18.12.1981
Efri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

101. mál, Stofnlánadeild samvinnufélaga

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mér er það sérstök ánægja að mæla fyrir nál. hv. fjh.- og viðskn. sem einróma leggur til að mál þetta verði samþykkt.

Þetta er smávægilegt hagsmunamál fyrir samvinnuhreyfinguna, en vissulega er ástæða til að huga að því, að sú merka hreyfing á í skipulagslegum erfiðleikum og fjárhagslegum eins og flest fyrirtæki á Íslandi meira og minna. Ég hef um alllangt skeið, eins og menn kannske vita sumir hverjir, raunar á þriðja áratug, reynt að berjast fyrir því að endurskipulagning yrði í íslenskum atvinnufyrirtækjum og að endurlífgaður yrði sá áhugi sem var á félagarekstri hér snemma á öldinni þegar ný hlutafélagalög og samvinnufélög voru sett. Á grundvelli þeirra laga hefur atvinnulíf Íslendinga verið meira og minna upp byggt, hvort heldur var í hlutafélagaformi, hreinum einkarekstri eða samvinnurekstri.

Fyrir rúmlega tveim árum voru samþykkt ný lög um hlutafélög, hin merkustu lög. Í framhaldi af því flutti ég þáltill. um endurskoðun á samvinnufélagalögum sem samþykkt var af Alþingi, og nú fer einmitt fram endurskoðun þeirrar löggjafar. Í eðli sínu eru samvinnufélög og almenningshlutafélög mjög skyld og eiga að geta starfað hlið við hlið að uppbyggingu íslenskra atvinnuvega og í þeim tilgangi að bæta lífskjör þjóðarinnar. Það þarf nauðsynlega að samræma löggjöf í þessu efni og vekja tiltrú manna á félagarétti, á dreifingu þjóðarauðs og áhrifa yfir fjármagni þannig að sem allra flestir geti orðið þátttakendur í atvinnurekstri. Þetta tel ég að eigi að gera bæði með aukningu og eflingu samvinnufélaga og sérstökum skipulagsbreytingum í þeim félagsskap og eins með því að efla og stofna almenningshlutafélög sem helst allir landsmenn gætu orðið aðilar að.

Mér er það sérstaklega minnistætt, að á merkri ráðstefnu, sem haldin var um félagarétt í Bifröst fyrir um áratug eða svo, var sérstaklega rætt um skipulag samvinnuhreyfingarinnar annars vegar og almenningshlutafélaga hins vegar. Mér fannst að við tveir, sem fluttum þar erindi og tókum þátt í umr., ég og forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, værum meira og minna sammála um hvernig byggja mætti upp hlið við hlið þessi tvö félagaform þannig að þau gætu starfað í samkeppni og á jafnréttisgrundvelli. Þetta er áreiðanlega eitt af meginviðfangsefnum okkar Íslendinga á næstu misserum og árum þegar rétta þarf við atvinnulíf þjóðarinnar sem nú er verið að keyra á kaf, eins og alkunna er og jafnvel stjórnarsinnar eru að gera sér grein fyrir, einkum og sér í lagi, hygg ég, framsóknarmenn. Síðustu tvo mánuðina hafa þeir sagt að þeir væru að sjá málin í öðru ljósi. Það verður því sameiginlegt átak íslensku þjóðarinnar að rétta við atvinnulífið og það á að gerast í mismunandi félagsformum sem starfa á jafnréttisgrundvelli. Vonandi verða skipulagsmál Sambandsins ekki einungis rædd, eins og mikið er gert að nú, í röðum samvinnumanna, heldur og annarra, því að samvinnumenn erum við kannske öll að vissu marki. Út úr þeirri viðræðu verður vonandi aðhafst í málunum og skipulaginu breytt og félögin efld til nýrra átaka.

Þetta mál er sem sagt aðeins eitt lítið mál, sem er í þágu samvinnurekstrarins og samvinnufélaganna, en stóru skrefin eru eftir og við skulum vona að þau verði tekin.