17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

150. mál, tollskrá o.fl.

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Í fyrradag flutti hæstv. fjmrh. framsögu hér í deildinni fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 120 31. des. 1976, um tollskrá o. fl., með áorðnum breytingum. Að framsöguræðu hans lokinni var umr. frestað og heldur hún nú áfram.

Á undanförnum árum hafa risið upp hér á landi myndarleg fyrirtæki sem framleiða tilbúin hús og húseiningar. Forráðamenn þessara fyrirtækja og samtök þeirra hafa haft vaxandi áhyggjur að undanförnu vegna óeðlilegrar samkeppni erlendis frá — óeðlilegrar vegna þess að þegar húsin eru framleidd hér á landi þarf að greiða toll af ýmsum hlutum til þeirra, en ef húsin eru flutt inn er enginn tollur greiddur, hvorki af húsunum sjálfum né fylgihlutum. Forustumenn samtaka iðnaðarins hafa þess vegna undanfarnar vikur snúið sér til ýmissa þm. og þingflokka reyndar líka með beiðni um að leiðréttingar verði á þessu gerðar. Landssamband iðnaðarmanna sendi formönnum þingflokkanna bréf 4. des. s. l., sem ég ætla að leyfa mér að lesa, en það er stutt, með leyfi forseta, en þar segir:

„Svo sem kunnugt er hafa tollar af innfluttum húsum og öðrum mannvirkjum verið felldir niður í samræmi við fríverslunarsamningana við EFTA og EBE. Í kjölfar þessa hefur innflutningur tilbúinna húsa aukist. Einkum virðist sýnt að innflutningurinn verði mjög mikill á þessu ári. Í þessu sambandi vísast til meðfylgjandi yfirlits um innflutning einingahúsa 1975–1980. Tekið skal fram að mikill innflutningur á árinu 1975 mun að verulegu leyti eiga rætur að rekja til innflutnings bráðabirgðahúsa vegna framkvæmda við Sigölduvirkjun. Auk þess er vitað að innflutningur heilsárshúsa hefur vaxið mjög á undanförnum misserum.

Segja má að það sé í fullu samræmi við efni fríverslunarsamninganna að innlendir framleiðendur verði fyrir samkeppni erlendis frá. Hins vegar er þessi samkeppni að því leyti ósanngjörn að umrædd hús hafa verið flutt inn tollfrjáls með ýmsum búnaði og efnivöru sem er hátollavara sé hún flutt inn sér í lagi, þar með talið þegar íslenskir framleiðendur einingarhúsa kaupa þessar vörur. Til nánari upplýsinga um þetta vísast til meðfylgjandi yfirlits um aðflutningsgjöld á efnivöru til framleiðslu timburhúsa.

Landssamband iðnaðarmanna og Samband einingarhúsaframleiðenda, sem er aðili að landssambandinu, telja að í ofangreindri tollameðferð felist óviðunandi mismunun sem stefni samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda í voða. Hafa samtökin óskað eftir því við fjmrh. að misrétti þetta verði með einhverjum hætti leiðrétt hið allra fyrsta. Hér með er þess farið á leit við yður, herra formaður þingflokks, að þér og flokkur yðar beitið yður fyrir farsælli lausn þessa máls.“

Þessu fylgir síðan yfirlit yfir innflutning einingahúsa 1975–1980, en þar kemur fram að mikil aukning hefur orðið á þessum innflutningi á allra síðustu mánuðum. Á þessu ári frá janúar til sept. voru flutt inn 864.2 tonn að verðmæti 7 millj. og 18 þús., en til samanburðar voru á síðasta ári flutt inn á þessum sama tíma 304.5 tonn, en í verðmætum 2.2 millj. Þessu fylgir jafnframt skrá yfir hluta til íbúðarhúsa, sem bera aðflutningsgjöld við innlenda framleiðslu, en ekki við innflutning á fullbúnum einingahúsum. Ég skal ekki lesa þá skrá, en hún er ærið fjölbreytileg. Veggflísar eru t. d. með 35% tolli, en 24% vörugjaldi, en eru tollfrjálsar séu þær hluti af innfluttu húsi. Sama er með baðker og hreinlætistæki, krana, rafmagnsofna, þakjárn og þar fram eftir götunum. Allt er þetta tollað og með vörugjaldi, en þó í mismunandi tollflokkum.

Verktakasamband Íslands hefur einnig látið þetta mál til sín taka og óskaði eftir fundi fyrir nokkru með fulltrúum þingflokkanna og fór þess á leit, að þingflokkarnir beittu sér fyrir leiðréttingu á þessu. Þar með létu þeir í té yfirlit um þetta mál sem ég skal ekki lesa hér upp, en það ber að sama brunni. Þeir benda á aukinn innflutning nú á allra síðustu mánuðum og hvernig tollur sé lagður á einstaka hluti, sem notaðir eru við framleiðslu á húsum hér innanlands, en eru tollfrjálsir ef þeir eru hluti af innfluttu húsi.

Félag ísl. iðnrekenda hefur einnig látið þetta mál til sín taka. Á fjölmennum fundi, sem þingmenn voru boðaðir til og sumir þm. mættu á fyrir nokkru í Reykjavík, var þetta eitt af þeim málum sem var tekið upp og eindregið farið fram á það við þm. að þeir beittu áhrifum sínum til þess að leiðrétting fengist á þessu máli.

Það er því ánægjuefni að hæstv. fjmrh. skuli flytja frv. sem felur í sér úrbætur í þessum efnum. Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég er samþykkur þeirri meginstefnu, sem í þessu frv. felst, og meginefni þess. Hitt er annað mál, að frv. þetta er mjög gallað og greinilega mjög kastað til þess höndum. Í fyrsta lagi er frv. nánast illskiljanlegt. Það er á ákaflega slæmu máli og það úir og grúir af málvillum í þessu frv., auk þess sem orðalagið er svo knúsað og óljóst að ég varð að lesa þetta frv. margsinnis yfir til að skilja hver meiningin væri í því. Ég skal aðeins lesa, með leyfi forseta, upphafið að 2. málsgr., en þar segir:

„Ráðh. skal heimilt að leggja jöfnunarálag á tollverð innfluttra mannvirkja og mannvirkjahluta. Jöfnunarálagið skal byggt á áætlun um hlutdeild uppsafnaðra aðflutningsgjalda í verksmiðjuverði eða byggingarkostnaði sambærilegra mannvirkja eða mannvirkjahluta sem framleitt er hér á landi.“

Þessi setning er ákaflega illskiljanleg og svo er um margar aðrar setningar í þessu frv. Hér er t. d. notað sagnorðið „að sérinnflytja“, sem ég hef aldrei heyrt áður, og þar fram eftir götunum.

Að auki eru ákveðin efnisatriði í þessu sem mér finnst nauðsynlegt að hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, taki til athugunar. Mér finnst að í 4. málsgr. sé ráðh. lagt of mikið vald í hendur og það sé opnað fyrir ráðh. að leggja jöfnunarálag á í of ríkum mæli. Þess vegna vil ég biðja hv. n. að taka þetta sérstaklega til athugunar og vænti þess jafnframt, að hún leitist við að koma þeirri hugsun, sem í þessu frv. felst, á skiljanlegra og einfaldara mál. Ég held að það eigi að vera auðvelt. Ég tel að hv. Alþingi verði að sjá sóma sinn í því, að þau lög, sem afgreidd eru héðan, séu á sem bestu máli og almenningur eigi auðvelt með að skilja hvað Alþingi er að fara með lagasetningu sinni.

Með þessum athugasemdum er ég reiðubúinn að greiða fyrir þessu máli. Ég tel að það sé mjög brýnt að tekið verði á þessu og að hv. Alþingi reyni að samþykkja frv. til l. í þessa átt eins fljótt og mögulegt er.