22.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Margt hefur verið betur gert í tíð núv. ríkisstj. en oft áður. Vil ég þar minna á umtalsverðar breytingar á félagsmála- og heilbrigðislöggjöf. Sem dæmi þar um má nefna lög um fæðingarorlof, lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lög um aukinn rétt sjómanna til ellilífeyris, lög um Framkvæmdasjóð aldraðra, breytingar á lögum um örorkustyrk, lög um atvinnuleysistryggingar, fjölmargar umbætur á afgreiðslu öryrkjabifreiða og aðbúnaði fatlaðs fólks, en öll þessi mál náðu fram að ganga á síðasta þingi. Verið er að vinna að leiðréttingu á álagningu á öryrkjabifreiðar sem innflutningsgjöld hafa verið felld af, en þetta benti ég m. a. á í þingræðu s. l. vetur. Framlög til dagvistarmála hafa verið aukin, og unnið er að fjölmörgum mikilsverðum málum í þessum málaflokkum. Alþb. hefur ævinlega haft forustu í þessum málum og svo er einnig nú.

Í tíð núv. fjmrh. hefur tekist að halda jafnvægi í rekstri ríkissjóðs og útlit er fyrir góða afkomu hans á þessu ári. Fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun liggja nú þegar hér á borðum hv. þm. í fyrsta skipti samtímis, og eru slík vinnubrögð vissulega til fyrirmyndar. Í iðnaðar- og orkumálum hefur verið mörkuð meginstefna, en mikilvægt er að þar sé ekki rasað um ráð fram. Mikil orka er óbeisluð, en það er vandasamt að nýta þessa orku á þann hátt sem verða má landsmönnum til sem mestrar farsældar. Ágangur erlendra auðhringa alls staðar þar sem orku er að finna í orkuhungruðum heimi er hætta sem Íslendingar þurfa sífellt að hafa í huga, og uppljóstranir iðnrn. um samningsrof og svik Alusuisse ættu að verða mönnum þörf lexía. Það yrði Íslendingum til lítils sóma ef þeir stæðu ekki sem einn maður gegn erlendum auðhring sem á blygðunarlausan hátt hefur orðið ber að því að ganga á rétt okkar Íslendinga með svikum og fölsunum í trausti þess að smáþjóð sem við sæi ekki við flóknu bókhaldi heimskapítalismans.

Fram undan eru kjarasamningar sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af. Það er létt verk að reikna út að kaupmáttur ráðstöfunartekna á þessu ári hafi verið hærri en nokkru sinni fyrr. Sannleikurinn er sá, að gífurlegt launamisrétti viðgengst í landinu. Fjöldi manna og þá ekki síst kvenna hefur laun sem eru langt undir þessari meðaltalstölu. Það eru hinir hálaunuðu sem hækka þessa tölu. Upplestur hv. þm. Kjartans Jóhannssonar áðan úr Nýju landi er auðvitað sannleikanum samkvæmur. Allt of stór hópur launþega hefur laun sem nægja ekki fyrir brýnustu nauðþurftum, og þar við bætist að raunvextir á lánum til húsnæðiskaupa koma hart niður á þessu fólki nú. Þúsundir láglaunakvenna hafa engin tök á að auka tekjur sínar með eftir- og næturvinnu vegna heimilisstarfa, og í þjónustu hins opinbera vinna konur hin raunverulegu störf fyrir smánarlaun, en karlmennirnir hirða háu launin. Það er fyrir löngu kominn tími til að gera könnun á launaröðun hjá ríkisstofnunum. Hæstv. forsrh. sagði áðan að nú legði almenningur glaður fé sitt í banka landsins í öruggri vissu um ávöxtun. En þessi almenningur hefur ekkert fé til að ávaxta, það gera einhverjir aðrir. Hér hafa að undanförnu orðið háværar umræður um innri gerð verkalýðshreyfingarinnar sem hv. þm. Vilmundur Gylfason vill skipa með lagaboði. Ekkert væri fráleitara en að hefta frelsi verkalýðsfélaganna til að stjórna málum sínum sjálf. En þessar umr. gefa okkur þm. tækifæri til þess að beina máli okkar til þeirra héðan úr þingsölum.

Skoðun mín er sú, að ekki verði hjá því komist að taka upp nýja launastefnu í komandi kjarasamningum. Það er fyrir löngu orðið óþolandi, að í hvert skipti, sem lægst launaða fólkið í landinu fær launahækkun, verði allir aðrir að fylgja á eftir og fá þessa launahækkun margfalda. Það er ekki heldur sæmandi að gera beinlínis ráð fyrir eftir- og næturvinnu, bónuskerfum og uppmælingu til þess að fólk geti lifað af launum sínum. Menn eiga að geta lifað af 40 stunda vinnuviku. Verkalýðshreyfingin verður að fara að horfast í augu við það heldur fyrr en síðar, að þessi launakerfi eru ódráttur í hennar eigin landhelgi og hamla gegn allri skynsamlegri umræðu um launamál í landinu. Svo gegnsýrt er launafólk orðið sjálft af sjálfgefinni vinnuþrælkun að framkvæmd laga um lágmarkshvíldartíma er mótmælt. Víst vildu menn lögin, en ekki hvíldina. Heldur vildu þeir fá hvíldartímann greiddan. Vegna yfirborgana af öllu tagi treystir enginn raunverulegum launatöxtum. Laun hinna láglaunuðu þurfa að hækka miklu meira en þeirra sem hærri laun hafa. En auðvitað erum við órafjarri því að tala hér í alvöru um að þjóðararðurinn skiptist raunverulega réttlátlega. Við lifum í kapítalísku þjóðfélagi, þetta er kapítalísk ríkisstj. vitaskuld. En Alþb. er sósíalískur flokkur og leggur áherslu á samneyslu á gæðum landsins. Leiðrétting launa hinna verst settu nú er líka samneysla.

Hæstv. forsrh. gat um lækkandi verðbólgu, raunar undir kaflanum um verðlag. Hann gat þess hins vegar ekki, að þrátt fyrir verðstöðvun á mörgum sviðum fer verðlag sífellt hækkandi. Augljóst er að gjaldmiðilsbreytingin hefur haft umtalsverð áhrif til hækkunar verðlags, einkum á smávörum, eins og réttilega kom fram í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Sem lítið dæmi má upplýsa hv. þm. um að karamellustykki, ekki veit ég hvort þeir nota þá vöru, — sem kostaði 20 kr. í fyrra kostar nú 1 kr. eða 100 kr. gamlar. Eldspýtnabúnt, sem í fyrra kostaði 600 kr., kostar nú 11 kr. eða gamlar 1100. Þannig mætti lengi telja og væri sannarlega ástæða fyrir verðlagsyfirvöld að lita nánar á verðlag smávöru af öllu tagi.

Þrátt fyrir allt þetta er ég fullviss um að ríkisstj. hefur stigið skref í áttina að stöðugra efnahagskerfi. Engin von er til þess að taumlaus einkaneysla og óhóf forréttindahópa allt frá stríðslokum verði leiðrétt á skömmum tíma, slíkt væri barnaskapur. En þessi litla þjóð verður að horfast í augu við að án átaks við lækkun verðbólgu, minni einkaneyslu og meiri samneyslu er framtíð hennar í voða. Og ég trúi því ekki, að Íslendingar séu orðnir svo heillum horfnir að þeir meti ekki meira að lifa í þjóðfélagi, þar sem allir hafa möguleika á mannsæmandi tilveru, heldur en að raka hver frá öðrum svo að hinir ríku verði ríkari og hinir fátæku fátækari. Við höfum dæmin fyrir okkur í samskiptum hinna efnuðu þjóða og hinna fátæku, í samskiptum okkar við umheiminn. Íslendingar framleiða þá vöru sem dýrmætust er. í heiminum í dag, sem er fæða handa hungruðum heimi. Eti einungis hinir ríku geta keypt þessa fæðu.

Hinir svelta áfram. Þetta er sorgleg staðreynd sem enginn hugsandi maður getur látið fram h já sér fara. Íslenskt verkafólk framleiðir fyrsta flokks matvöru sem við verðum að þröngva upp á hinar ríku þjóðir eftir þeirra markaðsleiðum, oft með mútum undir borðið.

Samneysla er ekki bara orð, heldur meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr, jafnt innan þjóða sem þjóða í millum. Það er einmitt skortur á þessari samneyslu og jöfnuði meðal manna og þjóða sem hefur rekið heimsbyggðina út í þá örvæntingu sem vitfirringslegt vígbúnaðarkapphlaup stóveldanna er.

Forsrh. gerði utanríkismálum lítil skil í ræðu sinni. Hv. þm. Geir Hallgrímsson nefndi þau „feimnismál“ þingsins. Fyrir mér eru þau ekkert feimnismál. Ein meginástæðan fyrir því, að Alþb. tekur á sig þá ábyrgð að sitja í núv. ríkisstj. og öðrum áður, er einmitt það vald sem sú þátttaka veitir okkur yfir alrangri stefnu í utanríkismálum. Við höfum getað hindrað stórfellda eflingu herstöðva NATO á Íslandi þó að við höfum ekki vald til að koma herstöðinni burt. Það er hv. alþm. stjórnarandstöðunnar til lítils sóma að stunda markvisst útúrsnúninga þegar herstöðvarmálin eru rædd. Flugstöðvarmálið og olíugeymarnir í Helguvík eru nærtækt dæmi.

Vitanlega hefur Alþb. ekkert á móti því, að flugstöðin í Keflavík sé endurbætt, hún er raunar til háborinnar skammar. En við erum ekki tilbúin að byggja í kjallaranum geymslu fyrir sprengjuflugvélar með kjarnaoddi eða aðra aðstöðu fyrir drápsmaskínur erlendra stórvelda. Okkur hefur tekist að hindra þetta hingað til. Með stjórnarþátttöku okkar hefur okkur tekist í fyrsta sinn að fá að sjá framkvæmdaáætlanir Bandaríkjamanna í okkar landi í stað þess að svindlað sé inn á okkur með blekkingum vopnabúnaði sem enginn Íslendingur vill hafa í landi sínu. Það hefur margoft gerst, sjálfsagt meira fyrir fáfræði sakir en illvilja eða ábyrgðarleysis ráðamanna.

Helguvíkurmálið er af sama toga. Vitanlega viljum við Alþb.-menn leysa mengunarmál Suðurnesjamanna. En við viljum hafa á því auga, hvort inn á okkur sé platað mikilvægri herskipahöfn handa NATO í leiðinni.

Það, sem vekur sífellt undrun mína, er afstaða framsóknarmanna í þessum málum. Sannleikurinn er sá, að við Alþb.-menn höfum orðið að standa á tánum á forustumönnum Framsfl. til að hindra síauknar framkvæmdir og umsvif bandaríska hersins í landinu. Ég vil spyrja framsóknarmenn í fullri alvöru: Er það vilji kjósenda Framsfl. að bandaríski herinn efli virkni sína á Íslandi til þjónkunar vígbúnaðarkapphlaupi stóveldanna? Ég trúi ekki, að svo sé, og raunar veit, að þetta er ekki áhugamál allra hv. þm. flokksins, enda segja samþykktir flokksins sína sögu. Ég held að utanríkismál ríkisstj. séu helst feimnismál að þessu leyti og þess vegna sé forðast að ræða þau hér í þinginu.

Öllum Íslendingum stafar hætta af veru herstöðvarinnar í Keflavík. Það er ótvírætt eitt brýnasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar að segja skilið við tengsl Íslands og kjarnorkuvopnakerfis Bandaríkjanna.

Herra forseti. Mér er ljóst, að tími minn er útrunninn, og mun því stytta mál mitt. — Það er e. t. v. von mannkyns á heljarþröm, að hinar nýju friðarhreyfingar, baráttan fyrir kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum, þátttaka kirkjunnar í baráttunni fyrir friði, barátta allra hugsandi manna verði til þess að koma vitinu fyrir stjórnmálamenn sem leitt hafa heimsbyggðina í þessar ógöngur. Allir Íslendingar ættu að taka höndum sama um baráttuna fyrir friði í samvinnu við þessar hreyfingar. Öll önnur mál hér í hinu háa Alþingi eru hégóminn einn.