17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Mig langar fyrst að bera fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh., ef hann væri viðstaddur. (Forseti: Já, ég hef gert ráðstafanir til þess, enda gengur ráðh. í salinn.) Svo er mál með vexti, að á undanförnum — ég held að ég fari rétt með — 10 árum hefur verið unnið að því að byggja upp í Vestmannaeyjahöfn skipalyftu. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum sendi beiðni um fjármagn til þessa fyrirtækis og fjármögnun þess til samgrn., sem dags, var 2. sept. s. l. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með vísun til fyrri bréfaskrifa vegna fjármögnunarframkvæmda við skipalyftuna í Vestmannaeyjum viljum vér hér með óska eftir því, að ráðuneyti yðar hlutist til um að hafnarsjóði Vestmannaeyja verði útvegað og heimilað að taka allt að 6.5 millj. kr. lán á næsta ári svo að ljúka megi við 1. áfanga framkvæmda við skipalyftuna. Óskað er jafnframt eftir 4 millj. fjárveitingu úr ríkissjóði til framkvæmdanna. Ofangreindar upphæðir eru miðaðar við það, að heildarframkvæmdakostnaður á næsta ári verði um 10.5 millj. kr. samkv. kostnaðaráætlun sem fylgir hjálögð. við höfum auknar upplýsingar og er okkur ljúft að veita þær verði um það beðið.“

Nú er það svo að framkvæmdir hafa gengið mjög vel við þetta fyrirtæki. Dokkin er tilbúin. Fyrirtæki, sem hefur tekið að sér reksturinn á þessu, er að reisa þarna hús. Það eru veittar 4 millj. til verksins á fjárlögum. Mig langar að spyrjast fyrir um það hjá fjmrh., hvað hann hafi hugsað sér að gera til að leysa þetta mál eða hvernig því verði haldið áfram. Það var ættað að ljúka verkinu 1. júní á næsta ári samkv. þar til gerðum samningum og tilboðum. Þetta mál brennur því æðimikið á bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum og hafnarstjórn. Ég vildi gjarnan fá, ef hægt væri, svar við þessu áður en umr. lýkur.

Annað er hitt, að mig langar líka að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. Er hann hér? (Forseti: Ég skal að sjálfsögðu gera ráðstafanir til þess að hæstv. iðnrh. verði hér viðstaddur. Hann mun vera í Nd.) Mig langar að spyrjast fyrir vegna þess að ég hef fengið afrit af bréfum sem farið hafa á milli stjórnar Landsvirkjunar og iðnrn. Það er ekki lengra síðan en í fyrrakvöld að í Sþ. var rædd þáltill. okkar hv. þm. Sigurðar Óskarssonar um orkufrekan iðnað á Suðurlandi og yfirleitt um atvinnumál Sunnlendinga. Ég held að flestir, sem til þekkja, telji fulla ástæðu til að hafa nokkrar áhyggjur af þróun mála þar. Okkur skildist í þeim umr. að til stæði að halda áfram framkvæmdum við Sultartangastíflu á komandi vetri og því hefði fólk, sem hefur unnið þarna inni í hálendinu, ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af atvinnu sinni. Satt að segja töldum við okkur geta verið ánægða með útlit og horfur þar á næstunni. Nú sýnist vera búið að bjóða þessi verk út eða þau séu tilbúin til framkvæmda. Þarna hafa farið fram bréfaskriftir og hér segir:

„Stjórn Landsvirkjunar hefur nú ákveðið að fara skuli í framkvæmdir við stíflugerðina, miðað við að henni verði lokið árið 1983, og fullnægjandi verk boðið út um næstu áramót. Stíflugerðin mun auka til muna rekstraröryggi orkuvera Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu, og eftir tilkomu stíflunnar verður sú hætta úr sögunni, að Búrfellsstöð geti orðið fyrir alvarlegri rekstrartruflun af sökum ísvandamála í Þjórsá.“

Ráðuneytið svarar þessu. Í því bréfi er vísað til þessa bréfs Landsvirkjunar og þar segir í niðurlagi: „Ráðuneytið telur nauðsynlegt að tryggja sem best rekstraröryggi og raforkuframboð á landskerfinu á næstu árum og óskar eftir mati Landsvirkjunar um orkuþörf á árunum 1982–1984 í ljósi ofangreindra viðhorfa. Að því fengnu mun rn. taka afstöðu til beiðni Landsvirkjunar varðandi framkvæmdir við Sultartangastíflu.“

Nú langar mig að spyrjast fyrir um það, hvort raunverulega sé verið að hverfa frá áætlunum eða að draga það að í þessar framkvæmdir verði ráðist á næstunni, eins og við höfum talið að til stæði.

Það kom fram í máli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann talaði fyrir áliti meiri hl. n. í dag, að innlend sparifjármyndun væri undirstaða framkvæmda í landinu og að það yrði að hverfa frá því að leysa tiltekin rekstrarlán með erlendum lántökum. Ég get vel fallist á að þetta sé vissulega það sem nauðsynlegt sé. Og því miður er ástandið þannig í íslenskum sjávarútvegi, að þar eru fyrirtæki í hópum að taka dýr erlend lán. Mig langar þess vegna að fara örfáum orðum um ástandið í íslenskum sjávarútvegi.

Í stjórnarsáttmálanum frá því í febr. 1980 segir í kaflanum um sjávarútveg, með leyfi forseta:

„Lögð verði áhersla á að auka nýtingu hráefnis og draga út kostnaði, jafnt við veiðar og vinnslu. Gerð verði áætlun um framleiðniaukningu í fiskiðnaði og sérstök áhersla lögð á, að fiskverkunarfyrirtæki nái almennt því marki í hagkvæmum rekstri, sem nú þekkist best. Ráðstafanir verði gerðar til þess að beina fjármagni til þessa verkefnis.

Aukin verði hagnýting þeirra fiskstofna, sem nú eru lítið nýttir, samhliða því að fjölbreytni í fiskverkun og hagnýtingu sjávarfangs verði aukin.“

Ég held að það vanti ákaflega mikið á að þessum markmiðum verði náð með nokkrum hætti. Ef við viljum líta á sjávarútveginn, þá verður því ekki neitað, að þar hefur verið verulegur rekstrarhalli á s. l. tveimur árum. Sama er óhætt að segja um samkeppnisiðnaðinn, sem býr við svipuð skilyrði og verður að selja sína vöru á erlendum markaði. Ástandið er slíkt, að fyrirtækin éta upp eigið fjármagn sitt. Þetta bitnar auðvitað harðast á einkarekstrinum. Það má segja að sú starfsaðstaða, sem þessi atvinnuvegur hefur átt við að búa á síðustu árum, sé bein aðför að einkarekstrinum í sjávarútvegi.

Iðnaðurinn hefur á síðasta ári verið talinn rekinn með 10–19% halla. Verðstöðvun þessarar ríkisstj. hefur komið gífurlega hart niður á mörgum iðnfyrirtækjum. Talið er að til þess að þessi fyrirtæki verði rekin með sæmilegum hætti þurfi allt að 10–11% gengisfellingu.

Ég held að ef rétta ætti við mörg af þeim fyrirtækjum sem erfiðast eiga í sjávarútvegi í dag, þá veitti hreint ekki af 20% gengisfellingu. Frystihúsin hafa verið í stöðugum taprekstri að undanförnu og þau hafa safnað feiknalegum óreiðuskuldum. Það er ekki nema eðlilegt að svo sé þegar kostnaðarhækkanir eru 40–50%, en tekjur hafa auðvitað markast af gengi íslensku krónunnar og verðlagi erlendis á afurðunum. Áætlað verðmæti sjávarvöruframleiðslunnar árið 1981 er 5.4 milljarðar. Ætlað er að það hafi aukist um 59.1% frá fyrra ári. Magnaukningin er í þessu tilviki aðeins um 2.6%. Það er vel þess vert að gera sér grein fyrir því, hvað þessi aukning er í raun og veru ákaflega lítil og takmörkuð. Erlendar verðhækkanir eru reiknaðar um 3%, en fall nýkrónunnar um 50.5%. Það er ekki hægt að segja annað en að á síðasta ári hafi verðlag á erlendum mörkuðum í flestum tilvikum verið mjög hagstætt. Við verðum að líta svo á, að aflabrögð hafi verið með besta móti á þessu ári, því að það er útlit fyrir að þetta ár verði jafnvel fjórða mesta aflaár síðan útgerð hófst hér.

Ég held að óhætt sé að segja að hækkun Bandaríkjadollars gagnvart Evrópugjaldmiðlum hafi orðið til þess að draga úr verðbólgu hér á Íslandi um 12–14% . Það hafa komið fram efasendir um að útgerð hér á Íslandi stæði illa í dag, en ég vil fullyrða að rekstrarstaða útgerðar sé slæm. Fyrir síðustu fiskverðshækkun var talið samkv. tölum Þjóðhagsstofnunar að halli á stærri togurum væri 12.4%, halli á minni togurum væri 4.1%, en hagnaður á bátaflotanum um 0.9%, á þeim hluta hans sem ekki stundar loðnuveiðar. En nú er mér sagt að komin sé ný skýrsla frá Þjóðhagsstofnun, sem ég hef reyndar ekki séð sjálfur, og þarna sé orðin veruleg breyting á og bátaflotinn skili alls ekki þeim hagnaði sem reiknað var með. Okkur er öllum ljóst hve gífurlegt tap og erfiðleikar eru í sambandi við rekstur loðnuflotans. Þetta eru mörg ný og góð skip sem eru dýr í rekstri og þungar afborganir af. Nú er útlit fyrir að þau geti ekki stundað veiðar á þann hátt sem þeim er nauðsynlegt. Ég held að þarna sé feiknalegur vandi óleystur.

Það er enginn vafi að það þarf að leggja í feiknalega miklar fjárfestingar í sambandi við mörg þessi skip, ef þau eiga að breyta um veiðiaðferðir og taka upp veiði með nýjum veiðarfærum. Það heyrist að ákveðið sé að breyta a. m. k. fjórum stærri skipanna. En ég held að mörg þessara skipa séu þannig búin að vélakosti að á þeim verði ekki stundaðar togveiðar nema vélabreyting komi til. Þá sér hver maður hver kostnaður getur orðið af því. Vafalaust eru mörg þeirra mjög illa löguð til togveiðanna. Þarna held ég að íslenskur sjávarútvegur standi frammi fyrir gífurlegu vandamáli.

Meðalhalli flotans er 3.1% af tekjum.

Því miður virðist ríkisstj. ætla að taka upp þann hátt að beita gömlu millifærsluleiðinni. Ef einhvers staðar gengur sæmilega, þá á að bæta þeim upp sem verr gengur. Mér finnst þetta í rauninni óraunhæf stefna. Það er ekki nema eðlilegt að þær greinar, sem ganga sæmilega í dag, greiði í Verðjöfnunarsjóð. Það verður auðvitað að miða afkomuna við þá grein, sem mikilvægust er fyrir sjávarútveginn og mikilvægust er fyrir þjóðarbúið og byggðalögin úti á landsbyggðinni sem eiga afkomu sína undir sjávarútveginum.

Því miður er ástandið í Verðjöfnunarsjóði þannig að nær allar deildir sjóðsins eru tómar, en samt er verið að greiða úr honum. Síðustu þrjú árin hafa verið greiddar inn í sjóðinn 17.4 millj. kr., en út 232.9 millj. Þetta er ákaflega óeðlileg og óæskileg þróun. Merkilegast er þó það, að þegar talað er um að bæði skreið og saltfiskur skili verulegum og góðum hagnaði, og ég held að menn trúi almennt að svo sé, er enn verið að greiða með saltfisksframleiðslunni úr Verðjöfnunarsjóði. Það er hörmulegt til þess að vita, hvernig þetta hagstjórnartæki, sem hefði getað orðið til að byggja verulega upp sjávarútveginn og hefði getað skapað verulegt öryggi fyrir þjóðarbúið, hefur verið misnotað til að kynda undir verðbólgunni hér á Íslandi. Ég held að það sé ekki ofmælt, að mestur hluti vanda íslensks sjávarútvegs sé heimatilbúinn, en skapist ekki af vandamálunum á erlendum mörkuðum, þó þau séu vissulega mörg og mikil og flest það, sem aflaga hefur farið, eigi rætur að rekja til stjórnvaldsaðgerða og þeirra rangra. Það er ekki hægt að segja annað en að gengisþróunin hafi verið jákvæð á dollarnum, sem hefur mest gildi fyrir okkur, gagnvart Evrópumyntunum, en manni sýnist að ef haldið verður áfram sem horfir í íslenskum sjávarútvegi stefni í algert öngþveiti og kreppuástand.

Ef við viljum líta á greinarnar nokkurn veginn hverja fyrir sig er ekki hægt að segja annað en fjárfesting hafi verið gífurlega mikil í frystiiðnaðinum á s. l. áratug og hann hefði átt að vera vel búinn til að svara kröfum kaupenda um aukin gæði framleiðslunnar. Það er nú einu sinni svo, að allur atvinnurekstur verður að skila þeim hagnaði og þeirri afkomu að hann geti lagt í nýjar fjárfestingar, að hann geti fylgt þeirri tækniþróun sem á sér stað, að hann geti haldið fyrirtækjunum eðlilega í horfinu og haldið þeim við. En svo verður ekki sagt að hafi verið búið að íslenskum frystiiðnaði á síðustu tveimur árunum. Því miður hefur lítið verið unnið á þessum árum að hagræðingarstarfi. Það er eitt af því sem nauðsynlegast er, ef við ætlum að halda stöðu okkar, ætlum að halda samkeppnishæfni okkar við erlendar þjóðir, að hafa afl til og beina kröftunum að hagræðingarverkefnum á hverjum tíma og halda fyrirtækjunum í sem bestu ástandi. Við verðum að stefna að aukinni framleiðni og aðlaga okkur á hverjum tíma að breyttum framleiðsluháttum. Við vitum að aðrar þjóðir leggja gífurlega mikið upp úr þessu. Við getum ekki litið öðruvísi á en að fiskiðnaðurinn sé einmitt samkeppnisiðnaður sem verður að standa sig í samkeppni við fiskiðnað annarra þjóða og vera tilbúinn að svara kröfum. Við getum í fæstum tilvikum séð langt fram í tímann hvert stefnir um þróun á mörkuðunum, og við verðum að vera við því búnir á hverjum tíma að svara kalli og svara kröfum markaðanna og þeim breytingum sem á þeim verða.

Þá er á það að líta, að það er verkefni frystiiðnaðarins að tryggja atvinnuna úti á ströndinni og í sjárvarútvegsplássunum. Það er ekki annarri atvinnu þar til að dreifa og því verður að skapa þessum iðnaði sæmileg og viðunandi starfsskilyrði. Ég held að mér sé óhætt að segja að frystiiðnaðurinn einn muni skapa þrefalt fleira fólki atvinnu en t. d. saltfisksvinnsla og skreiðarvinnsla. Þetta er atvinnurekstur sem stefnt hefur verið að að gera að eins konar iðnaðarrekstri. Það hefur verið stefnt að því að reyna að skapa þessum iðnaði jafnt aðstreymi hráefnis allt árið um kring og að fólk gæti þar búið við eðlilegt atvinnuöryggi. Því miður hefur það viljað loða við íslenskan sjávarútveg að fólkið, sem hefur bundið starf sitt við hann, hefur orðið að taka því að búa við mjög skert starfsöryggi. Það hefur verið kallað á þetta fólk þegar afli og hráefni hafa gefið tilefni til, en síðan er því fleygt á dyr um leið og aðstreymi minnkar. Það er frystiiðnaðurinn einn sem hefur reynt að aðlaga sig breyttum tíma og skapa fólkinu, sem í sjávarútveginum vinnur, svipað öryggi og er í öðrum íslenskum atvinnugreinum. Þetta er helsta undirstaða atvinnulífs okkar úti um landsbyggðina. En því miður hefur það verið stefna núv. ríkisstj. að láta frystiiðnaðinn drabbast niður. Það verður ekki séð annað en horfi til þess, að frystihúsin geti allflest ekki einu sinni sinnt nauðsynlegasta viðhaldi. Þetta tel ég að sé stórhættuleg stefna, því að eins og nú er hafa þessi fyrirtæki engan möguleika til þess að bregðast við þeim breytingum sem verða á mörkuðum.

Ég held að það sé almennt viðurkennt að í iðnaði og þá ekkert síður í fiskiðnaði eigi sér stað tæknibylting á 5–7 ára fresti. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að þessi bylting á eftir að eiga sér stað í fiskvinnslunni á næstu árum ekkert síður en annars staðar. Það má sjá þess nokkur merki t. d. í tölvuvæðingu fyrirtækjanna. Nú er reynt að stefna að miklu betri stjórnun, miklu betra eftirliti í þessum fyrirtækjum og miklu betri rekstri, og til þess er tölvubúnaður notaður. Mér er óhætt að segja að þau fyrirtæki, sem hafa haft aðstöðu til að verða sér úti um þennan búnað, skila nú þegar miklum mun betri árangri en hin sem má segja að beiti happa- og glappaaðferðinni við sinn rekstur. Við megum ekki liða að það gerist, að við drögumst aftur úr öðrum þjóðum í tæknibúnaði og uppbyggingu þessara fyrirtækja.

Við getum hver og einn gert okkur grein fyrir því hvað gerist ef þessi fyrirtæki verða ekki með neinum hætti samkeppnishæf við fyrirtæki annarra þjóða. Við eigum í stöðugt harðnandi samkeppni við fiskvinnslu og fiskiðnað annarra þjóða. Þess sjáum við merki alls staðar hvar sem við litum á markaðina. Við verðum þess áskynja og sjáum hvað er að gerast t. d. í Kanada, þar sem gerðar eru stórkostlegar áætlanir um uppbyggingu þessara fyrirtækja og þessa iðnaðar, bæði á austurströndinni og á vesturströndinni. Bæði er það ríkisstjórnin þar sjálf, sem gerir þarna stórkostlegar áætlanir og leggur í það mikið fé, og eins fylkisstjórnirnar hver í sínu fylki. Það eru bæði fiskvinnslufyrirtækin og það eru útgerðarfyrirtækin sem fá styrki og ódýr lán til að byggja sig upp, enda sjáum við hve gífurlegum árangri þau hafa náð á síðustu árum í samkeppni við okkur á Bandaríkjamarkaðinum. Ef svo heldur sem horfir tekur ekki langan tíma að ryðja okkur kannske mikið til út af markaði. Við sjáum Kanadamenn líka keppa við okkur á Evrópumarkaði, ryðja okkur út af síldarmörkuðunum, t. d. eins og í Þýskalandi. Við sjáum þá, bæði Kanadamenn og jafnvel Bandaríkjamenn, bjóða okkur byrginn í ufsasölum í Þýskalandi.

Þannig mætti lengi telja. Við sjáum hvert stefnir hjá Norðmönnum. Norðmenn styrkja fiskiðnað sinn og fiskvinnslu stórlega og þeir vinna þetta samkv. ákveðnum áætlunum. Þeir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að halda í þessum fyrirtækum uppi miklum og góðum rekstri. Eins er með Færeyinga, frændur okkar og næstu nágranna. Þeir gera sér fulla grein fyrir því, að færeyska þjóðin fær ekki lifað í landi sínu öðruvísi en þessi fyrirtæki geti skilað sæmilegum hagnaði. Það er ekki langt um liðið síðan einn af framkvæmdastjórum fiskiðnaðarins þar var hér á ferðinni. Hann sagði mér þá, að áður en til þess kæmi að ákveða fiskverð eða starfsskilyrði þessara fyrirtækja reiknuðu þeir þeim 36% framlegð í vinnslu ýsu og þorsks, en 42% framlegð í vinnslu ufsa og annarra þeirra tegunda sem skila lægra verði. En ef við höldum áfram sem horfir í þessum efnum hljóta lífskjörin í þessu landi að versna og við að dragast aftur úr á flestum sviðum.

Við ættum ekki að gleyma því, að í raun og veru er fiskvinnslan og þá fyrst og fremst frystiiðnaðurinn eini raunhæfi stóriðnaðurinn sem við Íslendingar stundum. Ég get ekki séð að á því verði stætt, að þessum iðnaði séu ekki sköpuð sæmileg og viðunandi starfskilyrði. En ég held að það verði ekki gert nema skoða þetta mál frá öllum hliðum. Vissulega verður að viðurkenna sérkenni landshlutanna. Það eru á margan hátt allt önnur skilyrði t. d. á Vestfjörðum en á Suðvesturlandi og suðvesturströndinni. Norðurland hefur sín sérkenni, bæði vegna veðurfars, snjóa og ýmissa annarra orsaka. T. d. geta Austfirðingar, Norðlendingar og líklega Vestfirðingar ekki heldur verkað mikla skreið. Það er verið að skipa mönnum að setja í skreið vegna þess að þeir geti ekki skilað fyrirtækjum sínum með sæmilegum hætti ef þeir vinna í frystingu, en því miður geta þessir menn alls ekki verkað skreið mikinn hluta af vetrinum vegna snjóþyngsla. Þeir komast hvorki að skreiðarhjöllum sínum né frá þeim og fiskinn hreint og beint snjóar í kaf þegar búið er að koma honum á hjalla snemma á hausti. Það er ekki nema mjög takmarkaðan tíma sem þessir aðilar geta stundað slíka vinnslu.

Ég held að það sé líka annað sem er vel þess virði að við athugum, og það er að botnfiskafli hefur aukist á s. l. þremur árum um 50%. Því fremur er ástæða til að efast um ágæti þeirrar stjórnarstefnu að kreppa svo að þessum iðnaði. Ég hygg, að það sé hreint afrek íslenskra fiskvinnslumanna og fiskiðnaðarfólks að hafa getað skilað vinnslu þessa afla með sæmilegum hætti við þau skilyrði sem því eru búin. En ég held að við þurfum líka að gæta þess, að við getum búist við að með skynsamlegri og sæmilega varfærinni stjórnarstefnu í sjávarútveginum verði hægt að halda áfram að auka þennan afla.

Við höfum séð það gerast, að loðnustofninum er sennilega ofgert. Því miður berast okkur þær válegu fréttir í dag, að okkar ágæti fiskifræðingur Jakob Jakobsson hafi verið að koma úr rannsóknarleiðangri Hann hefur á hverju hausti farið til að fylgjast með þróun íslenska síldarstofnsins. Það kemur fram hjá honum, að þetta er í fyrsta skipti sem hann finnur ekki síldina nema í mjög litlum mæli. Hvað þarna er að gerast veit náttúrlega enginn, en þetta hlýtur að skapa okkur verulegar áhyggjur. Við vitum að það var gert töluvert að því á. s. l. hausti að kasta á smásíld inni á fjörðunum fyrir austan og hvolfa smásíldinni við. Það vita allir, sem hafa reynt að fylgjast með því, hvað það þýðir ef fiski, sem lifir í sjó, er misboðið. Það þurfa ekki nema 1–2 hreistur að detta af fiski til þess að hann sé dauður. Ég hef séð þetta sérstaklega núna undanfarið. Við höfum verið að reyna að ala fisk í sjó, eldisfisk, í Vestmannaeyjum, og það eru ákveðnar reglur fyrir því, hvernig með þennan fisk á að fara, og eru þær bundnar fyrst og fremst við ferskvatn. Það er hægt að fara með þennan ágæta fisk eins og fótbolta þegar verið er með hann í ferskvatni. Það var beitt slíkum vinnubrögðum og slíkum aðferðum. En í ljós kemur að þegar hann er í sjónum skapast eins og brunasár undan hverju því sem við hann kemur og hann tærist upp og deyr á tiltölulega stuttum tíma. Ég held að þetta sé það sem hefur því miður gerst allt of mikið í veiðum uppsjávarfiska. Okkar ágætu fiskimenn eru fyrst og fremst veiðimenn. Auðvitað reyna þeir að verða sér úti um veiðina hvar sem hennar er helst von. Það er ekki hægt að ásaka þá í sjálfu sér fyrir það. En ég held að þarna séu því miður upplýsingar sem við höfum ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af.

Það er fyrst og fremst botnfiskurinn og það er vinnsla botnfisks sem við munum byggja afkomuna á í íslenskum sjávarútvegi. Því miður má segja að skip hafi orðið að sigla með nokkuð af þeim botnfiskafla sem aflað hefur verið, en það eru ýmsar orsakir til þess. Hreint og beint hefur afkoma margra vinnslufyrirtækjanna verið svo léleg að þau hafa ekki einu sinni getað tekið á móti þessum afla til vinnslu og þess vegna orðið að senda skipin á erlenda markaði og þar með hefur íslenskt verkafólk misst atvinnu sína að óþörfu. En ég held að það sé staðreynd sem við getum ekki gengið fram hjá, að það er íslenskur frystiiðnaður sem er okkar eina stóriðja. Þar eru ótalin atvinnutækifæri fyrir vinnufúsar hendur á komandi árum. Við erum í raun og veru að misbjóða þeim atvinnurekstrinum sem við ættum helst að hlúa að og byggja upp. Ég held að það sé staðreynd, að íslensk fiskvinnsla og íslenskur frystiiðnaður séu einmitt sá vaxtarbroddur sem nærtækastur sé fyrir íslensk stjórnvöld þegar þau vilja byggja upp atvinnuna í landinu. En því miður hefur sú stjórn, sem nú situr, hundsað þennan atvinnurekstur og látið hann drabbast niður algerlega að óþörfu.

Þá er þess líka að geta, að í íslenskum sjávarútvegi og í íslenskri fiskvinnslu er rekin svokölluð núllgrunnsstefna, eitthvert útreiknað meðalfyrirtæki. Það eru reglustrikustrákarnir hérna uppi á Rauðarárstíg sem reikna sér út með reiknistokk eitthvert meðalfyrirtæki og það fyrirtæki skal rekið á núlli. En því miður hefur þessi núllgrunnsstefna ekki reynst okkur sem skyldi. Hún skapar fyrirtækjunum ekki þá afkomu sem nauðsynleg er, og hún kemur ekki aðeins niður á fyrirtækjunum, heldur hlýtur hún að koma niður á íslenskum launþegum og íslenskri alþýðu þegar til lengdar lætur. Það eigum við eftir að sjá ef svo verður haldið áfram sem nú horfir. Þessi núllgrunnsstefna bannar fyrirtækjunum alla möguleika til endurnýjunar véla, tækja, húsa og búnaðar og skapar enga fjármunamyndun í þessum mikilvægasta atvinnuvegi okkar. Vissulega hljóta allir stjórnendur, sem reka slík fyrirtæki, að óska eftir að þau geti skapað sér heilbrigðan rekstur og haft eðlilegt eigið fé og að þeir geti stundað atvinnu sína með eðlilegum hætti og stjórnað fyrirtækjunum, en ylji ekki endalaust pínubekkina í bankastofnunum og opinberum fyrirtækjum í ölmusuferðum hingað til Reykjavíkur. Þessi núllgrunnsstefna, sem rekin er og rekin hefur verið, hvetur ekki til aukinnar framleiðni og mun aldrei gera, heldur stefnir til stöðvunar, samdráttar og lakari lífskjara í landi okkar.

Það má segja, að ef við höldum áfram óbreyttri stjórnarstefnu og bætum ekki stjórnun íslensks efnahagslífs hljótum við að verðleggja okkur út af öllum fiskmörkuðum sem við nú störfum á. Við höfum séð þetta gerast, fyrst og fremst á síðasta ári, á síldarmörkuðum. Ef svo heldur fram sem horfir hlýtur það að gerast líka á öðrum mörkuðum.

Það er hægt að viðurkenna að sú samkeppni, sem við eigum við að stríða á mörkuðunum, er auðvitað óheiðarleg samkeppni. Norðmenn reka auðvitað gagnvart okkur óheiðarlega samkeppni með því að styrkja fiskiðnað sinn mjög mikið. Ég held að ég fari rétt með að á síðasta ári hafi styrkir þeirra til sjávarútvegsins numið álíka upphæð og var allur hráefniskostnaður íslenska sjávarútvegsins. Ef íslensk fiskvinnsla hefði átt við svipuð skilyrði og kjör að búa og Norðmenn búa sinni fiskvinnslu hefði hún unnið með fríu hráefni og ekki þurft að taka tillit til stærsta kostnaðarþáttarins í útgjöldunum.

Það er staðreynd, að í íslenskum sjávarútvegi höfum við notið nokkurs forskots á mörkuðum okkar fyrir það, að íslenskur sjávarútvegur hefur haft miklu meiri framleiðni en samkeppnisþjóðirnar og gæði íslensku framleiðslunnar hafa verið mikil og sölustarfsemi okkar hefur verið frábærlega vel skipulögð. Ég tel að það, sem mikilvægast er núna, sé að halda þessu forskoti okkar og hjá því verði ekki komist eða undan því vikist að svo verði.

Það bárust fréttir fyrir ekki alllöngu frá miðstjórnarfundi ákveðins stjórnmálaflokks. Þar skilst manni að hafi verið rætt um að stofna til eins konar stormsveita sem áttu að fara um landið og fylgjast með rekstri íslenskrar fiskvinnslu. Hvort þetta eru sannar fregnir eða lognar ætla ég ekki að dæma um, en ég held að íslensk fiskvinnsla og íslenskur sjávarútvegur verði aldrei rekin af neinu viti með slíkum stjórnunaraðgerðum eða aðferðum.

Mig langar að fara fáum orðum um ræðu sem mjög hefur verið umrædd tvo síðustu daga og hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen hélt í gær. Þar koma fram ýmsar hugleiðingar og hugmyndir um íslenskan sjávarútveg sem eru þess virði að eftir sé tekið og um sé fjallað. Hér segir hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

„Ef við tökum sjávarútveginn, þá er það nú þannig, að útgerðin í heild stendur samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar og hefur staðið nú á þessu ári heldur skár en undanfarin 10 ár, þ. e. þegar afkoma hennar í heild er metin. Þess vegna eru það náttúrlega órökstuddar staðhæfingar þegar talað er á þann veg. eins og stundum er gert, að útgerðin sé á heljarþröm. M. a. kemur sú fáviska fram í hæðnishlátri ritara þessarar deildar.“

Því miður held ég að sé óhætt að fullyrða að útgerðin standi einmitt mjög illa núna. Þær fréttir, sem voru að berast í dag af nýrri skýrslu Þjóðhagsstofnunar, styðja einmitt þessa fullyrðingu mjög og umfram það sem ég hafði átt von á eða búist við.

Hæstv. forsrh. segir í ræðunni að bátaflotinn hafi í heild haft allgóða afkomu. Eins og fram hefur komið áður er þetta ekki rétt. Því miður hefur bátaflotinn, þegar litið er á hann sem heild, alls ekki skilað þeirri afkomu sem menn höfðu gert sér í hugarlund og búist við.

Þá segir hér: „Hins vegar er það ljóst, að togararnir og sumir nýrri bátarnir, sem hafa mikinn fjármagnskostnað, en þó fyrst og fremst togararnir, hinir nýrri, sem þurfa að greiða miklar fjárfúlgur í vexti og afborganir og stynja þannig undir þungum fjármagnskostnaði, eiga við ákaflega mikla erfiðleika að etja. Þá kemur strax upp sú spurning í sambandi við fiskverðið: Þarf útgerðin í heild á mjög hækkuðu fiskverði að halda?“

Ég held að það sé ekki nokkur spurning. Ég held að enginn maður, sem hefur yfirleitt hugleitt íslensk sjávarútvegsmál og þá stöðu sem íslensk útgerð er í, efist um að útgerðin þurfi á verulegri fiskverðshækkun að halda — ég tala nú ekki um ef þær hugmyndir yrðu að raunveruleika, sem um hefur verið talað, að taka af útgerðinni olíustyrkinn og stofnfjársjóðinn. Held ég að það yrði æðiþröngt í búi hjá einhverjum útgerðarmanninum og hann lenti í verulegum erfiðleikum með að reka sín útgerðarfyrirtæki ef af því yrði.

Hér segir hæstv. forsrh. líka í ræðu sinni: „Ef við snúum okkur að fiskvinnslunni, þá er hún eins og kunnugt er þrjár greinar: þ. e. frystingin, skreiðarframleiðslan og saltfiskframleiðslan. Það er vitað, að saltfisksframleiðsla og skreiðarframleiðsla hafa á þessu ári gengið yfirleitt vel og skilað og skila enn hagnaði, báðar þessar greinar. Hins vegar er það vitað um frystinguna, að hún stendur mjög höllum fæti og þar þarf verulegra aðgerða við á næstunni til að rétta sem best hennar hlut. Hins vegar er það þannig, að það er vafamál hvort á jafnan við jafnþýðingarmiklar ákvarðanir og fiskverðsákvörðun að taka hverja grein fyrir sig og krefjast þess, að grundvöllur rekstrar hverrar einstakrar greinar sé þannig að fyllilega beri sig, eða hvort á að meta greinarnar í heild.“

Þarna er um fullyrðingu að ræða sem er í raun og veru algerlega órökstudd. Mér sýnist að margt bendi til þess, að saltfisksverkun skili sér alls ekki jafnvel og við hefur verið búist. Vil ég þá vísa í viðtal við núverandi forstjóra Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Björgvin Guðmundsson, sem við hann var haft í útvarpi nú í morgun. Þar kvartaði hann einmitt undan því, að saltfisksverkun Bæjarútgerðarinnar skilaði sér engan veginn eins og við hefði verið búist og til hefði verið ætlast, en aftur á móti skilaði skreiðarverkunin sér með ágætum.

Aðstaða fyrirtækja í þessum iðnaði er ákaflega misjöfn og eins er hitt, að þó að smærri verkunaraðferðir skili sér með sæmilegum hætti komumst við aldrei hjá því að taka fullt tillit til markaðanna. Við getum ekki hlaupið út af stærstu frystimörkuðum okkar og farið með allt það, sem þangað er selt, yfir í saltfisk eða skreið. Hvert einasta markaðssvæði á sín takmörk, hver einasti markaður hefur sitt þanþol, en ef því þoli er misboðið hrynur viðkomandi markaður. Því miður höfum við of oft reynt það, að ýmis skilyrði og ýmis atriði hafa valdið breytingum á skreiðarmörkuðum okkar og þeir hafa hrunið og orðið að engu á stuttum tíma. Það er ekki mjög langt síðan skreiðarframleiðendur urðu að eiga alla sína framleiðslu hér á Íslandi í tvö ár og geyma hana. Það er ekki heldur langt síðan Norðmenn áttu í feikilegum erfiðleikum með sína skreið og það kostaði þá mikið fé og því meiri fyrirhöfn að geyma hana og selja.

Þess er líka að gæta, að þegar reiknuð er framlegð í fiskvinnslunni er 14% framlegð í frystingu til 1. nóv., en þyrfti í raun og veru að vera 25% ef vel ætti að vera. Þar fyrir utan eru vextir 8%, stjórnunarkostnaður 1.5%, aðstöðugjald 1% og eignarskattur og afskriftir 3%. Þarna erum við komnir í 23.5%. Ef við drögum 14% frá er tapið um 10% á frystingunni á fyrstu 11 mánuðum þessa árs.

Það hefur verið reiknað út hvað miklu betri árangri „blönduð“ hús skila eða blönduð vinnsla, þar sem bæði er rekin frysting, saltfisksverkun og skreiðarverkun. Það kemur í ljós að ekki er nema 2% betri atkoma í þessum fyrirtækjum svo að tapið er 7–8%. Ég gef satt að segja ekki afskaplega mikið fyrir það. Þetta eru því miður staðreyndir sem verður að horfa til. Það er staðreynd, að saltfiskur kemur ekki til með að skila þeim hagnaði sem margur hafði reiknað sér. En ég býst við að ef nákvæmlega er reiknað gæti verið að saltfisksverkunin, sem allir eru nú að horfa til og telja að skili miklum og góðum hagnaði, skilaði kannske 2% hagnaði á þessu ári. Ef við viljum líta á skreiðina út af fyrir sig skilar hún mönnum ákaflega misjafnri útkomu. Fyrirtæki, sem eiga mikil hús og hafa góða aðstöðu og byggja á gömlum grunni, skila góðum hagnaði, ef þau geta hagað sínum rekstri svo að birgðahaldið sé ekki meira en um það bil 4 mánuðir. En fari svo sem oft vill verða, að fyrirtækin þurfi að liggja með vöru sína í um það bil 10 mánuði og hafi ekki bestu aðstöðu, þurfi að leggja í einhverjar fjárfestingar bæði í húsnæði, sem skreiðarverkun útheimtir mjög mikið, og þurfi að viðhalda og fjárfesta í nýjum hjöllum, þá er útkoma þessarar greinar alls ekki eins og við hafði verið búist og aðeins fáir aðilar hér á landinu skila hagnaði svo að um munar í skreiðarverkun. Eins og ég vék að áður byggist það mjög á ólíkum skilyrðum og aðstæðum milli landshluta og fyrirtækja.

Það er staðreynd, sem við getum aldrei gengið fram hjá, að fyrirtækin hljóta alltaf að skila mjög misjafnri afkomu. Svo held ég að þetta sé ekkert vafamál. Auðvitað hljótum við að verða að reikna afkomu sjávarútvegsins út frá þeirri greininni sem mikilvægust er. Og eins og ég kom að áðan er staða Verðjöfnunarsjóðsins með þeim hætti, að það væri enginn skaði skeður þó að þær minni greinar, sem talið er að skili hagnaði, greiddu nú í Verðjöfnunarsjóðinn, en ekki væri haldið áfram þeim skrípaleik að telja greinar skila hagnaði og vera þá að greiða til þeirra úr Verðjöfnunarsjóðnum. En þarna verður að taka tillit til atvinnusjónarmiða og ýmissa annarra staðbundinna hagsmuna fólksins í landinu.

Þá segir hæstv. forsrh. enn: „Þriðja atriðið í þessu, sem er auðvitað ákaflega mikilvægt, eru tekjur og afkoma sjómanna. Sjómenn telja að þeir eigi rétt á kjarabótum til jafns við launamenn í landi og í sambandi við það eigi þeir rétt á verulegum bótum nú. Þá kemur upp spurningin: Er eina leiðin til þess að rétta hlut sjómanna sú að hækka fiskverðið þannig að kjarabæturnar fáist eingöngu með hækkun þess, eða eru hugsanlegar aðrar leiðir til að rétta hlut sjómanna án þess að fiskverðið í heild sé hækkað mjög verulega?“

Satt að segja leiðist mér alltaf að heyra goðsagnirnar um hin miklu laun sjómanna. Ég tel að sjómenn eigi fullan rétt og fulla kröfu á hverjum þeim launum sem þeir fá, þeim sé alls ekki ofborgað hér á Íslandi. Við skulum bara hafa í huga aðstöðumun sjómannanna og okkar hinna sem í landi störfum. Við skulum bara hafa í huga fjarvistir þeirra frá heimili, vosbúðina sem þeir mega búa við. Það er ekki lítil áreynsla að velkjast, hvort sem er í litlum eða stórum skipum, úti í hafi vikum og mánuðum saman. Það reynir ekki lítið á líkamann. Þessir menn slitna langt umfram það sem eðlilegt er og gerist með öðrum atvinnustéttum. Við skulum líka taka tillit til þess, hve hættulegt þetta starf er. Þetta er hættulegasta starf sem stundað er hér í landinu. Ef við, sem komnir erum kannske á miðjan aldur eða svo, lítum yfir farinn veg skulum við rifja upp fyrir okkur hve margir af okkar fyrri félögum, kunningjum og vinum, sem hafa verið í þessum atvinnuvegi, eru horfnir og þá einmitt í starfi. Það er ekkert starf á Íslandi við sömu skilyrði og sjómennskan.

Þá er til annars að líta. Það eru þær aflatakamarkanir sem stjórnvöld eru núna stöðugt að setja á útgerðina og sjómennina. Sjómennirnir verða fyrir stórkostlegri tekjurýrnun. Þeirra tekjur eru skertar langt umfram það sem eðlilegt er. Og það er gert bótalaust og virðist engum detta í hug að ástæða sé til að bæta þeim eitt eða neitt, þegar stjórnvöld taka upp á því að skerða þeirra hlut.

Þá er til þess að líta, að forsrh. spyr hvort engin önnur aðferð sé til. Ég tel að það hafi verið til aðferð og hún hafi staðið opin strax þegar þessi ríkisstj. tók til starfa. Hún var sú að hefta stækkun flotans, kaupa ekki inn eða láta byggja miklu fleiri skip en þá höfðu verið byggð. Ég held að sú aflaaukning, sem orðið hefur á síðustu þremur árum, hefði ekkert orðið minni þó svo hefði verið gert. Sú verðmætaaukning og verðmætasköpun, sem átt hefur sér stað í sjávarútveginum, hefði skipst á miklu færri hendur sjómanna og miklu færri útgerðir og báðir aðilar búið við góðan hlut. Þetta var sú stjórnunaraðgerð sem hefði þurft að grípa til strax við myndun stjórnarinnar, en ekki halda áfram að byggja skip endalaust og jafna þetta allt saman út á þann hátt sem gert hefur verið. Ég held að ef til þessarar aðgerðar hefði verið gripið í þeim mæli sem ástæða hefði verið til, þá hefði verið hægt að hefta verðbólgu hér á Íslandi svo, að hún hefði ekki þurft að vera mjög miklu meiri en í okkar næstu viðskiptalöndum.

Síðan segir hæstv. forsrh. í þessari ræðu: „Nú hafa samtök þessara aðila, sjómanna og útvegsmanna og fiskvinnslufyrirtækja, a. m. k. ýmissa þeirra, boðað stöðvun útgerðarinnar um áramót ef nýtt fiskverð væri ekki komið. Það vill nú svo til að þetta eru einmitt sömu aðilar sem velja fulltrúa í Verðlagsráð sem á samkv. lögum að ákveða fiskverð. Það er auðvitað ágætt að reka þannig á eftir sjálfum sér. Það er gott að slá í hjá sjálfum sér og getur vafalaust verið gagnlegt. Vitanlega verður ríkisvaldið, eins og hv. 1. þm. Vestf. tók réttilega fram, að koma inn í þessi mál til þess að greiða úr, en það má ekki velta öllum vandanum yfir á ríkisvald og ríkisstj. Það gengur ekki að þeir aðilar, sem samkv. lögum skipa Verðlagsráð og eiga samkv. þeim að ákveða fiskverð, semja um það sín á milli, velti vandanum af sér og segi að það sé ríkisstj. og Alþingi eitt sem á að leysa það. Hér verður auðvitað að vera samstaða og samvinna og allir að leggjast á eitt.“

Ég get fallist á það, að auðvitað verða allir að leggjast á eitt að leysa þann vanda sem fram undan er. En við skulum bara skoða hvernig þessum málum er háttað. Það er hæstv. ríkisstj. sem ræður þeim grunni sem byggt er á. Hún skipar oddamann í Verðlagsráði og það er hann sem í flestum tilfellum dæmir á annan aðilann. Það er sjaldnast að um samninga sé að ræða milli hagsmunaaðilanna. Og það er hæstv. ríkisstj. sem ákveður líka gengisskráninguna í landinu. Það er ekki svo að íslenskir sjómenn og íslenskir aflamenn fái tækifæri til þess að selja framleiðslu sína á báða vegu á frjálsum markaði. Þeir mega selja fiskframleiðsluna, en fyrir þann gjaldeyri, sem þeir afla, verða þeir að sitja við það verð sem Seðlabanki og ríkisstj. skammta á hverjum tíma. Það er ekki lögmálið um framboð og eftirspurn sem þar ræður. Og ég held að ég fari ekki með neinar ýkjur þó ég segi það, að oddamaður í Verðlagsráði, eins og hann hefur í flestum tilvikum unnið á undanförnum árum, verður fyrst og fremst að skoðast sem erindreki ríkisstj. á hverjum tíma og sendisveinn hennar til þess að reka hennar erindi.

Svo er líka til þess að líta, að ef of lítið er til skiptanna nást aldrei samningar. En ef nægilegt og sanngjarnt er til skiptanna er enginn vafi að þeir aðilar, sem í sjávarútveginum starfa, ná saman og gera með sér þann samning sem auðvelt verður að halda.

Ég vil benda á það, að við getum viðurkennt að það eru aðeins fáir bátar sem koma til með að skila sæmilegum hagnaði á þessu ári, og þá eru það helst bátar hérna við suðurströndina, vertíðarbátar. En við skulum líka hafa það í huga, að þessir bátar voru búnir að búa við mjög skarðan hlut á undanförnum árum vegna lélegrar vertíðar og lítils afla. Fiskgengd hefur ekki verið við suðurströndina á síðustu árum. Þeir áttu í mjög miklum erfiðleikum, flestir þessir menn sem stunda sinn atvinnurekstur og eru á þessum bátum. Við getum viðurkennt það, að eftir þessa síðustu stóru vertíð hafa þeir vissulega getað lagað mjög mikið fyrir sér. En þar er ekkert um of.

Svo er líka annað sem við getum haft í huga þegar við erum að tala um fiskverðið, að framreikningar eru alls ekki tilbúnir til Verðlagsráðsins í dag. Ríkisstj. hefur verið með hugmyndir um það að laga nú á einhvern hátt til fyrir þessum rekstri. Þar á meðal hefur hún verið með hugmyndir um að breyta afurðalánunum í innlend lán. Fiskvinnslan og fiskiðnaðurinn hefur átt við þann kost að búa á undanförnum árum að verða að taka erlend lán til síns rekstrar og afurðalánin hafa verið í erlendri mynt. Ef við viljum aðeins líta á vaxtaútreikning á afurðalánum á þessu ári, árinu 1981, þá voru 4% vextir greiddir af Seðlabankaláninu, sem er, hygg ég, 1.5% af skilaverði og þá um 2.06% af framleiðsluverðmæti fyrirtækjanna. Viðbótarlánin, sem af verður að borga 36% vexti, eru 22.7% af skilaverði og það gerir 8.172% á ári. Þetta þýðir 10.23% á ári, en miðað við fjögurra mánaða birgðir og greiðslutíma verður þetta 3.41% af skilaverði. Hugmyndir Seðlabankans, sem nú eru uppi, eru um 29% vexti af 51.5% skilaverðsins, sem gera þá 14.9%. Ef við bætum við það 8.1 %, þá eru þetta 23.1 %, sem þýðir á fjórum mánuðum 7.7%. Ef úr þessu verður, að fiskiðnaður verður látinn sitja við þetta borð og verður að borga þessa háu vexti, þá útheimtir þetta að öllum líkindum að bæta þarf tekjur fiskvinnslunnar um 4.29% og það verður þá að gera með gengisbreytingu eða á einhvern annan hátt.

Það hefur komið fram, að fiskvinnslan og fiskvinnslufyrirtækin búa við þau skilyrði, að okkur berast fréttir af því, að þau sæki nú mjög á Byggðasjóð um fyrirgreiðslu. Þar er ekki boðið annað en erlend lán eða lán sem byggjast á lánskjaravísitölu. Það er farið að hafa það að gamanmálum í hópi fiskvinnslumanna að kalla þá menn sjálfsmorðssveitina sem taka þessi lán við þær aðstæður sem eru í dag. Þeir reka fyrirtækin með gífurlegu tapi, þeir eiga í feiknalegum erfiðleikum og þeir ætla að bæta á fyrirtækin lánum sem eru á þeim kjörum sem þeir gera sér sjálfir grein fyrir að þeir koma aldrei til með að geta borgað. Og það er sagt nú að þeir menn, sem ætli sér að halda áfram rekstri, taki ekki þessi lán og það sé hreint sjálfsmorð að sæta þeim kjörum sem þarna eru í boði. Ég held að það sé ekki misminni hjá mér, að hæstv. fjmrh. sagði nú fyrir fáum dögum í umr., að það væri ekki góður rekstur sem ætti ekki í nokkrum erfiðleikum. Ég get vel fallist á það út af fyrir sig, að á misjöfnu þrífist börnin best. En ég vil samt halda því fram að fyrr megi rota en dauðrota.