17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er rétt, að ég fór ekki út í efnislegar umr. um málið hér áðan og svaraði eingöngu spurningum sem að mér var beint. En þó tek ég fram að ég er ekki samþykkur till. hv. þm. um að fella niður 15. gr. Ég taldi að við hefðum rætt svo ítarlega um það mál við 1. umr. málsins, ef ég man rétt, að sú afstaða mín hafi verið nokkuð skýr. Ég taldi þá grein óhjákvæmilega og við ræddum það nokkuð við 1. umr. (ÞK: Brtt. var ekki borin fram fyrr en við 2. umr.) Nei, nei, en hugmyndin kom fram við 1. umr. (ÞK: Hún var löngu komin fram.)

Það liggja hérna fyrir tvær tillögur sem snerta þessa lánsfjáráætlun, og ég hygg að hvorugrar þeirra hafi verið getið í þessum umr. Ég heyrði ekki nákvæmlega mál frsm. nefndarinnar, og var ekki viss um hvort hann hefði eitthvað minnst á þetta mál. En það hefur líklega ekki verið, enda man ég núna að a. m. k. önnur till. er síðar til komin. En brtt. á þskj. 228 er á þá leið, að 22. gr. frv. falli burt. Þar er um að ræða að skerðing á Félagsheimilasjóði sé felld niður. En ég minni á í þessu sambandi að Félagsheimilasjóður hefur ekki verið með í þeim skerðingarákvæðum sem hafa verið í lánsfjárlögum á undanförnum árum. Það er í fyrsta sinn núna sem hann er tekinn þar upp, og það hefur orðið að samkomulagi að fella það aftur út. Ég held að ég þurfi ekki að gefa frekari skýringar á því. Þarna er sem sagt um það að ræða, að sú skerðing, sem var fyrirhuguð á Félagsheimilasjóði, kemur ekki til framkvæmda. Og það eru auðvitað mörg rök fyrir því í sjálfu sér.

Ég vil geta þess hér, að ég flyt ásamt sjútvrh. till. um breytingu á lánsfjárlögum, sem felur í sér heimild fyrir ríkisstj. til að samþykkja að framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs gangi til Stofnfjársjóðs fiskiskipa. Þessi till. er fyrst og fremst komin frá sjútvrh. sem hafði með þetta mál að gera þegar samið var um fiskverð. Það varð niðurstaða í samningum um fiskverð, m. a. í góðu samkomulagi við Landssamband ísl. útvegsmanna, að þessi tilfærsla ætti sér stað. Úr því að verið er að óska eftir að nefndar séu hér allar tillögur sem fyrir liggja, þá er rétt að láta ekki þessarar till. ógetið.