22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Heldur þótti mér lítilfjörleg viðleitni Geirs Hallgrímssonar áðan til að gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í hjöðnun verðbólgu. Ef ég man rétt setti Geir Hallgrímsson sér það markmið 1974, í þeirri ríkisstj. sem við hann var kennd, að koma verðbólgunni niður í 15%, en hún varð 50%. Staðreyndin er sú sem almennt mun viðurkennt að ríkisstj. mun nú takast að ná því markmiði, sem hún setti sér fyrir áramótin, að koma verðbólgunni niður í 40% á þessu ári. Þetta er ekki lítill árangur þegar þess er minnst, að verðbólgan á síðasta ári var um 60% og stefndi reyndar langtum hærra í lok ársins. Mikilvægast er þó e. t. v. að þetta hefur tekist án þess að stofna til atvinnuleysis og skerðing kaupmáttar er minni en orðið hefði með óheftri verðbólgu. Þetta hefur tekist án leiftursóknar, eða kannske réttara sagt vegna þess að leiftursókninni var hafnað.

Þetta er mikilvægur áfangi í niðurtalningu verðbólgunnar. Hins vegar kemur að sjálfsögðu ekki til greina að láta hér staðar numið. Stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir að verðbólga verði í lok ársins 1982 orðin svipuð og í nágrannalöndum okkar. Augljóst er að það mun ekki nást á þessu ári né næsta, enda hófst niðurtalning verðbólgunnar síðar en að var stefnt. Eins og fram kemur í þjóðhagsáætlun telur ríkisstj. að æskilegt markmið gæti verið svipuð hlutfallsleg lækkun verðbólgu á árinu 1982 og náðst hefur á þessu ári, eða um þriðjungslækkun.

Þá sýnist mér alls ekki vonlaust að verðbólgan geti í lok kjörtímabilsins orðið svipuð og í okkar helstu viðskiptalöndum, og að því mun verða stefnt. Slíkur árangur næst þó ekki nema með samstilltu átaki á fjölmörgum sviðum. Nauðsynlegt verður áframhaldandi aðhald í verðlagsmálum, peningamálum, gengismálum, ríkisfjármálum, fjárfestingar- og launamálum, svo að nokkrir veigamestu þættirnir séu nefndir. Hér mun ég aðeins gera fáein mikilvæg atriði að umræðuefni.

Ég hygg að flestum muni vera ljóst að gengisfellingar eru skammgóður vermir og líklega fátt meiri verðbólguvaldur. Með alla hluti verðtryggða eða gengistryggða veldur gengisfelling um það bil jafnmikilli verðbólgu og gengið breytist. Hins vegar er full atvinna eitt meginmarkmið ríkisstj. Til þess verður rekstrargrundvöllur atvinnuveganna að vera traustur. Áður en gripið er til gengisfellingar í því skyni að leiðrétta grundvöllinn er því nauðsynlegt að kanna allar leiðir til að draga úr rekstrarkostnaði. Við athugun kemur í ljós að enginn liður hefur hækkað eins mikið og fjármagnskostnaðurinn, en um það tel ég rétt að fara nokkrum orðum.

Á þessu ári hefur náðst sá mikilvægi áfangi að verðtryggja að fullu bæði innlán og útlán. Þessu hefur fylgt mjög mikil aukning á sparifjármyndun sem er að sjálfsögðu mjög mikilvæg. Það bætir verulega stöðu lánastofnana og getu þeirra til að sinna þörfum atvinnuvega og einstaklinga fyrir lánsfé. Einnig ætti það að gera kleift að fjármagna meira af framkvæmdum í landinu með innlendu lánsfé en verið hefur. Jafnframt vil ég leggja áherslu á að nauðsynlegt er að lánastofnanir fái styrkt eiginfjárstöðu sína og gjaldeyrisforði þjóðarinnar verði aukinn frá því sem áður var. Hins vegar tel ég vafasamt að afkoma lánastofnana þurfi að vera mikið umfram það sem í þessu felst, á sama tíma og útflutningsatvinnuvegunum er skorinn það þröngur stakkur að mikilvægustu greinarnar eru reknar með tapi. Þarna verður samræming að vera á milli, eins og á milli annarra þátta í verðbólguslagnum.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna að ég tel dráttarvexti bæði of háa og mjög misnotaða. Það er ákaflega arðsamt að hafa skuldir á dráttarvöxtum hjá fyrirtækjum sem allir vita að verða ekki látin fara á hausinn, eins og sagt er. Ég get ekki varist þeirri hugsun, að til þess leiks sé stundum stofnað af vilja hjá lánadrottnum. Ég tel jafnframt mjög eðlilegt að góð afkoma banka og lánastofnana sé notuð til þess að lækka fjármagnskostnað, t. d. afurðalánavexti útflutningsatvinnuveganna. Þannig yrði dregið nokkuð úr þörfinni fyrir gengisfellingu. Í þeim slag munar um hvert prósentustig.

Launamálin verða mjög til umræðu næstu vikurnar. Í þjóðhagsáætlun kemur fram að þjóðartekjur á hvern mann hafa ekki aukist að neinu ráði í ár og engri aukningu er spáð á árinu 1982. Þessa spá hef ég engan heyrt vefengja. Við þessar aðstæður fæ ég ekki séð svigrúm fyrir neinar umtalsverðar grunnkaupshækkanir. Slíkt hlýtur að leiða til meiri kostnaðar innanlands og gengisfellinga sem eyða óðar hverjum þeim ávinningi sem menn telja sig hafa af grunnkaupshækkunum. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd, að ýmsar umbætur þarf að gera á launakerfinu. Ljóst er að menn geta illa lifað af lægstu launum án mjög mikillar yfirvinnu. Á slíkum sviðum þarf að ná einhverjum leiðréttingum fram. Hins vegar hygg ég að vonlaust sé að losna við yfirvinnu á tveimur árum, eins og stundum er talað um. Það verður að gerast með framleiðniaukningu atvinnuveganna og gerist ekki nema á allmörgum árum. Það væri hins vegar verðugt markmið.

Við Íslendingar eigum einnig að leggja áfram áherslu á launajöfnuð. Ég get alls ekki tekið undir kröfu þeirra, sem í hærri launum eru, um grunnkaupshækkanir. Ég leyfi mér að halda því fram, að lífskjör mikils hluta Íslendinga séu góð. Það sýnir mikil neysla, t. d. kaup á dýrum hlutum eins og videotækjum, sólarlandaferðum og fjölmargt fleira. Til þess að góður áfangi náist einnig á næsta ári í niðurtalningu verðbólgunnar er nauðsynlegt að marka launamálastefnu sem samræmist þeirri hjöðnun verðbólgu sem menn setja sér. Ef menn vilja að sá áfangi verði umtalsverður fæ ég ekki séð að svigrúm sé fyrir almennar grunnkaupshækkanir, enda slíkt fals eitt. Hins vegar er eðlilegt að stefna að nokkurri aukningu kaupmáttar, t. d. með skattalækkunum, fyrst og fremst á lægri laun.

Einn er sá þátturinn í verðbólgumálum okkar sem ég tel nauðsynlegt að minnast á. Hann snýr að íslenskum sjómönnum og útflutningsatvinnuvegum. Við höfum komið á vísitölukerfi sem er ætlað að mæla nánast allt. Með því kerfi hækka laun langflestra þeirra, sem í landi starfa, sjálfkrafa ársfjórðungslega. Tekjur bænda eru einnig hækkaðar svipað. Þeirra launahækkun er sótt í hækkun á verði landbúnaðarafurða á innanlandsmarkaði. Í sjávarútvegi er þessu allt annan veg háttað. Laun sjómanna eru ekki vísitölutryggð og atvinnuveitendur þeirra, útgerðin, verða í gegnum fiskvinnsluna að sækja sínar tekjur á erlendan markað sem við höfum lítið sem ekkert vald yfir. Sjómenn hafa að vísu margir ágætar tekjur sem betur fer. Hins vegar er það staðreynd, að í mörgum tilfellum hafa þeir borið skarðan hlut frá borði í vísitölukapphlaupinu. Svo var t. d. í nýloknum samningum um síld- og loðnuveiðar og vinnslu. Útgerðarmenn og sjómenn fengu um 28–30% hækkun á milli ára á sama tíma og aðrir landsmenn hafa yfirleitt fengið um eða yfir 50% hækkun. Sjómenn tóku þannig á sig verulegan hluta af því verðfalli sem orðið hefur á þessum afurðum á erlendum mörkuðum — það gera útgerðarmenn og vinnslan reyndar líka — á sama tíma og þeir, sem bræða loðnuna eða leggja niður síldina, fá fulla launahækkun. Í þessum tilfellum er ekki heldur um aflaaukningu að ræða sem bætt gæti tekjutapið. Hvað halda menn að slíkt geti gengið lengi? Vitanlega ættu landsmenn allir að bera verðfall af afurðum okkar erlendis. Sumir virðast þvert á móti halda að vísitöluleikinn og verðbólguna megi stöðva þegar að sjávarútveginum kemur.

Að lokum vil ég fara nokkrum orðum um ástand og horfur í sjávarútvegi og samgöngumálum.

Þrátt fyrir allar hrakspár fyrri ára hygg ég að flestir séu nú sammála um að þorskstofninn sé alls ekki í hættu, reyndar úr allri hættu og í góðum vexti. Ég er a. m. k. ekki hræddur við u. þ. b. 450 þús. lesta afla eins og getur orðið nú í ár. Hins vegar tel ég óvarlegt að reikna með aukningu á næsta ári, m. a. vegna óvissu um afkomu seiðanna frá því í vor. Það sama má segja um flesta aðra fiskstofna. Þó er nauðsynlegt að loðnustofninn fái tækifæri til að vaxa verulega.

Á s. l. ári hreyfði ég ýmsum róttækum hugmyndum um gerbreytta fiskveiðistefnu. Ég fékk mér til ráðuneytis nefnd sem í sátu m. a. þrír fyrrv. sjútvrh. Niðurstaða varð sú, að ekki væri rétt að ráðast í svo róttækar breytingar, heldur byggja á stefnu undanfarinna ára með lagfæringum. Þessi varð einnig niðurstaða hagsmunaaðila þegar um málið var fjallað. Ég ákvað því að byggja á fyrri stefnu, enda hafði ég ætíð lýst yfir að ég mundi ekki ráðast í róttækar breytingar nema viðtæk samstaða næðist. Stefnan í þorskveiðum fyrir yfirstandandi ár var birt í des. á s. l. ári og hefur það aldrei verið gert svo tímanlega áður. Ýmsar mikilvægar lagfæringar voru gerðar á stjórn þorskveiða. Í framkvæmd hefur þó ekki reynst þörf á að breyta nánast einum einasta staf.

Ýmsar lagfæringar þarf þó enn að gera á stjórnun veiða. Ég tel t. d. að skrapdagakerfið þurfi að endurskoða og samræma veiðar og vinnslu betur en gert hefur verið, ekki síst með aukin gæði í huga. Slíkar hugmyndir eru í athugun í sjútvrn. og verða á næstunni ræddar við hagsmunaaðila. Afkoma vinnslunnar er mjög mismunandi. Skreiðar- og saltfiskverkun stendur allvel en frystingin illa, jafnvel svo að ekki verður lengur við það búið. Ég vil að vísu leggja á það áherslu, að gera verður þær kröfur til atvinnuvegarins að gætt sé ítrustu hagsýni. Í því sambandi vil ég enn nefna samræmingu á veiðum og vinnslu og hagkvæmustu samsetningu framleiðslunnar, en á hvoru tveggja hefur orðið misbrestur. Þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd, að grundvöllinn verður að lagfæra. Í því skyni eru athyglisverðar hugmyndir nú í athugun.

Um skipastólinn hefur mikið verið rætt og því miður ekki allt af mikilli skynsemi, sýnist mér. T. d. er furðulegt að hlusta á þá niðurstöðu sérfræðinga, að minnka þurfi fiskveiðiflotann um a. m. k. 'Is, jafnvel sigla honum út og sökkva honum, að því er mér skilst. Ég get fallist á að flotinn virðist fullstór þegar á heildina er litið. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. T. d. leyfi ég mér að efast um að sá afli, sem færður er að landi á vetrarvertíð hér sunnanlands, náist með minni flota. Þetta er breytilegt eftir árstímum og einnig eftir landshlutum. Það er jafnframt staðreynd að tímabært er að endurnýja stóran hluta af bátaflotanum. Um 110 bátar eru orðnir yfir 30 ára gamlir. Að sjálfsögðu ber að leggja áherslu á að þetta verði gert í innlendum skipasmíðastöðvum. Þá er hins vegar óhjákvæmilegt að verð fyrir skip smíðuð hér á landi sé ekki að ráði hærra en greiða þarf erlendis. Mikinn verðmun er ekki hægt að leggja á íslenska útgerð sem síðan þarf að keppa við niðurgreiddar fiskveiðar annarra þjóða.

Skipasmíðar innanlands eru iðnaðarvandamál og verður að leysa á þeim vettvangi. Í því skyni er nú unnið að áætlun um raðsmíði fiskiskipa með ýmiss konar fjárhagsfyrirgreiðslu, sem ég vil vona að geri íslenskum skipasmíðastöðvum kleift að keppa við erlenda smíði. Ég tel jafnframt skynsamlegt að halda flotanum innan þeirra marka sem stærð hans er nú, og mun ég leggja áherslu á það. Ég vil geta þess, að á vegum sjútvrn. og Landssambands ísl. útvegsmanna hefur í sumar verið gerð ítarleg tilraun með miðlun afla á milli vinnslustöðva og geri ég mér vonir um að það leiði til nokkurs árangurs.

Um samgöngumálin verð ég að vera stuttorður. Mér þykir þó ástæða til að vekja athygli á verulegri aukningu í framkvæmdum á sviði vegamála. Eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh. er það ekki síst þegar um bundið slitlag er að ræða. Þar var ekki lagt áður meira á einu ári en 40 km, en 150 km nú í ár, og mér sýnist ljóst að við náum því markmiði, sem við höfum sett okkur, að auka bundið slitlag úr 360 km fyrir tveimur árum í um 3000 að 10 árum liðnum. Þetta er mikil breyting og má segja að nálgist byltingu.

Á þessu ári verður varið um 2.1% þjóðartekna til vegamála, en að meðaltali undanfarin 10 ár hefur sú tala verið um 1.88%. Með samþykkt Alþingis s. l. vor um langtímaáætlanir í vegamálum er jafnframt gert ráð fyrir að auka þessa tölu upp í 2.4% þjóðartekna að lágmarki á ári. Þetta er töluvert hærri upphæð en áður hefur verið varið á einu ári til vegamála. Þessu ber að fagna. Vafalaust er fjárfesting í betri vegum ein sú arðsamasta sem við eigum kost á.

Á síðasta þingi var samþykki frv. sem ég flutti um að koma sjálfvirkum síma til allra landsmanna á næstu fimm árum. Framkvæmdir hófust þegar í sumar og mun verða lokið eins og ráðgert er samkv. áætlun sem nú liggur fyrir.

Í flugmálum geri ég mér fastlega vonir um að framkvæmdir verði auknar allverulega á næsta ári. Þörfin er gífurleg, ekki síst í öryggisþáttum flugsins sem ekki má draga.

Áframhaldandi aðstoð hins opinbera við Flugleiðir hefur verið mjög til umræðu undanfarnar vikur eins og var um sama leyti s. l. ár. Þróunin á Norður-Atlantshafinu hefur að mínu mati sýnt að sú ákvörðun var rétt, sem tekin var, að veita aðstoð til þess að halda mætti því flugi áfram. Með því var komið í veg fyrir, að nokkur hundruð manns misstu atvinnuna, og svigrúm skapað til að skoða betur framtíðarhorfur á þessari leið og aðlagast breyttum aðstæðum. Nú telja flestir allt benda til þess, að framtíð Norður-Atlantshafsflugsins sé nokkru bjartari en áður var talið. Erlendir sérfræðingar telja jafnframt að Flugleiðir geti að nýju haslað sér öruggan völl í því flugi, enda sé snúist við breyttum aðstæðum af þrótti með nýjum vélum og bættri þjónustu. Spurningin er hvort sá lífsneisti sé enn þá til hjá forráðamönnum félagsins sem nauðsynlegur er til þess að þetta megi takast. Þeirri spurningu læt ég ósvarað. Hins vegar verður því ekki neitað, að því miður hefur þjónustu Flugleiða hrakað mjög með gömlum og úreltum vélum, mistökum í bókun og fleira sem óþolandi er. Ég get ekki heldur neitað því, að mér þykir orkunni um of beint að því að knésetja þá aðila sem þeir telja sína keppinauta, og þeir eru orðnir margir í mjög og e. t. v. óeðlilega fjölþættri starfsemi félagsins. Þeirri orku þyrfti að beina að því að bæta eigin rekstur.

Í þessu sambandi er mjög um það fjallað, hvort stuðla eigi áfram að þeirri einokunaraðstöðu sem Flugleiðir hafa undanfarin ár haft á áætlunarflugi til og frá landinu. Umræðan minnir nokkuð á það þegar aðrir en Eimskip voru að leyfa sér að sigla með vörur og farþega. Ég er á móti einokun. Hæfileg samkeppni dregur fram atorku einstaklingsins. Það hefur einmitt gerst með aukinni samkeppni í fluginu erlendis en hefur farið fram hjá okkur, sérstaklega í millilandafluginu. Ég sé enga hættu fólgna í því fyrir Flugleiðir, að annað flugfélag fái að fljúga á afmarkað svæði. Þvert á móti er það von mín og trú, að slíkt hreinsi einokunarstimpilinn af félaginu og herði það til dáða.

Ég tel sjálfsagt að viðhald þeirra flugvéla, sem heimahöfn hafa hér á landi, sé innanlands. Um það má vitanlega setja skilyrði. Um slíkt og fjölmargt fleira, sem gæti roðið til hagsbóta fyrir flugfélögin og þjóðarbúið, verður að skapast samstarf. Það ætti að vera auðvelt, ef vilji er fyrir hendi, í stað þess að slást um hvert fótmál.

Meira framkvæmdafé þjóðarinnar hefur verið varið til orkumála en á nokkru öðru sviði. Þetta er eðlilegt og er í samræmi við stjórnarsáttmálann. Nú er að nást sá mikilvægi áfangi að koma heitu vatni til upphitunar á alla þá staði þar sem það er talið tæknilega unnt og hagkvæmt. Í raforkumálum eru verkefnin gífurleg fram undan. Þar eigum við miklar auðlindir sem nýta verður til þess að draga úr notkun innfluttrar orku og byggja upp margs konar iðnað sem eykur þjóðartekjurnar og gerir okkur kleift að mæta óskum launþega um hærri laun og betri afkomu.

Við framsóknarmenn leggjum á það mikla áherslu, að þjóðin verði orðin sjálfri sér nóg um framleiðslu á orku fyrir næstu aldamót, jafna orkureikninginn eins og talað er um. Til þess þarf stórhuga orkunýtingarstefna að liggja fyrir nú í vetur.

Góðir hlustendur. Ég hef stiklað á stóru. Mér hefur ekki unnist tími til að fjalla um landbúnaðarmálin og fleira sem mikilvægt er fyrir þessa þjóð. Reyndar hef ég fyrst og fremst fjallað um efnahagsmálin. Það er ekki að ástæðulausu. Ef ekki tekst að ráða niðurlögum verðbólgunnar óttast ég að mikið af því, sem vel hefur verið gert, reynist unnið fyrir gýg. Viðureignin við verðbólguna er því enn meginverkefnið. Þjóðin verður að sameinast um svipaðan áfanga í niðurtalningu verðbólgunnar á næsta ári og náðst hefur á þessu. Við verðum að samræma alla þætti efnahagsmála slíku markmiði. Vel má vera að við verðum að leggja ýmis áhuga- og jafnvel kappsmál til hliðar um sinn til þess að tryggja viðunandi árangur. Að þessu markmiði í efnahagsmálum munum við framsóknarmenn vinna og að þessu mun sú ríkisstj. vinna sem nú situr. — Góða nótt.