17.12.1981
Neðri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð varðandi brtt. á þskj. 231, sem ég hef flutt ásamt hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, Ingólfi Guðnasyni og Albert Guðmundssyni. Síðan frv. var flutt hefur ýmislegt skýrst varðandi þessi mál, m. a. um upphæð þá sem hér er um að tefla, og hefur þótt rétt að taka það skýrt fram í 3. gr., en greinin orðast þannig samkv. brtt.:

„Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs skal veita ríkisábyrgð fyrir lánum að fjárhæð allt að 42 millj. kr. til þeirrar deildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, sem tekur til afurða síldar- og fiskimjölsverksmiðja, til þess að gera þessari deild sjóðsins kleift að standa undir greiðslum vegna verðbóta á loðnuafurðir af framleiðslu tímabilsins 1. okt. til 31. des. 1981.“

Það kemur skýrt fram í fundargerð Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins skilningur þeirra aðila sem stóðu að ákvörðun loðnuverðs, en þar kemur m. a. fram, með leyfi hæstv. forseta: „Það er skilningur sjóðsstjórnar, að endurgreiðslukvöð sjóðsins falli endanlega niður 1. des. 1983, eins og kveðið er á um í skuldabréfinu“ — þ. e. uppkasti sem gert hafði verið að skuldabréfinu. — „Þetta er forsenda ákvörðunar loðnuverðs og verðjöfnunar í okt. s. l.“ Þetta kemur fram í fundargerð dags. 1. des. 1981.

Hér er um það að ræða, að fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs skal veita ríkisábyrgð á þessu láni. Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins eða deild sem tekur til afurða síldar- og fiskimjölsverksmiðja er ábyrg fyrir greiðslu á þessu láni, enda verði markaðsverð með ákveðnum hætti eins og fram hefur komið. Ef deildin getur ekki staðið við þessa skuldbindingu liggur það fyrir, að ríkissjóður ber þar ábyrgð, en að sjálfsögðu mun fyrst þurfa að ganga að þessari deild. Hitt er svo annað mál, að að sjálfsögðu getur ríkisstjórn á hverjum tíma gripið til annarra aðgerða, svo sem tekjuöflunar í þessu skyni, til að standa undir þessari fjárhæð falli hún endanlega á ríkissjóð.

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka þetta fram varðandi þessa brtt., en þeir þm., sem flytja þessa till., telja nauðsynlegt að þessi breyting verði gerð á 3. gr.