17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Þar sem ég bar fram allmargar og kannske flestar af þeim fsp. sem hæstv. ráðh. hefur hér svarað tel ég mér skylt að þakka honum fyrir hans svör. Ég var ánægður með þau að því leyti til, að þau voru sett fram á skiljanlegan hátt og kurteislega, eins og hér var haft orð á, og þarf ekki að hafa um það öllu fleiri orð. Ég beindi að vísu fyrirspurn til hæstv. forsrh. líka og bað hann um skýringar, en hann hefur ekki séð ástæðu til þess að svara né heldur að skýra mál sitt fyrir þessari hv. deild sem hann þó á sæti í, og raunar bjóst ég ekki við að hann mundi gera það.

En það er aðeins eitt atriði sem ég vil fá, ef unnt er, aðeins skýrari grein gerða fyrir, þ. e. þetta með lífeyrissjóðina, orðalagið „sem viðurkenndir eru af fjmrn. og Seðlabanka.“ Ef ég hef skilið hæstv. fjmrh. rétt, að þetta breyti efnislega engu, það hafi verið talið eðlilegt að setja inn fjmrn. líka en efnislega verði túlkunin sú sama og í núgildandi lögum, þetta séu þeir sjóðir sem viðurkenndir eru af seðlabanka Íslands og heimild hafa til verðtryggingar, sbr. VII. kafla laga nr. 13 10. apríl 1979, — ef engin efnisbreyting er þó að því sé skotið inn að þeir séu viðurkenndir af fjmrn., þ. e. að fjmrn. muni viðurkenna alla sömu sjóðina og Seðlabanki Íslands gerir og hefur gert, þá tel ég ekki ástæðu til að flytja brtt. En ef þessi skilningur minn er rangur, þá væri að mínum dómi alveg nauðsynlegt að flytja brtt. og fella út þessi orð: „fjmrn. og “.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh. hvort ég hafi skilið hann rétt, að þarna sé ekki um neina efnisbreytingu að ræða. Ef svo er mun ég ekki flytja brtt. Ég vona að hann geti svarað því með jái eða neii úr sæti sínu. (Fjmrh.: Ég veit nú ekki hverju skal svara.) Ég skal reyna að orða þetta svolítið skýrar: hvort það væri hugsanlegt að fjmrn. mundi neita viðurkenningu einhverjum sjóðum sem Seðlabankinn viðurkennir lögum samkvæmt, þannig að um einhverja sjóði, sem núna eru viðurkenndir, kynni fjmrn. að segja: Nei, þennan sjóð viðurkennum við ekki. — Ef svo er, að það er um efnisbreytingu að ræða, held ég að deildin verði að fella þessi orð niður. A. m. k. er ég sannfærður um að forustumenn lífeyrissjóðanna gengu út frá því. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því, að þessu orðalagi hafði verið skotið þarna inn. Þess vegna held ég að það væri sjálfsagt að fella þessi orð niður ef þetta á að þýða einhverja efnisbreytingu. Ég held meira að segja að mér sé óhætt að fullyrða það, að bæði formaður okkar nefndar og aðrir hafi litið á þessa mgr. sem óbreytta, að enginn annar hafi eftir þessu tekið en ég í gær eða nótt þegar ég var að lesa þetta nákvæmlega saman. Ráðh. treystir sér ekki til að svara þessu úr sæti sínu? (Fjmrh.: Ég hef kvatt mér hljóðs.) Já.