18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, Sigurður Óskarsson, gat þess, að hann byggði fsp. sína fyrst og fremst á frétt í Morgunblaðinu í morgun. Þetta sýnir m. a. hversu menn mega vara sig á því að byggja mál, sem þeir flytja inn á þing, á óábyrgum fréttaflutningi. Í fyrirsögn þessarar fréttar í Morgunblaðinu í morgun á útsíðu segir feitu letri: „Framkvæmdaleyfi ekki veitt.“ Þessi fyrirsögn er blekking. Hv. þm. túlkaði það þannig, skildi það þannig að synjað væri um framkvæmdaleyfi.

Það er augljóst mál, að út frá því hefur verið gengið, að framkvæmdir við Sultartangastíflu og aðrar framkvæmdir við vatnsveitur á Þjórsársvæðinu ættu að hefjast næsta vor eða eins og segir í bréfi Landsvirkjunar frá 23. okt., að „það sé haft fyrir augum að hefja framkvæmdir við Sultartangastíflu af fullum krafti vorið 1982, þannig að hún verði fullgerð ekki síðar en 1983.

Í till. þeirri, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþingi um virkjanir, eru þessar framkvæmdir á Þjórsársvæðinu fyrsti liðurinn, orkuöflunarframkvæmdir á Þjórsár- og Tungnársvæðinu, sem auki núverandi afkastagetu allt að 750 gwst. á ári. Eins og hæstv. iðnrh. tók fram er í öllum fjárhagsáætlunum Landsvirkjunar og að sjálfsögðu þeim, sem við höfum hér til meðferðar á Alþingi, gengið út frá þessu. Iðnrn. hefur óskað eftir vissum upplýsingum frá Landsvirkjun. Þær ættu að geta legið fyrir innan nokkurra daga. Ég vil aðeins undirstrika að það er engin breyting á þeim fyrirætlunum og ákvörðunum sem áður hafa verið teknar, að strax á næsta vori hefjist þessar framkvæmdir á Þjórsársvæðinu.