17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð af þessu tilefni. Fjölmargar vörur í landinu eru seldar á sama verði hvar sem er, allir landsmenn greiða sama verð fyrir þær. vörur. T. d. er bensín, olíur, mjólk eða aðrir orkugefandi vökvar seldir við sama verði um allt land. Sama gildir um marga aðra vöru og þjónustu. Það er skoðun mín að ríki og ríkisstofnanir megi alls ekki selja sömu vöru eða þjónustu með misháu verði og mismuna þannig landsmönnum. Þetta hefur verið lengi ljóst, en engir hafa enn þá haft manndóm í sér til þess að samræma þetta eins og skylt er. Það er sjálfsagt réttlætismál. Hins vegar lít ég svo á, að verðjöfnunargjald, sem hér er rætt um, sé skref í átt til verðjöfnunar, og þess vegna fylgi ég því. En á þessu formi eru verulegir gallar. Ég tel að hæstv. iðnrh. eigi að setja sína menn í það verk að sníða hnökrana af þessu formi. En umfram allt, herra forseti, vil ég leggja áherslu á að sama orkuverð verði um land allt.