ö. o.: á svæðinu munu sparast um 1.4 milljarðar kr. á ári, en orkuverð er áætlað um 55% af viðmiðunarverði olíukyndingar. Það má því ljóst vera að mikið er í húfi að ekki dragist að tengja hús við veituna frá fyrirhuguðum áætlunum.

Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar hefur frá öndverðu notið mikils skilnings stjórnvalda. Stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar er enn fremur ljóst, að við mikla erfiðleika er að etja í efnahagsmálum. Þess vegna vill hitaveitan nú óska eftir viðræðum við hv. rn. með það fyrir augum að finna farsæla lausn á fyrirséðum greiðsluerfiðleikum veitunnar áður en í nauðir rekur.“

Þessi orð eiga nákvæmlega eins vel við núna og þau áttu fyrir ári, og það er sannarlega miður að þetta þjóðþrifafyrirtæki skuli ekki hafa fengið svör við þessari beiðni. Hér er um gífurlegt hagsmunamál að ræða fyrir alla þá sem búa í suðurhluta kjördæmisins. Þeir, sem búa í norðurhluta Vesturlandskjördæmis, nánar tiltekið í þéttbýlisstöðum á norðanverðu Snæfellsnesi, eiga ekki því láni að fagna enn sem komið er að eiga aðgang að hitaveitum. Hins vegar hafa verið gerðar áætlanir um fjarvarmaveitur þar, þar sem vatn yrði hitað með raforku, en þar stendur allt fast. Ég hef í Sþ. borið fram fsp. til hæstv. iðnrh. um hvað líði ákvörðun um orkuverð til fjarvarmaveitna á þessu svæði. Í öndverðum desembermánuði í fyrra bar ég fram sams konar fsp. og fékk þá þau svör hjá hæstv. iðnrh., að hann mundi stuðla að því, að mjög fljótlega yrði mótuð stefna að því er þessi orkumál þéttbýlisstaðanna á norðanverðu Snæfellsnesi varðaði. Síðan hefur hins vegar nákvæmlega ekkert gerst í því máli. Því miður er hæstv. iðnrh. ekki viðstaddur, annars hefði ég beint til hans spurningu af þessu tilefni. Það gefst e. t. v. tækifæri til þess síðar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni, en vara mjög alvarlega við því að haldið sé áfram á þeirri braut, sem hér er mörkuð og þessi hæstv. ríkisstj. fetar, að taka sífellt meira af erlendum lánum til rekstrar og eyðslu, en að síminnkandi hluti lánanna skuli fara til arðbærra framkvæmda, svo sem orkuframkvæmda. Þetta er hættulegt og ég hygg að öllum hv. þm. sé það ljóst.