18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Frá dagskrám þingfunda er gengið daginn áður, eins og gert hefur verið nú, sem ljóst er af því, að sú dagskrá, sem við höfum hér fyrir framan okkur, er prentuð. Fjórða málið á dagskrá þessa fundar á að vera um tollskrá o. fl., 150. mál þessarar hv. deildar. Málið kom til umr. hér á fundi í gær. Eftir að þeirri umr. lauk var fundur í fjh.- og viðskn. boðaður kl. 9 í morgun þar sem átti að taka málið til umræðu og athugunar í hv. nefnd. Ég vil spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta, hvernig á því getur staðið, þegar menn vissu hvernig að málinu mundi verða starfað í nefndinni, að það skuli hafa verið sett á prentaða dagskrá þessa fundar sem væntanlega hefur verið útbúin í gær. Hvernig stendur á því að mál er sett á dagskrá sem vitað er að ekki verður fjallað um í nefnd fyrr en klukkutíma áður en fundur hefst? Er þetta gert með vitund hæstv. forseta eða hefur hann haft um þetta eitthvert samráð við formann viðkomandi nefndar?