18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga sem nú hefur hlotið afgreiðslu frá hv. Ed. og kemur hér til l. umr. Lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 var lögð fram í nóvembermánuði s. l. Í tengslum við hana var síðan lagt fram frv. til lánsfjárlaga þar sem leitað er heimildar Alþingis til þeirrar lántöku sem óhjákvæmileg er vegna A- og B- hluta fjárlaga, vegna fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og vegna lántöku sveitarfélaga og lántöku lánastofnana sem ríkið hefur milligöngu um.

Það má ræða um lánsfjáráætlun í víðari og þrengri merkingu. Segja má að lánsfjáráætlun í þrengri merkingu sé áætlun ríkisins og ríkisstofnana ásamt áformum sveitarfélaga og opinberra lánastofnana um lántökur. Lánsfjáráætlun í víðari merkingu er síðan áætlun um allar aðrar lántökur í þjóðfélaginu sem hugsanlega leiða til erlendrar lántöku. Hið fyrra er ákvörðun um lántökur einkaaðila.

Í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir erlendum lántökum vegna opinberra aðila og vegna einkaaðila. Eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. í hv. Ed., nema erlendar lántökur samtals 2235 millj. kr. Til samanburðar er rétt að nefna lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 þar sem um var að ræða lántökur að upphæð 1735 millj. Hækkunin er 500 millj. kr. frá lánsfjáráætlun seinasta árs og er það 29% hækkun milli ára. Til samanburðar er rétt að hafa það í huga, að lánsfjáráætlun er miðuð við 33% verðlagshækkun milli áranna 1981 og 1982. Er því ljóst að magn erlendrar lántöku á árinu 1982 er minna en nemur verðlagshækkun milli ára sem nemur nokkrum prósentustigum.

Í umr. um lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 og í grg. frv. til lánsfjárlaga og í heimildarákvæðum þess frv. er nokkuð vikið að framkvæmd lánsfjárlaga fyrir árið 1981. Þar kemur fram að áætlað er að lántökur vegna lánsfjáráætlunar fyrir árið 1981 nemi 166 millj. umfram niðurstöðutölur lánsfjáráætlunar fyrir það ár. Þó er rétt að benda á að þessi tala er kannske dálítið villandi vegna þess að í lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 var full heimild til að „konvertera“ lánum vegna Kröfluvirkjunar að upphæð 33 millj. og einnig full heimild til að „konvertera“ lánum Orkusjóðs vegna byggðalína upp á tæpar 36 millj. Ljóst er því að til þess að átta sig á hvað við hefur bæst á árinu 1981 umfram raunverulega lánsfjáráætlun verður fyrst að draga frá þessar „konverteringar“, sem fullar heimildir voru fyrir í lánsfjárlögum seinasta árs. Þær nema þá samtals um 69 millj. svo að raunveruleg viðbót við lánsfjáráætlun 1981 er um 97 millj. Rétt er að taka það fram, að með samþykkt lánsfjárlaga er aflað heimilda til þeirrar lántöku sem ekki er skýr heimild fyrir í öðrum lögum.

Ríkisstj. hafði fulla heimild til mjög margrar lántöku sem átt hefur sér stað á árinu 1981, eins og t. d. láns til Járnblendifélagsins, sem nam 16 millj., og lána vegna stofnkostnaðar virkjana, sem námu 37.4 millj., en heimild til þeirrar lántöku var í virkjunarlögum sem samþykkt voru á s. l. vori hér á hv. Alþingi. Það, sem ekkí er heimild fyrir, er sett inn í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1982 og leitað heimildar Alþingis fyrir þeirri lántöku. Meðan Alþingi hefur ekki samþykkt þær heimildir er um að ræða bráðabirgðafyrirgreiðslu frá Seðlabankanum. Sú fyrirgreiðsla verður ekki formlega frá gengin með langtímaláni nema Alþingi veiti formlega heimild til þess, annaðhvort í lánsfjárlögum eða í fjárlögum. Nú er mjög tvísýnt um hvort tekst að afgreiða lánsfjárlög fyrir jólaleyfi. Þótt það hafi verið ásetningur ríkisstj. og fullur vilji, þá er óljóst hvort það tekst. Ég tel að rétt væri, ef menn sæju fram á að lánsfjárlög næðu ekki afgreiðslu fyrir jól, að veitt væri þá heimild í 6. gr. fjárlaga til að ganga frá þeim lánum sem ófrágengin eru í Seðlabanka, vegna þess að formlega heimild hefur vantað til þess og varðar lánsfjárlög fyrir árið 1981.

Eins og kom fram í umr. um málið í Ed. vantar töluvert mikið upp á að aflað hafi verið þess lánsfjár frá innlendum lífeyrissjóðum sem áformað var. Afleiðing þessa hefur orðið sú, að orðið hefur að skera áform lánsfjáráætlunar fyrir árið 1981 nokkuð niður. Gildir það þá einkum um lánsfjáröflun til Framkvæmdasjóðs og þar með til stofnlánasjóðanna, en þar var fjárvöntun upp á rúmar 60 millj. kr. Var hún leyst vegna þessarar fjárvöntunar frá lífeyrissjóðunum á þann veg, að 25 millj. voru teknar að láni erlendis í samræmi við þær heimildir sem Framkvæmdasjóður hefur, en afgangurinn kemur fram sem niðurskurður á fjármagnsútvegun til stofnlánasjóða í fullu samræmi við ákvörðun stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins og með samþykki ríkisstj.

Við undirbúning lánsfjáráætlunar og meðferð málsins á Alþingi hefur mjög ítarlega verið fjallað um lánsfjármögnun frá lífeyrissjóðum og er auðvitað tilefnið það, hversu illa hefur til tekist á þessu ári að afla þess fjár sem lánsfjáráætlun gerði ráð fyrir. Uppi voru áform um að hækka lögbundin skuldabréfakaup lífeyrissjóða úr 40 í 45% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna og auk þess að herða þau ákvæði laga verulega sem lúta að kaupskyldu sjóðanna. Þessi áform mættu hins vegar verulegri andspyrnu af hálfu lífeyrissjóða, og þar sem ríkisstj. lítur svo á, að það sé afar þýðingarmikið að gott samkomulag sé áframhaldandi við forustumenn lífeyrissjóða og ekki komi til alvarlegra árekstra þar í milli, og þar sem segja má að mjög merkileg þróun hafi átt sér stað á undanförnum árum í þá átt, að lífeyrissjóðir taki vaxandi þátt í lánsfjármögnun sameiginlegra þarfa landsmanna gegnum lánsfjáráætlun, þá varð að ráði að falla frá þessum áformun og breyta þeim ákvæðum sem upphaflega höfðu verið á dagskrá. Þó er rétt að vekja athygli á því, að 29. gr. lánsfjárlaganna hefur tekið verulegum breytingum við meðferð málsins í Ed. Þar er komið nýtt ákvæði, sem snýr að lífeyrissjóðunum, sem er allmiklu ákveðnara og ítarlegra en verið hefur fram að þessu varðandi kaupskyldu þeirra. Það er að vísu enn miðað við 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða. En það eru miklu ítarlegri fyrirmæli um það, hvernig leita skuli eftir samkomulagi við lífeyrissjóði og hvernig reynt skuli að áætla sem best ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna, og einnig eru heimildir til þess að bjóða eða ákveða ívilnun í kjörum þeirra skuldabréfa sem keypt eru á tilskildum tíma. Þetta á að vera hvati til forustumanna lífeyrissjóða að gera kaup á skuldabréfum snemma á árinu og að standa við þær áætlanir sem gerðar eru. Fleiri ákvæði eru í þessari grein sem nýmæli geta talist, og vísa ég í þskj. 242, þar sem gerð er grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á 29. gr. lánsfjárlaganna.

Það er rétt að vekja athygli á því, að ýmsar fleiri mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á lánsfjárlögum í meðferð málsins í Ed. Upphæðir hafa hækkað og er meginástæðan sú, að ekki er gert ráð fyrir jafnmiklu lánsfé frá lífeyrissjóðum og áður var reiknað með, og hlýtur það að hafa áhrif til hækkunar á erlendum lántökum. Auk þess er gert ráð fyrir að aflað verði láns, sem ég vænti að verði innlent lán, til að standa straum af lánum Byggðasjóðs til fyrirtækja á sviðum útgerðar og fiskvinnslu og hugsanlega iðnaðar vegna rekstrarerfiðleika. Það mál hefur verið rætt töluvert hér á Alþingi og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það.

Eins er rétt að vekja athygli á því, að við meðferð málsins í Ed. var fellt út ákvæði lánsfjárlaga um skerðingu á framlögum ríkissjóðs til Félagsheimilasjóðs, en það ákvæði er nýmæli í lánsfjárlögum. Félagsheimilasjóður hefur ekki verið skertur undanfarin ár, enda er hann dálítið sérstaks eðlis, og það varð að samkomulagi í Ed. að fella niður þetta skerðingarákvæði, sem mun vera 22. gr. upphaflega frv.

Eins vil ég vekja athygli á ákvæði, sem nú er 13. gr. lánsfjárlaga, þar sem segir að framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs á árinu 1982 megi renna til Stofnfjársjóðs fiskiskipa. Tillaga þessa efnis var borin fram í Ed. af hæstv. sjútvrh. og mér og var samþykkt.

Herra forseti. Ég sé ekki að öðru leyti ástæðu til að fjölyrða um þetta frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.