17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla í þessari umr. að velja mér þann texta sem að sjálfsögðu stendur mér næst og það er að fjalla um landbúnaðarmál. Það er ekki oft sem á hinu háa Alþingi gefast sérstök tilefni til slíkrar umr., því að enginn, nákvæmlega enginn mál sem snerta framfarir í landbúnaði koma fram frá núv. hæstv. ríkisstj. Einu tækifærin, sem fyrir hendi eru til að meta viðhorf núv. ríkisstj. í garð landbúnaðarins, eru í sambandi við fjárlagagerð og afgreiðslu fjárlaga þá um leið og í sambandi við lánsfjáráætlun, en að sjálfsögðu er sú umr., sem fer fram um þessa þýðingarmiklu málaflokka, ákaflega stefnumótandi um afstöðu stjórnvalda til atvinnuveganna, og gildir að sjálfsögðu um landbúnað það sama og aðra atvinnuvegi.

Menn hafa gert nokkuð að því að kalla til ráðh. þegar sérstaklega hefur verið rætt um þeirra málaflokka, og ráðherrar hafa verið á þönum á milli deilda til að hlusta. Þetta er að sjálfsögðu þingleg hefð. En ég hef satt að segja þá reynslu af öllum þessum hlaupagangi að ég hafði alveg sérstaklega metið það með sjálfum mér að ég óskaði ekkert sérstaklega eftir því, ég mundi ekki færa fram neinar óskir um það, að hæstv. landbrh. yrði hér viðstaddur. Það gæti að sjálfsögðu farið eftir áhuga hans í sambandi við stefnumótandi umr. um landbúnaðarmál, en vegna þess að við erum í sama flokki og á milli mín og hans er mjög gott persónulegt samband hefði ég að sjálfsögðu alveg eins kosið að hann væri víðs fjarri þessari umr.

Það er mér aftur mikið ánægjuefni, að ég sé á skakk við mig til vinstri handar situr ráðh. kjörinn af Austurlandi í hliðarherbergi, hæstv. iðnrh. Mér þykir vænt um ef hann má á mál mitt hlýða. Kannske tala ég eitthvað svolítið um iðnaðarmál. En því segi ég þetta að kannske gæti það orðið til þess, að í þessari ríkisstj. yrði þó einhver málsvörn fyrir íslenskan landbúnað.

Það liggur ekki enn þá fyrir niðurstaða í sambandi við afgreiðslu landbúnaðarmála í fjvn. og kannske liggur ekki enn þá fyrir afstaða ríkisstj. varðandi afgreiðslu þess málaflokks. En það hefur borist á milli herbergja í Alþingi, að ástæðan fyrir því, að ekki hefur í nokkra daga verið kallaður saman fundur í fjvn. Alþingis, sé sú, að ríkisstj. sé ekki búin að koma sér niður á það, hver hlutur landbúnaðarins eigi að vera við fjárlagagerð. Meðan það liggur ekki alveg ljóst fyrir er að sjálfsögðu bæði eðlilegt og skylt að láta þann þátt mála skýrast til fulls. En vegna þess að það er verið að tala hér um stefnumótun og stefnumótandi ákvarðanir verður ekki með nokkru móti komist hjá því að rifja aðeins upp hver hugur núverandi ríkisstj. er í garð landbúnaðarins, í garð bændanna í þessu landi, í garð íslenskra sveitabyggða, eins og hann kemur fram í fjárlagafrv. núverandi ríkisstj.

Það má að vísu segja frá því hér, að fulltrúi landbrn. gekk á fund fjvn. og bar þar fram ábendingar um nauðsynlegar breytingar við fjárlagagerð til að fá þar vissar leiðréttingar fyrir landbúnaðinn. Er skemmst frá því að segja, að þar fjallaði hann um og bar fram óskir um breytingar á nálega öllum fjárveitingaliðum sem snertu íslenskan landbúnað. Svörin koma til með að birtast þegar tillögur fjvn. og þá væntanlega meiri hl. fjvn. liggja fyrir. Það, sem hlýtur þó að brenna þyngst á baki, og það, sem með engu móti er unnt að víkja sér undan að fjalla hér um, er hið svokallaða hagræðingarfé, sem árið 1979 var með lögum ákveðið að ætti að ganga til landbúnaðarins. Þá var núverandi formaður Framsfl. landbrh. Hann hefur viljað láta mikið orð af því fara, að hann hafi m. a. með þeirri lagagerð verið að skapa nýja tíma í íslenskum landbúnaði. Þar var m. a. ákveðið að framlög til landbúnaðar samkv. jarðræktarlögum skyldu vera þau hin sömu í fimm ár og þau voru að meðaltali árin 1978 og 1979 og þau skyldu verðtryggð. Það er kannske gaman að rifja það hér upp, að m. a. sagði þáv. landbrh. frá því austur í Hornafirði á fundi sem hann sjálfur boðaði til að daginn eftir ætti að fara fram umræða um það við núverandi formann Alþfl., sem þá átti sæti í þeirri ríkisstj., að þessi tilhögun skyldi upp tekin og að Alþfl. hefði jákvæða afstöðu einmitt til þessarar breytingar. Það þarf ekki frá því að segja, að það var skýrt tekið fram, að þetta fjármagn ætti að fara til að leita að nýjum viðfangsefnum í íslenskum landbúnaði, það ætti með þessu fjármagn að leggja inn á nýjar leiðir til að treysta íslenskar sveitabyggðir.

Ég átti kost á því að fjalla um þessi mál þá á Búnaðarþingi og Sjálfstfl. fjallaði um þessi mál hér á Alþingi. Ég ætla ekki að leyna því, að ég var á móti þessu, því að inn í þetta samkomulag gekk sú lögboðna ákvörðun að jafnframt þessu skyldu framlög til landbúnaðarins verða skert. Ég hafði að sjálfsögðu ákaflega illan bifur á því, að það yrði staðið við þátt hins opinbera í þessum efnum. Ég vissi vel að ekki mundi standa á að skerða þann þátt sem snerti framlögin til bændanna sjálfra. Hver skyldi svo reynslan vera af þessari löggjöf, af þessum fyrirheitum, sem allir vinstri flokkarnir stóðu að? Hún er sú, að á fyrsta ári voru framlögin skert um 200 þús. kr., sem út af fyrir sig var ekki ýkjahá tala. Á næsta ári, árinu 1981, sem nú er senn að líða, var hagræðingarféð skert um 1.8 millj. kr. En samkv. fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir og verður afgreitt innan fárra daga, nemur skerðingin 15 millj. kr., 1.5 milljarði gkr. Þar hafa menn fengið dæmið uppgert. Þarna er hagræðingarféð á einum stað. Það hefur staðið í ríkisstj. og meiri hl. fjvn. að ganga frá þessum lið.

Herra forseti. Ég ætla ekki sérstaklega að fjalla meira um þetta að þessu sinni. 3. umr. fjárlaga er eftir og enn þá hefur meiri hl. fjvn. ekki gengið frá sínum málum. (Fjmrh.: Jú, jú.) Það væri gaman að fá vitneskju um það hér, hæstv. ráðh., hvernig þau mál standa í meiri hl. fjvn. Það hefur ekki verið boðað til fundar í þeirri virðulegu nefnd um nokkurra daga skeið, en ég á von á að þau mál skýrist þar. (Fjmrh.: Það fer eftir því hvenær þm. lýkur máli sínu). Það hefur ekki verið boðaður fundur í nefndinni á þessu kvöldi. Það var alveg óþarft að bíða með fundarboðun þess vegna. Það hefur ekki heldur staðið á mér að mæta á fundi í fjvn., síður en svo. Það hefur staðið á ýmsum öðrum í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Það þykir reyndar nokkuð einkennilegt að alveg sérstaklega skuli þurfa að fjalla um það í ríkisstj., hver hlutur bændanna og landbúnaðarins eigi að vera. Ekki síst þykir það undarlegt, vegna þess að það er æðioft búið að segja frá því í fjvn., að þetta fjárlagafrv. sé frv. ríkisstj. allrar. Það sætir þannig nokkurri furðu að það skuli þurfa einmitt vegna landbúnaðarþáttarins í því að fara í alveg sérstaka umræðu í ríkisstj. þar á eftir. En annað mál er að nú er hæstv. ráðh. væntanlega með mikilvægar upplýsingar, að því er virðist, eftir því sem hefur komið fram úr sæti hans, og þá verður dæmið væntanlega skýrt á eftir.

En það er að sjálfsögðu um ýmislegt fleira að tala í sambandi við landbúnaðarþáttinn í fjárlagafrv. Af því að hæstv. ráðh. er svona kotroskinn þá má kannske rifja upp ýmislegt fleira. Ef ég man orð hans rétt, sem ég hef ekki farið yfir fyrir þessa umr., man ég ekki betur en hæstv. ráðh. hafi sagt við 1. umr. fjárlagafrv. að mikið af fjármagninu, sem gengi út í gegnum fjárlagafrv., færi þar sjálfkrafa eftir ákveðnum, lögboðnum leiðum. Þar af leiðandi og sérstaklega með tilvísan til þessara ummæla hæstv. fjmrh. og þess innleggs, sem hann hefur átt í umr. úr sæti sínu, er kannske hægt að líta á aðra þætti í sambandi við fjárlagagerðina. Þá eru að sjálfsögðu búfjárræktarlögin nærtækasta dæmið.

Þannig lítur það dæmi út, að árið 1980 vantaði 1.24 millj. til þess að hægt væri að standa við lögboðnar greiðslur samkv. búfjárræktarlögunum. Á s. l. ári, þótt búið væri að sarga í ríkisstj. um aukafjárveitingar upp í þennan lögboðna lið, vantaði álíka háa upphæð, milli 1.2 og 1.3 millj. kr. Þetta hefði kannske mátt álita að væri nægur skóli fyrir hæstv. núv. fjmrh., en svo virðist þó ekki vera, því að samkv. fjárlagafrv. hefur þessi tala hér um bil þrefaldast. Þetta skeður í tíð sama hæstv. fjmrh. og segir frá því við 1. umr. fjárl. að lögboðin gjöld samkv. lögum gangi sjálfvirkt fyrir sig. Þetta eru þó enn þá sögulegri yfirlýsingar þegar þess er gætt, að fjárveitingar til þessarar löggjafar hafa staðist nálega alla tíð síðan þessi lög voru samþykkt á Íslandi. Það er ekki fyrr en í tíð núv. ríkisstj. sem þessi lög eru brotin.

Það er að sjálfsögðu hægt að tala um margt fleira í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna og núv. ríkisstj. En hún á sín tækifæri. 3. umr. er enn eftir. Fjvn. hefur ekki enn þá gengið frá sínum tillögum og það er þess vegna best að láta hana á þessu kvöldi sleppa með skrekkinn. En svo að það gleymist ekki má nefna ýmislegt fleira. Það má nefna yfirlýsingar um nauðsynlegan stuðning við nýjar búgreinar, við eflingu hlunninda og annað þess háttar, og það má líka minna á Stofnlánadeild landbúnaðarins, hvernig sá leikur er leikinn, þar sem framlög til hennar hafa verið skorin niður, en aftur á móti hefur verulegum hluta af hinu svokallaða hagræðingarfé verið smeygt þar inn bakdyramegin á sama tíma og öll lán til landbúnaðarins, hvort heldur þau eru til nýrra búgreina eða hinna eldri, hafa verið að fullu verðtryggð. Það má líka vel minna á það svona rétt í lokin, hverjar efndir eru í sambandi við forfallaþjónustuna. Þar var um ákveðinn félagsmálapakka að ræða þar sem bændurnir í þessu landi gáfu eftir ákveðinn hlut af því búvöruverði sem þeir áttu. Það væru kannske tök á því síðar að fjalla aðeins um þau mál, þegar þau hafa betur skýrst við afgreiðslu fjárlaga.

Það var hv. þm. Kjartan Jóhannsson sem gaf mér ákveðið „stikkorð“. Hann sagði frá því sem dæmi um ranga stefnu núv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum, að það væri haldið áfram að auka framleiðsluna og það væri haldið áfram að auka framlög vegna útfluttra landbúnaðarvara. Sannleikurinn er sá, að landbúnaðarframleiðslan hefur verið að minnka. Hún hefur alls ekki verið að aukast. Hún hefur verið að minnka. Ef við gerum samanburð á sjö ára tímabili, þ. e. frá árinu 1975 til ársins 1981, líta þessar tölur þannig út:

Árið 1975 var mjólkurframleiðslan 108.3 millj. kg, 1976 108.7, 1977 115.5, 1978 120.2 1979 107.2, 1980 107 og nú í ár, árið 1981, er áætlað að mjólkurframleiðslan verði 103 millj. kg. Þá hafa menn það, að á þessu ári er mjólkurframleiðslan rúmlega 5 millj. kg minni en hún var árið 1975. Það er kannske út af fyrir sig ekki tala sem veldur straumhvörfum, heldur mjólkurneyslan í þessu landi, en á árinu 1980 nam hún 105.7 millj. kg. Ef menn bera þessar tölur saman, 105.7 millj. kg og mjólkurframleiðsluna eins og hún er í ár, sjá menn að mjólkurframleiðslan í ár er hér um bil 3 millj. kg minni en neyslan var á síðasta ári.

Ef menn vilja svo bera saman á sama tímabili kjötframleiðsluna í landinu líta þær tölur þannig út, og þær tölur eru gefnar upp í þúsundum tonna: Árið 1975 var framleiðslan 14 þús. tonn, árið 1976 13.9 þús. tonn, árið 1977 13.9 þús. tonn og árið 1978 15.3 þús. tonn, 1979 15.1 þús. tonn, 1980 13.5 þús. tonn og á þessu ári 14.2 þús. tonn. Ef við litum á tvö fyrstu árin og tvö síðustu árin í þessum samanburði kemur í ljós að framleiðslan er minni núna þessi tvö ár en hin tvö fyrstu. Það, sem er þó kannske vert að minnast alveg sérstaklega á í þessu sambandi og getur gefið okkur nokkra vísbendingu um hvernig þróun þessara mála verður, er að sú aukning, sem hefur orðið á milli þessa árs og síðasta, byggist á því, að nú kemur á markað miklu meira af ærkjöti en áður hefur verið svo að augljóst er að bændur hafa gengið á sauðfjárstofninn. Þetta er umhverfið í framleiðslumálunum.

Það er svo annað mál, að útflutningsbótaþörfin hefur aukist. Menn geta náttúrlega reiknað það með ýmsum hætti. En þar gefa krónutölurnar að sjálfsögðu alranga hugmynd. Hins vegar liggur það fyrir, að þrátt fyrir að við höfum minni framleiðslu í landbúnaði núna en við höfðum í upphafi þessa tímabils hefur útflutningsbótaþörfin, umframþörfin, hér um bil tvöfaldast miðað við það sem hún var í upphafi þessa tímabils, en menn hafa gjarnan viljað tala um níföldun í þeim efnum. Það er hægt að finna slíkar tölur ef menn miða við krónutölur, en ekki raungildi.

Ég er hv. þm. Kjartani Jóhannssyni þakklátur fyrir „stikkorðið“. Það, sem hann sagði í sambandi við lántökur til útflutningsbóta, tek ég undir. Ég held að það sé eitt það vitlausasta, sem hefur verið gert, að taka lán með þessum hætti til að borga út hluta af umframþörfinni, sérstaklega vegna þess að það hefur ekki verið ágreiningsmál, eins og hv. þm. sagði hér frá, að menn hafa viljað leggja nokkuð á sig til að telja niður þessa umframþörf. Ég minnist þess vel, að Alþfl. hefur lagt fram um það tillögur á Alþingi. En hér hefur hins vegar verið farin vitlausasta leiðin sem var hægt að finna. Er ég þar alveg sammála hv. þm. Kjartani Jóhannssyni. Ástæðan fyrir því er sú, að það hefur verið út frá því gengið, að þegar búið væri að koma landbúnaðinum það langt niður að ekki þyrfti lengur að greiða vegna þessarar umframframleiðslu, umfram 10%, ætti að nota það fjármagn til að greiða erlendu lánin. Þetta gerir alveg augljóslega að verkum að bændurnir halda sig sem næst því að vera í kringum 10% mörkin og frekar fyrir ofan þau en neðan, vegna þess að ef þeir lenda niður fyrir þessi 10% mörk er farið að taka af þeirra lögboðnu réttindum til að greiða upp þessar skuldir. Ég hefði talið miklu þýðingarmeira fyrir landbúnaðinn að þessi 10% mörk hefðu verið lögbundin sem slík og að þær heimildir, sem þar er um getið, væru útvíkkaðar þannig að ef landbúnaðarframleiðslan færi niður fyrir það mark, að ekki þyrfti á þessu að halda, væri heimilt að nota það fé til annars, til hagræðingar, til niðurgreiðslu á rekstrarvörum eða einhvers annars, þannig að það hefði komið fram jákvætt viðhorf gagnvart landbúnaðinum og að bændurnir í landinu hefðu haft jákvætt viðhorf gagnvart þessum ráðstöfunum.

Það, sem hér hefur verið sagt, og það, sem hér hefur verið bent á í sambandi við landbúnaðarstefnu, er alveg augljóslega engin hending. Það er alveg augljóst að það er stefna núv. ríkisstj. að koma landbúnaðarframleiðslunni þannig niður að ekki þurfi á þessari umframfjárþörf að halda, þannig að sá lögboðni réttur, sem landbúnaðurinn hefur núna, fari til að greiða þessa fjárvöntun niður. Það hefur komið fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 ákaflega skýr og ótvíræð stefna núv. ríkisstj. varðandi íslenskan landbúnað. Þar segir svo m. a., þar sem fjallað er um fjárfestingu í atvinnuvegunum:

„Í landbúnaði hefur fjárfesting farið minnkandi undanfarin tvö ár og enn gert ráð fyrir nokkrum samdrætti á þessu ári. Samkvæmt spánni fyrir árið 1981 verður landbúnaðarfjárfesting svipuð og á árinu 1971, en um fimmtungi minni en hún var að meðaltali árin 1972–1980. Þessi samdráttur á m. a. rætur að rekja til þeirrar stefnu, sem fylgt hefur verið í landbúnaði að undanförnu, að draga úr framleiðslu búfjárafurða.“

Þarna eru sannarlega tekin af öll tvímæli og meira en það. Þessar setningar skýra vissulega þá afstöðu ríkisstj. sem kemur fram í fjárlagafrv. um hagræðingarfé, um nýjar búgreinar og um loforðin frá 1979. Það á að beita stjórnun í sambandi við framkvæmdir og framfarir til að ná landbúnaðarframleiðslunni niður. Það er engin tilviljun að einmitt þetta ártal, árið 1971, skuli vera valið.

Þá hafði nefnilega um skeið gengið yfir íslenskan landbúnað erfitt árferði. Líklega hefur íslenskur landbúnaður á þeim árum átt í meiri erfiðleikum og bændurnir í þessu landi þurft að þola meira og taka meira á sig en hefur gerst í annan tíma á s. l. þremur áratugum. Þetta kom fram í því, að á árunum í kringum 1970 dró úr umbótum í sveitum landsins vegna kals og alls konar harðæris. Það er af þessu árferði sem hæstv. ríkisstj. tekur mið. Það árferði hefur orðið íslenskum landbúnaði hvað erfiðast á þremur síðustu áratugum og leiddi til þess, að þá dró úr framkvæmdum og framförum í sveitum landsins. Af því tekur ríkisstj. sérstakt mið og segir að það sé sú viðmiðun sem hún vilji hafa til að koma landbúnaðarframleiðslunni í eðlilegt horf.

Ég dreg mjög í efa að ríkisstj. hafi í þessu plaggi eða nokkru öðru tekist að lýsa hug sínum til eins af atvinnuvegunum í þessu landi með jafnskýrri og ótvíræðri framsetningu og hér hefur verið gert. En það er þá kannske vert að segja frá því hér, hvað skilur á milli og hvað er verið að yfirgefa í íslenskri landbúnaðarpólitík. Þegar þessi ár, árin í kringum 1970, eru undan skilin hefur fjárfesting í landbúnaði allt frá árinu 1 965 og líklega þótt eitthvað lengra sé farið aftur á bak verið hin sama að raungildi. En tvö síðustu ár hafa skorið sig úr í þessum efnum og eru sambærileg við harðindatímabilið. Fjárfesting hefur að raungildi verið sú sama öll þessi ár. Það er ákaflega mikill misskilningur að hún hafi orðið til að valda þeirri 3–4% framleiðsluaukningu sem hefur orðið í landbúnaði frá árinu 1975.

Það er vert að segja líka frá því hér, hverjir það eru sem hafa borgað þessa fjárfestingu. Það vill svo til að það er fyrir hendi úttekt á því frá Þjóðhagsstofnun, hvernig sú fjárfesting, sem hefur fallið til landbúnaðarins, hefur skipst. Þetta er nákvæmlega útreiknað miðað við hvert ár þessa tímabils. En þegar litið er á meðaltölur fyrir tímabilið kemur í ljós að hlutur bændanna í þessu landi er 2/3 hlutar af þessari fjárfestingu. 1/3 hluti hennar hefur verið opinber framlög eða hefur verið fjármagnaður með fé sem síðan hefur verið endurgreitt í afurðaverði. Hitt hefur verið lagt fram frá bændunum sjálfum í þessu landi. Menn geta enn og aftur velt því fyrir sér, hvað hugsað er í þessum efnum í núverandi stjórnarsamstarfi, þegar það á beinlínis að verða stefna samkv. þessari lánsfjáráætlun að koma í veg fyrir að bændurnir fjárfesti af eigin fé. En hinu má þá ekki heldur gleyma og það verður að sjálfsögðu að koma hér fram, til hvers þessi fjárfesting í landbúnaðinum hefur leitt. Hefur hún leitt til hækkaðs vöruverðs? Hefur hún leitt til þess, að birgðir hafi safnast upp? Hvað hefur orðið um hana? Það liggja fyrir um það tölur, það liggur fyrir um það úttekt frá Þjóðhagsstofnun, að á svipuðum tíma og þessi fjárfesting hefur átt sér stað í landbúnaðinum, sem bændurnir í þessu landi hafa fjármagnað að 2/3 hlutum sjálfir, hefur framlegð í landbúnaðinum ferfaldast. Hvar ætli þessi hagnaður birtist? Hvar ætli hans sé að leita? M. a. í lægra verði á landbúnaðarvörum eins og það birtist í viðskiptum hér innanlands. Nú liggur fyrir samkvæmt þeirri stefnu, sem mótuð er hér í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982, að þessu á öllu að snúa við, þetta á allt að ganga með öðrum hætti en verið hefur.

Herra forseti. Ég stytti nú mál mitt varðandi umr. um íslenskan landbúnað hér í kvöld. Ég vitna til þess, sem ég áðan sagði, að enn þá hefur ekki verið lokið við fjárlagaafgreiðslu og þar hlýtur það að koma virkilega fram, hver hugur og stefna ríkisstj. er, en það verður ekki annað séð en fulls jafnræðis gæti í afstöðu ríkisstj. bæði í sambandi við fjárlagaafgreiðslu og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Þó að það séu að sjálfsögðu ekki margir efnisþættir sem eru skýrir í stefnu núv. hæstv. ríkisstj. fer ekki milli mála að afstaða hennar í sambandi við landbúnaðarmál er alveg skýr, alveg ótvíræð. Það er alveg augljóst að ríkisstj. getur sparað sér að bera fram sérstaka þáltill. um stefnu eða stefnumótun í landbúnaðarmálum því að hún er komin fram í þskj. — Að sjálfsögðu er það hvort sem er að verða of seint. Það er tilgreint í stjórnarsáttmálanum, sem sumir þm. lesa að morgni og kvöldi og ég held um miðja nótt, að stefnu í landbúnaðarmálum eigi að ákveða með ályktun frá Alþingi. Ríkisstj. er búin að móta sína stefnu til þriggja ára, en það bólar ekkert á þessari stefnumótun enn í dag. Eins og ýmislegt annað í þeim sáttmála verður hún ekki annað en minnisvarði um það sem átti að gera, en aldrei hefur verið gert.

Herra forseti. Það eru búnar að fara fram á þessum degi í þessari hv. deild miklar umr. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og stefnu núv. hæstv. ríkisstj. Það held ég að þurfi engum að koma á óvart þó að það sé tekin upp nokkur umr. um þau mál á Alþingi, því að það hefur verið frá því sagt og m. a. komið fram í fjölmiðlum hjá ýmsum af þm. Framsfl., að þeir hafi alls ekki áttað sig á efnahagsvandanum, þeir hafi alls ekki áttað sig á umhverfinu í íslenskum atvinnumálum fyrr en fyrir um tveimur mánuðum. Það er kannske ekki að undra þótt ýmislegt sé á skakk í kringum þessa málaafgreiðslu hér á Alþingi, fjárlög og lánsfjárlög, þegar fyrir liggja yfirlýsingar um það frá þm. stjórnarflokkanna, að þeir hafi ekki verið búnir að átta sig á vandanum í sambandi við afgreiðslu þessara mála. Það er þá kannske hægt að vænta þess, að menn rumski oftar en 2. nóv. Það hefur verið um það talað, að þá hafi þingflokkur Framsfl. átt vökunótt. Það er út af fyrir sig merkilegt að það skyldi einmitt vera þennan dag, mánudaginn 2. nóv., daginn eftir landsfund Sjálfstfl., sem framsóknarmenn þurftu að fara að vaka og vinna, fram að þeim degi hefðu þeir ekki þurft að hafa áhyggjur. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá framsóknarmönnum um að þeir hafi ekki vitað fyrr en um það leyti hvað mundi mæta íslenskri þjóð í sambandi við atvinnumál og efnahagsmál. Ef þetta skyldi verða annar dagurinn síðan núv. ríkisstj. var mynduð sem menn fara að hugsa og taka til hendinni í stjórnarherbúðunum væri það að sjálfsögðu ofurlítið batamerki.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar að þessu sinni, en undirstrika það, sem ég hef áður sagt, að hvergi er eins gengið gegn nokkrum atvinnuvegi í fjárlagagerð og í sambandi við lánsfjárlög og íslenskum landbúnaði. Það er að sjálfsögðu með öðrum hætti, sem stjórnarstefnan hefur snert aðra atvinnuvegi, eins og þjóðin hefur orðið vitni að. Það hefur gerst með því, að t. d. sjávarútvegurinn og iðnaðurinn hafa komist í greiðsluþrot. En að landbúnaðinum á að sækja með öðrum hætti, með þeim hætti að draga úr framkvæmdum, draga úr framförum, draga úr vilja bændanna í þessu landi til að halda áfram þeirri viðleitni sinni að byggja upp íslenskar dreifðar byggðir, að styrkja íslenskan landbúnað.