17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

150. mál, tollskrá o.fl.

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vænti þess að ég þurfi ekki einu sinni fimm mínútur.

Ég vil fyrst og fremst lýsa stuðningi við þetta frv., sem leiðréttir óréttmæta samkeppni við veikburða íslenskan iðnað, sem mjög hefur átt undir högg að sækja ásamt með öðrum iðngreinum, eins og húsgagna- og innréttingariðnaði, sem nú er nánast að lognast út af í landinu vegna erlendrar samkeppni. En óréttmæti, sem felst í innflutningi þeirra húsa sem hér um ræðir, er einkum það, að þeim fylgja ýmsir hlutir, svo sem heimilistæki, teppi, flísar, hreinlætistæki og gólfdúkar, sem ekki lenda í tollaflokkum vegna þess að þeir munir fylgja húsunum sjálfum. Ég hefði gjarnan vitjað beina einni fsp. til hæstv. fjmrh., — hann er nú ekki í salnum, en ég mun koma þeirri fsp. til hans, — en hún er sú, að mér þykir gæta nokkuð í athugasemdum við lagafrv. að þar sé ekki nógu skýrt kveðið á um þann rétt, sem við höfum samkvæmt samningum við Fríverslunarsamtök Evrópu, að breyta svo til sem hér er gert ráð fyrir. Í athugasemdunum segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með álagningu jöfnunarálags er ekki talið að farið sé út fyrir þau takmörk sem aðildarsamningur Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu og samningur við Efnahagsbandalag Evrópu setur okkur“ o. s. frv.

Ég hefði viljað beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., hvort það væri ekki tryggt að hér væri ekki farið út fyrir þau takmörk sem í athugasemdunum er getið. Mer finnst ekki nægilega tryggilega til orða tekið í frv. og hefði þess vegna viljað mælast til þess við hæstv. fjmrh. að hann gerði nánari grein fyrir þessu atriði málsins. Að öðrum kosti styð ég frv. og vænti þess, að það fái góða meðferð í nefnd.

Ég hef ekki notað nema tvær mínútur, herra forseti. — [Fundarhlé.]