18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. iðnrh. getur vafið öllum málum um höfuð sér sem hann kemur nálægt. Landsvirkjun ritaði hæstv. iðnrh. bréf 20. okt. s. l. Var það nánast árétting á öllu því sem menn hafa talið sjálfsagt og eðlilegt, að Sultartangastífla yrði byggð og hafnar yrðu framkvæmdir við hana á næsta vori. Í samræmi við áætlanir Landsvirkjunar var útboð síðan auglýst í síðustu viku. En það er fyrst 16. des., rúmum tveimur mánuðum eftir að Landsvirkjun sendi bréf sitt, að hæstv. iðnrh. sendi Landsvirkjun svar sem er í algerum véfréttarstíl og enginn fær lesið út úr hvaða hugur liggur að baki.

Sannleikurinn er sá, að bréf ráðh., sem hann las upp hér áðan, er með röngum áherslum. Það eru rangar áherslur lagðar á tilvitnanir í greinargerð Landsvirkjunar þegar hann vitnar í þá greinargerð í sínu bréfi. Megináhersla og meginástæða Landsvirkjunar fyrir því að vilja hefja byggingu Sultartangastíflu á næsta ári er sú, að með því er tryggt öryggi við Búrfell og tryggt að ekki komi til rekstrartruflana vegna ísvandamála. Þetta vita allir sem vilja vita. Ég skal ekki vegna tímaskorts lesa upp þær megináherslur sem Landsvirkjun hefur lagt á þetta í greinargerð sinni, en þó væri full ástæða til þess eftir að hæstv. iðnrh. hefur sent Landsvirkjun sitt bréf.

Ráðh. segir að það sé hvergi látið að því liggja, að til frestunar komi á næsta ári, og að engin tillaga sé gerð um breytingu á lánsfjáráætlun. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. og ég vona, að hún standist, og ég vona, að hæstv. iðnrh. gefi þá yfirlýsingu með góðri samvisku. En ég fullyrði að þetta bréf hefði ekki verið ritað á þann hátt sem það var ritað, með þeim texta sem hæstv. ráðh. las upp, ef ekki hefði eitthvað undir búið af hálfu hæstv. ráðh. Þetta bréf er furðulegt og það vekur tortryggni og það gefur vissulega tilefni til umræðna.

Ég þakka hv. 2. þm. Suðurl. fyrir að hann skuli hafa tekið mál þetta hér upp og vakið athygli á því.