18.12.1981
Neðri deild: 29. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

150. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. fékk til meðferðar seint í gærkvöld 150. mál þessarar deildar. Kom nefndin saman til fundar snemma í morgun til að freista þess að afgreiða málið frá sér. Ég vil taka það fram, að að sjálfsögðu er hér um allt of skamman tíma að ræða, og ég vil þakka sérstaklega nm. hvað þeir tóku vel í það að taka þátt í því að nefndin freistaði þess að ljúka málinu.

Nefndin telur að hér sé um alvarlegt mál að ræða sem stefni nokkuð í hættu þeim iðnaði sem hér hefur risið upp til framleiðslu á húseiningum, en hins vegar séu vissir annmarkar á máli þessu. Það var t. d. lagt til í 4. mgr. frv., að ráðh. skuli heimilt að leggja jöfnunarálag á aðra innflutta vöruflokka til þess að vega upp á móti uppsöfnuðum aðflutningsgjöldum. Það er nauðsynlegt að þetta atriði falli ekki niður. Það liggur fyrir að það geta verið ýmsir aðrir vöruflokkar sem þyrfti að vera hægt að meðhöndla með sama hætti. Að vísu eru ýmsar aðrar heimildir sem kunna að vera nægilegar í þeim efnum. En þetta og ýmislegt annað þarfnast nánari athugunar. Þess vegna taldi nefndin að ekki væri rétt að lög þessi giltu lengur en til ársloka 1982. Vill hún með því ítreka að áfram verði unnið að málinu og það lagt að nýju fyrir Alþingi.

Á fund okkar í morgun komu ráðuneytisstjórar fjmrn. og viðskrn., fulltrúar frá Landssambandi iðnaðarmanna, formaður þess og framkvæmdastjóri. Nefndin hafði einnig boðað til fundar við sig fulltrúa frá Verslunarráði Íslands. Þeir gátu því miður ekki komið, en hafa komið á framfæri við hv. alþm. ábendingum varðandi mál þetta þar sem þeir fara þess á leit við Alþingi, að afgreiðslu málsins verði frestað. Það komu ýmsar gagnlegar ábendingar fram hjá Verslunarráði Íslands og sjálfsagt að taka þær til athugunar. En með tilliti til þess, sem ég hef áður rakið, hvernig málum er komið, vildi nefndin ekki bera ábyrgð á að málið gæti ekki náð fram að ganga fyrir jól, en leggur á það mikla áherslu, að málið verði endurskoðað í ljósi þess sem fram hefur komið bæði hér í umr. á Alþingi og í ýmsum athugasemdum sem borist hafa. Ég veit að margir hv. þm. eru þessarar skoðunar, þó að ég vænti þess, að þeir og jafnvel ráðherrar sjái sér fært að spara umræður um málið eins og nokkur kostur er, til þess að það megi ná fram að ganga.

Nefndin leggur til að frv. verði samþ.