17.12.1981
Neðri deild: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

145. mál, málefni fatlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. talsmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir góðar undirtektir við frv. þetta, þ. e. meginefnisatriði þess öll, og þá athygli sem kom fram á málinu í ræðum þeirra. Það, sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar gerðu aðallega aths. við, voru, eins og við mátti búast, fjármögnunarákvæði Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Um það hefur farið fram allnokkur umr. nú þegar og ég tel ekki ástæðu til að þreyta þingheim með því að bæta þar mjög verulegu við.

Það er auðvitað hægt að hugsa sér að ganga frá þessum málum með ýmsum hætti í lagatexta, en auðvitað getur Alþingi alltaf breytt lögum. Jafnvel þó að í textanum stæði t. d. „óskertar tekjur Erfðafjársjóðs“ gæti meiri hluti Alþingis hugsanlega ákveðið að breyta því hverju sinni við afgreiðslu lánsfjáráætlunar t. d. Ég vil minna á að markaðir tekjustofnar til félagslegrar þjónustu hafa átt mjög í vök að verjast. M. a. hefur það komið fram í tillögum nefndar sem fjallaði um þessi mál, m. a. þessa tvo sjóði, að sjóðirnir yrðu sameinaðir og mjög stórlega skertir jafnvel frá þeim tillögum sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram í fjárlagafrv. Það er þess vegna ljóst, að hv. Alþingi hefur verið þeirrar skoðunar, að markaðir tekjustofnar væru ekki af hinu góða. Þó hefur það verið þannig, að tekist hefur að halda mjög verulegum fjármunum — ég vil segja: mjög verulegum fjármunum — í þessi verkefni að undanförnu og það er vel, en það er nauðsynlegt að við áttum okkur á því, að um leið og við reisum stofnanir fyrir fatlaða, af hvaða tagi sem er, erum við líka að taka ákvörðun um að auka við rekstrarkostnað á slíkum stofnunum. Framkvæmd laganna um aðstoð við þroskahefta hefur t. d. verið mjög til umræðu hér. Sú fjármögnun, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. í sambandi við framkvæmd þeirra laga, eins og það liggur fyrir núna, er að mínu mati mjög knöpp og ég á von á nokkurri lagfæringu á því við 3. umr., en þessi staðreynd sýnir að það er nokkuð þungt að ná fram þeim stökkbreytingum sem við gjarnan viljum í málefnum fatlaðra hér á hv. Alþingi, einfaldlega vegna þess að við höfum auðvitað takmörkuðum fjármunum að skipta.

Ég ætla ekki að fara út í þessa fjármálaumræðu því að ég tel ekki að það sé við hæfi að ég sé að efna til langra umræðna þegar komið er undir nótt og hv. stjórnarandstæðingar hafa verið svo vinsamlegir að taka því vel að umr. yrði knöpp um þetta mál að sinni til þess að unnt væri að koma því til umsagnar fyrir hátíðarnar. En það er rétt, að það eru mörg viðbótarverkefni sem bíða. Á þessu ári er verið að vinna að 30 verkefnum á vegum Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra um allt land. Í langflestum tilvikum er hér um að ræða ný verkefni. Á næsta ári má gera ráð fyrir að varið verði úr þessum sjóði, Framkvæmdasjóði öryrkja og þroskaheftra, eitthvað 2829 millj. kr., ef ég man rétt, eins og þetta liggur fyrir núna, og síðan er gert ráð fyrir verulegum framlögum til samtaka fatlaðra í fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir nú, en engu að síður er ljóst að verkefnin munu kalla mjög á. Það, sem við þurfum að athuga mjög vandlega í þessu sambandi, er að framkvæmd og ákvarðanir um fjárfestingu haldist sem best í hendur og að við reynum að halda þannig á þessum málum, að framkvæmdirnar komi til nota jafnharðan og þær verða til.

Ég tel ekki að það sé við hæfi, eins og ég sagði, herra forseti, að fara yfir einstök atriði í aths. stjórnarandstæðinga við fjármögnunarákvæði frv. þessa, en það voru aðal aths. þeirra, og ég held að við verðum að eiga um það umr. á síðari stigum.

Varðandi aths. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að öðru leyti um frv. þetta var það fyrst aths. við 19. gr., þar sem þm. var þeirrar skoðunar að 19. gr. ætti að fjármagnast annars vegar af almannatryggingunum og hins vegar samkv. lögum um framhaldsskóla eða lögum um fullorðinsfræðslu. Ég get út af fyrir sig tekið undir að það gæti verið mjög eðlilegt, að þetta væri fjármagnað af þeim tilteknu lögum sem þm. nefndi, En ég vil leggja á það áherslu, að reynsla okkar í þessum efnum er satt að segja ekki alveg nógu góð. Við erum með í gildi reglugerð um öryrkjavinnu, sem er búin að vera í gildi um langt árabil. Samkv. henni hafa verið gerðir tveir vinnusamningar öryrkja, alls tveir. Mér finnst þetta sýna okkur það, að ef við ætlum að ná verulegu skrefi vegna fatlaðra hér í þessu landi geti verið réttlætanlegt um sinn að fjármagna og framkvæma verkið eftir sérlögum. Á þeim hugmyndum er þessi grein byggð eins og hún er núna. Ég tel hins vegar allar ábendingar í þessa veru þannig að rétt sé að skoða þær. Ég vil einnig taka alveg sérstaklega undir þá ábendingu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, 10. landsk. þm. að ákvæði greinarinnar, eins og þau eru núna, eru of opin. Það þarf að vera betur skilgreint í lögum, ef frv. þetta verður að lögum, hverjir það eru sem þessarar þjónustu geta notið og hver á að úrskurða um það.

Varðandi 10. gr. og aths. við hana, sem hv. þm. las upp, er hér augljóslega um villu að ræða í grg., sem þm. benti á, en ég vil minna á að næstu daga mun ég leggja fram á Alþingi frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar sem felur í sér samræmingu á þeim lögum við nýsett barnalög.

Í 34. gr. er talað um að 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins megi verja í ákveðnu skyni, m. a. til rekstrarkostnaðar. Þar er ekki bara talað um rekstrarkostnað, heldur er hér um að ræða allnákvæmt ákvæði því að hér segir:

„Heimilt er jafnframt að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins til annarra sameiginlegra verkefna varðandi sérkennslu og endurhæfingu svo og annarra verkefna, sem ríki eða sveitarfélagi ber sannanlega ekki að greiða“.

Hér er sem sagt verið að taka fyrir það, að fötluðum einstaklingum verði neitað um þjónustu samkv. þessum lögum ef kostnaðarþræta milli ríkis og sveitarfélaga er með þeim hætti að ekki fáist úr henni skorið tafarlaust. Fyrst og fremst er hér um það að ræða. Það má ekki koma til, að slík kostnaðarþræta milli ríkis og sveitarfélaga, sem einlægt er hér í gangi, verði til þess að tafir verði á þeirri þjónustu við fatlaðan einstakling sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Varðandi skilgreininguna á hugtakinu fatlaður mætti margt segja og ég vísa þar til nokkuð ítarlegra aths. með frv. Þetta er afar vandmeðfarið mál. Þetta hefur verið rætt mjög mikið í raun og veru allt árið 1981, á ýmsum vettvangi: sérfræðinga, áhugamannasamtaka og fleiri aðila. Ég hef ekki séð á þessu skilgreiningu sem er fullnægjandi eða fullkomin að mínu mati. Ég held að þarna verði alltaf matsatriði og markatilfelli. Að því er varðar aldraða hlýtur að vera ljóst, það vil ég taka fram, að þetta frv. getur ekki átt við aldraða almennt. Hins vegar getur það auðvitað átt við aldraða í undantekningartilvikum. Það getur átt við aldraða sem verða fyrir slysum og þurfa á endurhæfingu að halda. Þeir geta átt rétt á henni á endurhæfingarstofnunum, sem eru ætlaðar fötluðum, vegna tímabundinnar hreyfihömlunar t. d. En að frv. þýði t. d. að hjúkrunarheimili fyrir aldraða eigi að reisa samkv. þessu frv. hefur mér aldrei komið til hugar. Ef eitthvað fer á milli mála í þeim efnum ber að taka þar af tvímæli

Herra forseti. Ég endurtek þakkir mínar til forseta og talsmanna stjórnarandstöðunnar fyrir annars góðar undirtektir sem frv. þetta hefur fengið.