17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Þar var mjög rösklega að verki staðið og menn tóku saman höndum um að reyna að koma málinu fram, enda allir sammála um að það þyrfti að ná fram að ganga fyrir áramót.

Ég hefði ekki staðið upp að sinni, vegna þess hversu áliðið er kvölds og mikil nauðsyn að hraða þessu máli, ef ekki hefðu verið bornar upp nokkrar fyrirspurnir og mjög eindregið óskað eftir að svör væru gefin við þeim. Ég skal fúslega reyna að svara þeim í sem allra stystu máli og ætla þá að vona að ég hafi örugglega párað þær allar rétt hjá mér.

Í fyrsta lagi var spurst fyrir um framkvæmd lánsfjáráætlunar á árinu 1981 og gefið í skyn að ekki væri víst að heimildir væru fyrir öllum þeim umframlántökum sem átt hefðu sér stað á árinu og nema — eins og réttilega hefur verið bent á hér — 166 millj. kr. Ég held þó að ef nánar er að gáð komi í ljós að fullar heimildir eru fyrir hendi að samþykktum þessum lánsfjárlögum. Það er þó kannske rétt að fara lauslega yfir það dæmi.

Það er í fyrsta lagi umframlántaka upp á 16 millj. vegna Járnblendifélagsins. Þetta mál kom ekki til fyrr en í septembermánuði og reið þá mikið á að brugðið væri skjótt við og útvegað væri þetta lán, enda hefði orðið greiðslufall h já Járnblendifélaginu ella. En sem betur fer er greiðsluheimild í lögum fyrir þessari lántöku upp á 16 millj. þannig að þar er fullnægjandi heimild fyrir hendi.

Þegar kom að næsta lið, sem er lán vegna Kröfluvirkjunar upp á 33 millj., er þar einfaldlega um að ræða „konverteringu“ lána frá fyrri árum og þá sérstöku grein í lánsfjárlögum fyrir árið 1981 sem heimilaði þá „konverteringu“, þannig að segja má að sú tala, 33.2 millj., hafi verið í lánsfjárlögum fyrir árið 1981 og þar sé ekki um neina viðbót að ræða.

Lagmetisiðjan Siglósíld fékk 2.4 millj. að láni. Þar er um að ræða lánveitingu sem aflað er heimilda til í þeim lánsfjárlögum sem hér eru til umr.

Þegar við komum svo að framkvæmdum Rafmagnsveitna ríkisins, en þar er um að ræða byggðalínur og framkvæmdir við Kröfluvirkjun, hvort tveggja umframkostnað sem ekki var reiknað með, gildir það sama, að hér er leitað heimilda til þeirrar lántöku.

Næst komum við að stofnkostnaði virkjana upp á 37.4 millj. Í virkjanalögum, sem samþykkt voru á s. l. vori, er heimild til þeirrar lántöku.

Um Byggingarsjóð Listasafns Íslands og Sjóefnavinnsluna gegnir sama máli og um ýmislegt sem ég hef þegar nefnt, að leitað er nú heimilda til þeirrar lántöku.

Næst kemur stór upphæð, sem er Orkusjóður vegna byggðalína. Þar er um að ræða „konverteringu“ á lánum. Fullnægjandi heimild var fyrir því í lánsfjárlögum fyrir árið 1981. Þar er því ekki um aukningu að ræða, heldur einfaldlega upphæð sem gert var ráð fyrir í gildandi lánsfjárlögum.

Aftur á móti gildir það um Orkubú Vestfjarða og Kísiliðjuna, að leitað er heimilda vegna þeirra framkvæmda í lánsfjárlögum sem nú eru til umr. og eru hér á dagskrá.

Þá eru sem sagt efir hitaveiturnar. Þar gegnir svipuðu máli og ég hef nú nefnt, að heimildir eru fyrir hendi í gildandi lánsfjárlögum þeirra vegna. Ég vil þó sérstaklega taka það fram, að viðbót vegna hitaveitu Hóla var tekin af liðnum Annað í lánsfjáráætluninni, og varðandi Hitaveitu Seyðisfjarðar og Hitaveitu Hafnar í Hornafirði er um að ræða skuldauppgjör fyrir árið 1980, þannig að þar er ekki um að ræða framkvæmdir á árinu, heldur upphæðir sem tilheyra raunverulega lánsfjáráætlun fyrir árið 1980.

Mér er sem sagt tjáð af kunnugum og þeim sem yfir þetta mál hafa farið, að það séu fullnægjandi heimildir fyrir öllum þessum viðbótarlántökum þegar þau lánsfjárlög hafa verið samþykkt sem eru hér til umr.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson spurði að því, hvernig leyst yrði úr fjárvöntun Framkvæmdasjóðs þar sem í ljós hefði komið að lífeyrissjóðir hefðu ekki keypt það magn af skuldabréfum sem ráðgert hafði verið. Það var alveg rétt hjá hv. þm., að fjárvöntun Framkvæmdasjóðs er um 60 millj. kr. Þetta kemur mjög ljóslega fram í bréfi því sem fjmrn. sendi til fjh.- og viðskn., þar sem gerð var grein fyrir fjárvöntunum vegna lánsfjáráætlunar 1981. Ég hélt að svarið við þessari spurningu kæmi líka fram í þessu sama bréfi, en kannske hefur þar ekki verið um að ræða alveg ótvíræð svör, heldur meira áform. Ég man nú ekki alveg hvernig þetta var orðað. En þessi vandi hefur verið leystur þannig, að vegna þess að það vantar upp á lífeyrissjóðaféð hefur Framkvæmdasjóður tekið erlent lán að upphæð 25 millj. kr. samkv. heimildum sem sjóðurinn hefur og þarf ekki að afla sérstakrar heimildar þess vegna, en afgangurinn, þ. e. í kringum 35 millj., sem er fjárvöntun Framkvæmdasjóðs nettó, hefur verið fenginn með niðurskurði, þ. e. að viðkomandi stofnlánasjóðir hafa ekki fengið það fé sem ráð var fyrir gert í upphafi ársins.

Þetta leiðir hugann að afgreiðslu lánsfjáráætlunar fyrir árið 1982 og þeim vanda sem við stöndum þar frammi fyrir. Það er rétt sem á hefur verið bent, að í drögum að lánsfjáráætlun var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir skiluðu 45% af ráðstöfunarfé sínu til opinberra aðila eða til sameiginlegra þarfa. Nú, þegar við höfum fallið frá þessu áformi okkar og miðum við 40% af ráðstöfunarfé, þýðir þetta meiri erlendar lántökur. Það er hárrétt ályktun sem hér hefur verið dregin. En ég held að þetta sé ekki annað en það sem við verðum að horfast í augu við, að þegar brestur verður í innlendri fjáröflun verður erlend fjáröflun að koma þar á móti.

Ég man ekki alveg hvaða hv. þm. það var sent spurði um 5. gr. frv., sem sagt liðinn: „Fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs er heimilt að taka lán á árinu 1982 samkv. síðari ákvörðun fjmrh. um lántökuaðila allt að 1 5 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.“ Það var spurt hvaða lán gætu þarna komið til greina. Liðurinn er orðaður á þennan veg vegna þess að honum er ekki ráðstafað nema að hluta til og bíður því síðari ákvörðunar að ráðstafa af þessum lið. Þau fyrirtæki, sem þarna gætu komið til greina, eru þau fjöldamörgu fyrirtæki sem ríkissjóður á aðild að. Sérstaklega eru það hlutafélög sem ríkissjóður á nokkurn hlut í, stóran eða smáan. Ég vil sérstaklega nefna Kísiliðjuna, Járnblendifélagið, Þormóð ramma, Slippstöðina, Norðurstjörnuna og Rafha. Ég held að reynslan sýni að það er alltaf leitað töluvert til ríkisvaldsins um lánsfjárheimildir af hálfu fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og slíkur liður hefur þá verið notaður í þessum tilgangi.

Ef spurt er frekar um ráðstöfun af þessum lið er rétt að taka það fram, að eitt fyrirtæki hefur nú þegar fengið vilyrði fyrir því, að lánveiting verði til fyrirtækisins af þessum lið og það er Þormóður rammi. Í júnímánuði s. l. samþykkti ríkisstj. tillögu nefndar, sem skipuð var á s. l. vetri til að fjalla um málefni Þormóðs ramma, og í tillögu nefndarinnar var gert ráð fyrir að útvegað yrði sérstakt lánsfé til að ljúka byggingu frystihúss Þormóðs ramma sem hefur verið í byggingu í tæpan áratug. Lán í þessu skyni yrði væntanlega tekið af þessum lið lánsfjáráætlunar. Að öðru leyti hafa ekki verið teknar ákvarðanir um þennan lið.

Hv. þm. spurði í sambandi við lífeyrissjóðina hvernig ætti að skilja orðið „fjmrn.“ í 1. mgr. 29. gr., sem fjallar um lífeyrissjóðina. Ég held að ég verði að svara því ósköp einfaldlega, að það verður að skýra þetta orð af samhengi textans. Það er ljóst að málið í heild snertir fyrst og fremst þessa tvo aðila, þ. e. annars vegar fjmrn. og hins vegar Seðlabanka Íslands, og að lífeyrissjóðirnir almennt heyra undir fjmrn. og að skipulagning á lánsfé er á verksviði fjmrn. Því held ég að mönnum hafi þótt eðlilegt að fjmrn. væri nefnt í þessu sambandi. Ég held að ég geti ekki gefið neina frekari skýringu á því en að mönnum hafi fundist eðlilegt að Seðlabankinn og fjmrn. væru nefnd í sömu andrá í þessu sambandi.

Hv. þm. spurði hvað átt væri við með orðalaginu, að rn. skuli eiga viðræður við sjóðina í því skyni að ná samkomulagi um kauptilhögun og ganga frá endanlegri áætlun sinni um kaup lífeyrissjóðanna að loknum þeim viðræðum. Ég held líka að þetta orðalag skýri sig alveg sjálft og að það sé alveg ljóst hvað þarna er verið að fara. Það er gert ráð fyrir að leitað sé eftir samkomulagi við lífeyrissjóðina um þetta mál. Ég held að allir geri sér grein fyrir því, að það er afar þýðingarmikið að gott samkomulag sé við lífeyrissjóðina og að framkvæmd þessa lagaákvæðis velti á því, að það samstarf sé snurðulítið eða sem snurðuminnst. Auðvitað er alltaf hætta á einhverjum ágreiningi, en það er mjög þýðingarmikið að þetta samstarf geti orðið sem best. Það eru ekki í lagagreininni nein viðurlög sett ef skil eru ekki í fullkomnu lagi, og það er ekki heldur nein aðfararheimild af hálfu fjmrn. til að fylgja eftir vanskilum, þannig að auðvitað er fjmrn. í heldur veikri stöðu hvað þetta snertir. Ég hef persónulega talið að það hefði getað komið til greina að hafa þetta snarpara. Eins og mönnum er kunnugt setti ég fram hugmyndir í þá átt sem ekki áttu upp á pallborðið hjá talsmönnum lífeyrissjóðanna. Miðað við að menn vildu ná sem bestu samkomulagi um þessi mál almennt var fallið frá því að halda þeim hugmyndum til streitu. En ég held að þessi texti skýri sig nokkuð sjálfur, að það er ætlast til þess af fjmrn., að það hafi sem ítarlegastar viðræður við lífeyrissjóðina og freisti þess í lengstu lög að ná samkomulagi um þetta mál. Auðvitað verður svo einhver endir að vera á hverri deilu. Þar sem ekki er um að ræða að málinu sé vísað til gerðardóms eða til neins þriðja aðila er þarna gert ráð fyrir að fjmrn. geti gengið endanlega frá sinni áætlun um kaup lífeyrissjóðanna að þessum viðræðum loknum og taka þá að sjálfsögðu tillit til þess sem fram hefur komið í þeim viðræðum.

Það var spurt hérna um Bjargráðasjóð og hvort hægt væri að gefa einhverja yfirlýsingu um ráðstafanir til að tryggja að hann gæti veitt bændum fyrirgreiðslu til fóðurkaupa og vegna afurðatjóns á árinu sem er að líða. Ég vil lýsa því yfir, að ég beitti mér einmitt fyrir því, að tekin væri inn í fjárlagafrv. heimild í þessum tilgangi, þar sem segi alveg ótvírætt að fjmrh. hafi heimild til að útvega Bjargráðasjóði lán sem verði til endurlána til bænda sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum kals eða hafa orðið fyrir afurðatjóni vegna harðinda og kulda að undanförnu. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þessi grein er orðuð, ég er ekki með hana fyrir framan mig, en ég get fullvissað menn um að tillaga þess efnis kemur fram við fjárlagaafgreiðsluna á morgun sem ein af till. fjvn. við 6. gr. frv.

Herra forseti. Ég held ég muni það rétt, að ég hafi ekki verið spurður fleiri spurninga. Jú, ég hef líklega verið spurður aðeins fleiri spurninga. Ég var spurður spurninga varðandi Rafmagnsveitu Reykjavíkur af hv. þm. Eyjólfi Konráð. Ég held að öllum sé ljóst að þar er um ákveðinn vanda að ræða. Rafmagnsveita Reykjavíkur sótti um að fá að koma inn á lánsfjáráætlun með lántöku til að fylla í skarð í rekstri sínum. Niðurstaðan var að taka ekki slíkt lán inn. Ég held að allir geti verið sammála um að lántaka opinbers fyrirtækis vegna rekstrarerfiðleika eigi ekki rétt á sér nema í einhverjum óvenjulegum undantekningartilvikum. Vissulega getur það gerst að slíkt verði að gera, en ég held þó að menn hljóti að vera sammála um að það verði að leita allra leiða áður en til slíks er gripið og það verði þá að reyna að leysa þennan vanda eftir annarri leið.

Hv. þm. spurði, hvor ekki mætti skilja bréf frá iðnrn. á þann veg, að framkvæmdum við Sultartanga hefði verið frestað, og það væri þá vegna þess að strikað hefði verið yfir allar beiðnir í meðferð fjh.- og viðskn. á þessari lánsfjáráætlun. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þetta er á misskilningi byggt. Ég held að bréf iðnrh. til Landsvirkjunar standi ekki í neinu sambandi við afgreiðslu lánsfjáráætlunar og að ekki sé ástæða til að ætla að þar sé neitt samhengi á milli, enda vil ég benda á að í virkjanafrv., sem við samþykktum á s. l. vori, eru sjálfstæðar heimildir til lánsfjárútvegunar vegna virkjunarframkvæmda og strangt tekið þurfum við ekki að taka það inn í þessa lánsfjáráætlun.

Að lokum var hér ein fyrirspurn frá hv. þm. Eyjólfi Konráð þess efnis, hvort ríkissjóður mundi ekki færa til afgang, sem hann fengi af lífeyrissjóðafé, til Framkvæmdasjóðs og Byggingarsjóðs ríkisins, ef afgangur yrði hjá ríkissjóði. Ég vil svara þessari spurningu játandi. Ef ríkissjóður fær meira en honum var ætlað samkv. lánsfjáráætlun finnst okkur eðlilegt að færa þann afgang yfir til Framkvæmdasjóðs og Byggingarsjóðs. En svo fremi að ríkissjóður fái það sem honum er ætlað í lánsfjáráætlun býst ég nú ekki við að við sjáum ástæðu til að jafna því frekar út, enda skiptir þetta kannske ekki heldur máli í sjálfu sér. Við höfum þegar gert ráðstafanir til að leysa vanda Framkvæmdasjóðs á ákveðinn máta og höfum því ekki gert ráð fyrir tilfærslum af þessu tagi, enda ekki búist við að afgangur yrði af lífeyrissjóðafé hjá ríkinu. Það er alveg rétt, sem hv. þm. segir, að ríkissjóður hefur komið inn í þessa lánsfjáröflun hjá lífeyrissjóðunum núna í seinni tíð. Menn geta haft þau orð um, að ríkissjóður sé að ryðjast inn á annarra verksvið. Það má nota yfir það hvaða orð sem menn vilja. Það er staðreynd að ríkissjóður hefur komið inn á þetta svið núna í seinni tíð. En hver var tilgangurinn? Tilgangurinn var að reyna að draga úr erlendum lántökum ríkissjóðs. Þess vegna kom ríkissjóður inn í þessa mynd lífeyrissjóðanna. Svo er það allt annað mál, að ríkissjóður hefur átt auðveldara með að afla síns hluta af þessu lífeyrissjóðafé vegna þess að hann er auðvitað í svo náinni snertingu við Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna hefur greitt sitt lífeyrissjóðsfé að talsvert miklu leyti til ríkissjóðs og svo að sjálfsögðu til Byggingarsjóðs ríkisins.

Herra forseti. Ég held að ég hafi svarað öllum spurningum sem fram komu. (Gripið fram í.) Já. Má ég biðja hv. þm. að lána mér bréfið sem hann var að lesa úr. Ég heyrði nefnilega ekki fyrri hlutann. — Það bréf, sem hv. þm. vitnaði til áðan, er bréf til samgrn. Það grunaði mig einmitt. Ég kannaðist ekki við að hafa fengið þetta bréf sjálfur. Þetta bréf er til samgrn., stílað á Ólaf Stein Valdimarsson skrifstofustjóra, og það er skrifað 2. sept. Þar er sem sagt vísað til fyrri bréfaskrifta og óskað eftir að ráðuneytið hlutist til um að hafnarsjóði Vestmannaeyja verði útvegað eða heimilað að taka allt að 6.5 millj. kr. lán á næsta ári svo að ljúka megi við 1. áfanga framkvæmda við skipalyftuna. Ég kannast ekki við að þetta bréf hafi borist til fjmrn., og ég hef enga aðstöðu haft til að hugleiða það erindi sem hér er á ferðinni. Hins vegar má vel vera að þetta erindi hafi verið sent til hafnarmálaskrifstofunnar eða til fjvn., þar sem það á ekkert síður heima. Ég hlutaðist til um það, og átti ágæta samvinnu við samgrh. um það, að inn í fjárl. var tekin ein upphæð til hafnarframkvæmda vegna skipaiðnaðar, 15 millj. Að því loknu hef ég ekki komið neitt frekar nærri þessum málum vegna þess að það er alfarið á verksviði fjvn. að skipta slíkum safnliðum og á verksviði samgrn. og kannske félmrn. sem ráðuneytis sveitarstjórna í landinu að hafa með að gera fjárvöntun einstakra sveitarfélaga vegna síns hluta af framkvæmdunum. Mér er kunnugt um að það sveitarfélag í mínu kjördæmi, sem stendur í viðlíka framkvæmdum og Vestmannaeyjakaupstaður gerir, leitar t. d. til Iðnlánasjóðs og fær þar lán, og það hefur ýmis önnur úrræði til að afla láns vegna síns hluta af þessum framkvæmdum. Ég veit ekki hvað hafnarsjóður Vestmannaeyja hefur gert samsvarandi, en auðvitað verðum við að ganga út frá því sem meginreglu að ríkissjóður leggi fram sinn hluta og sveitarfélögin bjargi sér svo aftur með sinn hluta, annaðhvort með beinum framlögum úr viðkomandi bæjar- eða hreppssjóði ellegar með einhvers konar lántökum. Vel er hægt að hugsa sér að ríkið hlaupi þar undir bagga í undantekningartilvikum. En þetta erindi hefur sem sagt ekki komið til mín og ég get engu svarað um þetta. Ég get ekki einu sinni neitt sagt um hvort fjallað hefur verið um málið í fjvn. Það er þá miklu frekar að ræða það í sambandi við 3. umr. fjárlaga á morgun. Ég óska eftir því að fjvn.-menn geri grein fyrir því, hvort þessi beiðni hefur komið þangað.