18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

Umræður utan dagskrár

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Út af síðustu orðum hæstv. iðnrh. um að stjórnarandstaðan væri að sá frækornum til að spilla fyrir samstöðunni í stjórnarliðinu vil ég aðeins segja að hæstv. ráðh. er með sínum vinnubrögðum mesti hjálpari stjórnarandstöðunnar.

Þegar lögin um raforkuver voru sett á s. l. vori var í þeim gert ráð fyrir að unnið yrði áfram að orkuaukandi aðgerðum á Þjórsársvæðinu. Ein af þeim framkvæmdum var bygging Sultartangastíflu. Í þáltill., sem ríkisstj. hefur lagt fram, er einnig gert ráð fyrir að unnið sé að þessum framkvæmdum. Í lögunum frá í vor var gert ráð fyrir að Landsvirkjun gæti ráðist í þessar framkvæmdir með samþykki ríkisstj. — og það undirstrika ég: samþykki ríkisstj. Þessar hugmyndir um frestun framkvæmda virðast því stangast á við allar hugmyndir sem menn hafa gert sé um þessi mál.

Mér er spurn: Til hvers er hæstv. ráðh. að skrifa þetta bréf sem fréttist af hér á Alþingi í gær og nú er hér til umr.? Veit hann ekki um lögin sem samþykkt voru s. l. vor? Veit hann ekki um till. sem hann lagði fram á Alþingi um daginn? Veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir? Kappið við að drepa allt í dróma í orkumálunum virðist svo mikið hjá hæstv. ráðh. að hann sést ekki fyrir og fer langt út fyrir takmörk sín. Hefur ráðh. borið það bréf, sem hann skrifaði í gær, undir ríkisstj. og fengið samþykki fyrir því — eða er þetta einkaframtak hans? Það er nauðsynlegt að fá svar við þeirri spurningu og ég leyfi mér að óska svara hæstv. forsrh. við henni.

Hæstv. iðnrh. fékk mikla eldmessu yfir sig nýlega hér á Alþingi frá flokksbróður sínum, m. a. varðandi málefni Suðurlands. Hann virðist samt ekki læra neitt, heldur vegur áfram í sama knérunn. Það væri vissulega hægt að gera talsvert bál ef allar möppur hæstv. iðnrh. væru bornar saman í eina hrúgu og tendrað bál. Gífurleg orka myndi leysast úr læðingi í bili. En hætt er við að sú orka fjaraði út. Það fer víst ekki lengur fram hjá neinum, að nauðsynlegasta úrbót í orkumálunum sé að gefa hæstv. iðnrh. frí frá störfum.