17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú færst yfir á breiðara svið en efni þess frv. gefur tilefni til sem hér er á dagskrá. Engu að síður sýnist mér að hér hafi svo margt verið sagt að það sé ástæðulaust annað en að fylgja málinu örlítið betur eftir og leita eftir svari við því sem brennur náttúrlega á fjöldanum úti á landi. Það er einfaldlega þessi spurning: Á hvaða verði verður raforka til upphitunar íbúðarhúsnæðis seld á næstu árum? Í hugum íbúa landsbyggðarinnar er spurningin ekki fyrst og fremst um það, hvort verið sé að taka eitthvað af þeim svæðum sem hafa komið sér allvel fyrir í þessum efnum. Spurningin er fyrst og fremst þessi: Við hvaða borð á hinn íslenski neytandi að sitja í þessu landi?

Við erum að tala um iðnaðaruppbyggingu og við erum með orkufyrirtæki sem kaupa raforku á mjög lágu verði. Okkur er ljóst að það þarf að ná meiri miðlunarmöguleikum í því raforkukerfi sem við erum með. Það næst þess vegna ekki viðunandi árangur nema með nýjum stórvirkjunum sem eru betri en þær sem eru á Þjórsársvæðinu á þann veg, að þar verði um meiri miðlun að ræða. Hins vegar breytir það engu um það, að almenningur í landinu, í hinum dreifðu byggðum, verður að fá svar við því sem allra fyrst, hver stefnan sé þegar horft er til lengri framtíðar í þeim efnum. Á hvaða verði á að selja raforkuna til upphitunar íbúðarhúsnæðis? Við þessu verður að fást svar. Og ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt, að ef ekki fæst svar við þessu og ef haldið verður áfram með þann mikla mun sem er, þá leiðir það til byggðaröskunar. Það getur aldrei leitt til annars en mikillar byggðaröskunar, meiri byggðaröskunar en hefur átt sér stað til þessa í landinu. Svo mikil er alvara þessa máls.

En um leið og ég segi þetta vil ég þakka það sem áunnist hefur í leiðréttingu á töxtum á rafmagni til almennrar notkunar. Þar hefur vissulega þó nokkuð mikið áunnist í tíð núv. iðnrh.