17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu var langt komið að ræða hér í hv. deild við 2. umr. í gær og sjáanlegt að umr. mundi ljúka innan nokkurra mínútna þegar upp hófust ræðuhöld tveggja ráðh.: Í fyrsta lagi fjmrh. sem gaf hér seinheppna og ákaflega vanhugsaða yfirlýsingu varðandi ábyrgð ríkissjóðs vegna lántöku sem gert er ráð fyrir í þessu frv. vegna loðnuafurða. En þó beit höfuðið af skömminni ræða forsrh. þar á eftir. Ég held að vart hafi heyrst vitlausari ræða af vörum ráðh. en ræða forsrh. hér í gær. Hún gerði það að verkum, og ræður þessara tveggja ráðh., að málinu er engan veginn lokið. Þetta frv. hefði orðið að lögum fyrir klukkan fjögur í gær ef þeir hefðu annaðhvort kunnað að haga málflutningi sinum með stillingu og hógværð og notað skynsemi eða setið á sínum rassi, sem hefði farið þeim báðum mun betur.

Hitt var annað mál, hvernig hæstv. viðskrh. tók á málinu. Hann mælti fyrir þessu máli við 1. umr. Það eru skiptar skoðanir hér á milli stjórnar og stjórnarandstæðinga um afgreiðslu á þessu máli, en það voru ekki skiptar skoðanir um að það bæri að afgreiða þetta mál. Um það var ekki ágreiningur, og hæstv. viðskrh. hagaði sínum málflutningi á þann veg, að umr. var að ljúka þegar hinir köstuðu sprengjunni.

Herra forseti. Ætli það sé engin leið að fá þessa hæstv. ráðh. til þess að sitja hér við umr. þegar mál sem þeir hafa verið að mæla fyrir og láta til sín heyra um, eru hér til umr. — eða er ekki ætlun þeirra að afgreiða nein mál? (Forseti: Ég geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. sé tepptur undir lóð í hæstv. Ed. vegna 2. umr. um lánsfjárlög þar, en yfirþingvörður hyggst ganga á vit hæstv. forsrh. og gera honum viðvart.) Já, ég þakka fyrir.

Það er nú svo komið á Alþingi, að formaður þingflokks Alþb., Ólafur Ragnar Grímsson, telst með hógværari þm. eftir ræður þessara tveggja ráðh. hér í deild í gær. Og hann má sannarlega spjara sig síðustu dagana ef hann ætlar að komast með tærnar þar sem þessir tveir hafa hælana. (Gripið fram í.) Nei, þegar verið er að tala við þá á hann að vera við. (Forseti: Hæstv. forsrh. er bundinn við umr. í hv. Ed. og er þess vegna spurningin hvort hv. ræðumaður vill gera hlé á máli sínu þar til hæstv. forsrh. hefur tök á að vera viðstaddur umr. því að hér er nóg að vinna. Já, ég þigg það. — [Frh.]