17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Þau voru prúðmannleg og alúðleg, og það sýnir að hæstv. ráðh. getur, ef hann leggur sig fram, verið prúðmannlegur. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann hefur beitt sér fyrir að tekið verði sérstakt heimildarákvæði inn í fjárlög um það, að Bjargráðasjóði verði gert kleift að bæta mönnum tjón sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni í dag og menn hafa orðið fyrir á Norðurlandi vegna harðæris.

Ég ætla ekki að fara út í frekari umr. hér efnislega, aðeins segja það, að hæstv. ráðh. minntist hér á að það væri staðreynd að ríkissjóður væri kominn á þennan markað, að afla fjár úr lífeyrissjóðakerfinu, og það hefði verið gert vegna þess að ríkissjóður væri að forðast erlendar lántökur með þessum hætti. Að sjálfsögðu hlýtur þetta að þýða það, að þá þrengir að öðrum aðilum, sem þarna voru fyrir og eru fjárvana, þannig að þetta út af fyrir sig minnkar ekki þrýstinginn á erlendar lántökur í heild sinni.

Ég ætla ekki að efna til efnislegra umr. hér frekar út af þessu máli. Þær umr., sem hér hafa orðið í hv. deild í dag, hafa verið málefnalegar. Þær hafa verið mjög ítarlegar og góðar umr., vil ég segja. Þær hafa sýnt að þetta frv. er ekki vel unnið, svo að vægt sé til orða tekið. (Gripið fram í.) Og í því er sú stefna sem ég og þeir, sem hér hafa talað í dag, geta ekki sætt sig við. Þess vegna er afstaða okkar sú, að við erum andvígir þessu máli, og það mun koma fram í atkvgr.