17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

157. mál, umboðsþóknun og gengismunur gjaldeyrisbankanna

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 199 frv. till. um breyt. á lögum nr. 40/1969, um umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna.

1. gr. hljóðar svo:

„1. gr. laganna orðist svo:

Bankar þeir, sem versla með erlendan gjaldeyri, skulu frá og með 1. jan. 1982 greiða ríkissjóði 60% af nettóheildartekjum sínum vegna mismunar sölugengis og kaupgengis gjaldeyris, svo og 60% af nettó-þóknun (provision) þeirri er þeir taka af viðskiptamönnum sínum fyrir þjónustu við yfirfærslu fjár til útlanda eða aðrar greiðslur erlendis. Þetta gildir jafnt um hvers konar ábyrgðarlaun, innheimtulaun og aðrar greiðslur, hverju nafni sem nefnast, fyrir þjónustu þá er hér um ræðir.

Seðlabankinn hefur eftirlit með því, að hlutaðeigandi bankar inni gjald þetta af hendi svo sem fyrir er mælt í 1. mgr. þessarar greinar.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi“.

Með leyfi forseta vil ég lesa grg., en hún hljóðar svo: „Skattur á gjaldeyrisviðskipti var innleiddur með lagasetningu árið 1958 og kom til framkvæmda árið 1960 og var þá 50% af mismun á kaup-.og sölugengi erlends gjaldeyris svo og 50% af þóknun af erlendum viðskiptum. Frá og með 1. jan. 1969 var gjaldið hækkað í 60%.

Á þeim árum, sem gjaldeyrisskatturinn var innleiddur, var eiginlegt sölugengi ekki til á erlendum gjaldeyri, heldur voru auk skráðs sölugengis yfirfærslugjöld, mismunandi eftir greiðslum og vöruflokkum.

Þessi lagasetning var nýlunda og raunar fráleit ráðstöfun að taka ákveðna prósentu af innkomnum tekjum vegna þjónustu án nokkurs tillits til þess, hversu háar fjárhæðir viðkomandi þjónusta kostaði gjaldeyrisbankana.

Stjórnendur gjaldeyrisbankanna hafa allt frá fyrstu tíð mótmælt þessari skattlagningu á gjaldeyrisviðskipti og farið fram á að hún yrði afnumin eða þá að skattstofninn yrði nettó-hagnaður af gjaldeyrisviðskiptum, en ekki brúttó-tekjur eins og nú er, en engin leiðrétting hefur fengist.

Þessi mótmæli hafa verið rökstudd með greinargerðum um afkomu gjaldeyrisviðskipta. Í skýrslu um þetta efni, sem Útvegsbanki Íslands sendi bæði forsætis- og viðskiptaráðherra 22. ágúst 1980, kom fram að skatturinn nam 520 millj. gkr. á ári og að honum greiddum vantaði 180 millj. gkr. á það, að bankinn hefði fyrir kostnaði af starfseminni. Allar fyrri kannanir hafa leitt til neikvæðrar niðurstöðu.

Lengur verður ekki unað við þessa skattlagningu og er frv. þetta því flutt.

Meðan bankarnir almennt greiða ekki meiri skatt en nú er til ríkisins telur flm. þó sanngjarnt að gjaldeyrisbankarnir greiði a. m. k. fyrst um sinn einhvern skatt af gjaldeyrisviðskiptum til ríkissjóðs, að því leyti sem þeir hafa hagnað af þessum viðskiptum.

Breytingin er í því fólgin, eins og fram kemur í sjálfu frv., að gjaldeyrisbönkunum beri að greiða í ríkissjóð 60% af nettó-heildartekjum sínum vegna gjaldeyrisviðskipta, þ. e. af heildartekjum að frádregnum kostnaði.

Rétt er að taka fram að stjórnvöld ákveða einhliða upphæð þóknunar og gjaldtöku vegna erlendra viðskipta. Stjórnir gjaldeyrisbankanna geta því ekki bætt sér upp skattinn með hækkun.“

Til viðbótar vil ég benda á fskj. sem hagdeild Útvegsbanka Íslands hefur gert, dags. 14. des., og er prentað hér með. Það er áætlun um tap á gjaldeyrisviðskiptum bankans á árinu 1981. Ég tel ástæðulaust að lesa það upp hér fyrir hv. þm. en eins og þar kemur fram er nettó-tap Útvegsbanka Íslands áætlað 295 millj. gkr. Þá vil ég leyfa mér þessu til viðbótar að benda á fylgiskjal, sem er prentað hér sem fskj. nr. 2 og er líka frá hagdeild Útvegsbankans, dags. 14. des. þetta ár. Það er um gjöld til ríkissjóðs vegna gjaldeyrisviðskipta 1960–1981. Tel ég ekki heldur ástæðu til að gera þá skrá að umræðuefni.

Herra forseti. Ég lít á starf mitt sem formanns bankaráðs Útvegsbanka Íslands sem trúnaðarstarf fyrir hv. Alþingi. Því tel ég skyldu mína að benda hv. alþm. á það sem miður fer í rekstri þeirrar stofnunar og þau vandamál sem skapast fyrir reksturinn vegna þeirra laga sem bankanum er gert að starfa eftir.

Ég bið hv. þdm. að skoða þetta frv. vel og hjálpa til að hraða afgreiðslu málsins svo að það nái fram að ganga áður en hv. Alþingi fer í jólafríið þó tíminn sé naumur. Mér er ljóst að ríkissjóður verður hér af nokkrum tekjum. En hæstv. ríkisstj. skilur að gjaldeyrisbankarnir eru að tapa eigin fé vegna þjónustu sem þeir veita í gjaldeyrisviðskiptum við landsmenn alla.

Útvegsbankinn fékk myndarlega fyrirgreiðslu á þessu ári, en með þessum skatti er öll sú fyrirgreiðsla tekin af bankanum á skömmum tíma, skemmri tíma en ríkissjóður endurgreiðir þá fyrirgreiðslu sem Seðlabankanum var gert að veita Útvegsbankanum fyrr á þessu ári. Mér er ljóst að ríkissjóður má illa við að missa þessar tekjur og eins og fram kemur í frv. eru aðrar réttlátari leiðir til þess að bæta ríkissjóði upp tekjumissinn vegna samþykktar þessa frv. sem ég hér leyfi mér að flytja.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr.