17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil svara hér fyrirspurn frá hv. 9. landsk. þm. í sambandi við framkvæmdir Landsvirkjunar á Suðurlandi. Hann beindi þeirri fsp. til mín, hvort þar væri breytinga að vænta frá því sem ráð hefði verið fyrir gert, og vitnaði til erindis sem ég hef nýlega skrifað Landsvirkjun í sambandi við framkvæmdir við Sultartangastíflu. Það er ljúft og skylt að svara þessari fyrirspurn hv. þm.

Það er, eins og kunnugt er, gert ráð fyrir mjög verulegum orkuöflunarframkvæmdum og framkvæmdum til öryggis fyrir þær virkjanir, sem fyrir eru á Suðurlandi, á næstu árum. Þar er efst á blaði svonefnd Sultartangastífla. Landsvirkjun hefur sett fram áætlanir um að hún verði reist á næstu tveimur árum. Þær áætlanir hafa verið miðaðar við tiltekna orkunýtingu, um hraða í uppbyggingu markaðar auk öryggis. Iðnrn. hefur tekið undir öryggissjónarmiðið í þessu, eins og hv. þm. vék að, og það eina, sem menn þurfa að átta sig á, er hversu hratt er ástæða til að fara í sambandi við þessa uppbyggingu. Er það tveggja ára verk eða er það þriggja ára verk sem þarna er um að ræða? Hvað meta menn öryggisþáttinn mikils og hvað þarf að ganga hratt fram í að auka orkuframboðið? Ég hef óskað eftir því, að Landsvirkjun leggi fram sitt mat á þessum þáttum áður en heimild verður formlega veitt fyrir þessu mannvirki, en ég geri ekki ráð fyrir að þar verði um neinn drátt að ræða frá þeim meginhugmyndum sem fyrir hafa legið. Spurningin er aðeins um tveggja eða þriggja ára framkvæmdatíma og Landsvirkjun hefur þegar velt því fyrir sér. Miðað við forsendur þess markaðar, sem nú liggur fyrir, höfum við óskað eftir að þeir fari yfir þetta dæmi og gefi okkur svör þar að lútandi áður en formlega verður frá málinu gengið. Það er augljóst, að verulegar framkvæmdir verða á næsta ári við Sultartangastíflu og þar næsta ári, og vel líklegt að við mannvirkin verði lokið á árinu 1983. En það þarf að meta út frá öryggislegum og fjárhagslegum forsendum.

Ég minni aðeins á það í þessu sambandi, að því hefur verið varpað fram opinberlega, að það væri fyrirsjáanlegt að svo og svo mikið fjármagn rynni til sjávar í ónotaðri orku á komandi árum. Það er að sjálfsögðu ekki hugmynd okkar að svo verði. Við hljótum að leitast við að stilla saman orkuframleiðsluna og nýtinguna jafnhliða því sem við höfum glöggt auga á öryggisþættinum. Og með tilliti til reynslu síðustu ára að því leyti er okkur ljóst að við þurfum að taka tillit til breyttra aðstæðna, m. a. í veðurfari hérlendis. Landsvirkjun telur ástæðu til að horfa verulega á þá þætti, því að margt í sambandi við áætlanir og hugmyndir um vatnsbúskapinn hefur breyst í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum orðið fyrir á undanförnum árum vegna breyttra aðstæðna.

Þetta mál mun skýrast innan tíðar. Það liggja engar tillögur fyrir í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun um að skerða það fjármagn sem Landsvirkjun hefur óskað eftir og gert ráð fyrir á næsta ári. Eins og hv. þdm. vita eru engar tillögur hér í sambandi við afgreiðslu fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar þar að lútandi.