18.12.1981
Efri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

96. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. 1. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér til l. umr. dró til nokkurra tíðinda, eins og menn minnast, þar sem hæstv. fjmrh. var ekki við höndina til að spyrja hann spurninga og ræða lítillega við hann. Þá lýsti hæstv. forseti því yfir, að hann mundi gæta þess að við 2. umr. yrði ráðh. hér til svara og til að hlusta á mál manna. Nú er hæstv. ráðh. ekki í húsinu, að mér sýnist á ljósi hans hér frammi, en ég tek sérstaklega fram, að ég geri enga kröfu til þess að hann sé viðstaddur þessa umr. þar sem sýnilegt er að ríkisstj. hefur þegar ákveðið þær aðgerðir og það framhald sinnar stefnu, að menn í stjórnarliðinu nenna sjálfsagt ekki að hlusta á það sem við sjálfstæðismenn vildum leggja til þessara mála. Engu að síður ætla ég mér að fara um málið örfáum orðum.

Að því er tímabundna vörugjaldið varðar er það orðinn gamall félagi okkar og hefur verið hækkað mjög mikið frá því sem upphaflega var. Það var gerð tilraun til þess fyrir hátíðarnar 1977 að byrja lækkun þessa gjalds. Það var lækkað þá lítið eitt sem vísbending um það, að þáv. stjórn hygðist reyna að byrja að lina á skattheimtu í þjóðfélaginu. Vildu margir að stærra skref yrði þá tekið, en þá var þó stefnt í rétta átt, enda var þá verðbólga á niðurleið og ýmislegt horfði til góðs í þjóðfélaginu. Því var síðan öllu kollvarpað með „sólstöðusamningunum“ 1978 og því samsæri sem þá var gert, eins og alkunna er. En það var eitt af verkum ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar um það leyti sem vinstri stefna hóf innreið sína í íslenskt þjóðlíf í algleymingi sem varað hefur til þessa dags og farið sívaxandi með þeim afleiðingum sem öllum eru nú að verða ljósar, að hækka þetta gjald. Ýmis gjöld önnur voru þá líka hækkuð mjög mikið. Síðan hefur stefnan verið sú að færa fjármagn frá atvinnufyrirtækum og einstaklingum, sveitarfélögum og öðrum stofnunum í þjóðfélaginu í sem ríkustum mæli til ríkisins með þeim afleiðingum að verðbólgan er sívaxandi og er hraði hennar nú líklega meiri en nokkru sinni áður í sögu þjóðarinnar.

Í umr. um brbl. ríkisstj. frá gamlársdegi í fyrra lögðum við sjálfstæðismenn fram brtt. sem vísbendingu um hvert við vildum stefna í íslenskum efnahags- og atvinnumálum. Hún var kannske ekki mikil í sniðum þó að hún væri öllu stærra skref en 1977 þegar byrjað var aðeins að lina á skattáþján. Við lögðum þá til að skattvísitala yrði rétt þannig, að tekjuskattar og eignarskattar hækkuðu ekki frá því sem verið hafði að raungildi. Við lögðum þá til að vörugjald yrði lækkað úr 24% í 18%, við lögðum til að söluskattur yrði lækkaður um 2% eða söluskattsviðauki, eins og það heitir nú víst í lögum, og við lögðum til að nýir skattar á sælgæti og gosdrykki yrðu niður felldir. Þetta taldist okkur til að mundi þýða að verðbótavísitala, sem miðaðist við 1. maí og átti að greiðast 1. júní á þessu ári, mundi verða 2% lægri en ella. Þessi eina aðgerð hefði orðið þess valdandi, að mjög auðvelt hefði verið án frekari kjaraskerðinga en urðu með áramótalögunum að halda vísitölustigi verulega innan við 40% þannig að það yrði þá um raunverulega niðurtalningu að ræða. En stjórnarliðar hlustuðu ekki á okkur þá og ætla sýnilega ekki að gera nú og þess vegna flyt ég hér mun styttri ræðu en ég ella hefði gert ef hæstv. ráðherrar hefðu sýnt okkur þá tillitssemi að vera mættir þegar mikilvæg mál eru hér rædd. — Það er sérstaklega hæstv. forsrh., sem á sæti hér í deild, sem sést yfirleitt ekki við sín skyldustörf hér. Harma ég það auðvitað ekki vegna þess að hann mundi ekki heyra hvað ég segði eða aðrir þeir sem vilja benda á skynsamlegar leiðir til þess að leitast við að vinna bug á verðbólgu. Hann byggir öll sín sjónarmið og málflutning á rangtúlkunum og einhverri trú að mér heyrist jafnvel trúir stundum því sem hann segir, — einhverri trú á að vel hafi farnast í hans stjórnartíð.

Fyrir ári létum við sjálfstæðismenn ýmsa aðila vinna fyrir okkur að margháttuðum útreikningum og héldum nær daglega fundi í þingflokki fyrstu vikur þessa árs til að marka okkar stefnu í efnahags- og verðbólgumálum og birtum með brtt. okkar og málflutningi, þar sem við bentum á, að ríkið yrði að koma til móts við borgarana og atvinnulífið, og töluðum um að ríkið yrði að slaka á klónni, — þá birtum við tillögur okkar um að hægja verulega á verðbólguhraða hinn 1. júní með því að lina örlítið á skattheimtu. Allir reikningar bentu til þess, að verðbólga hefði orðið sæmilega viðráðanleg á þessu ári ef einungis hefði verið stigið þetta litla skref. En við létum líka athuga hvað það mundi kosta ríkissjóð í glötuðum tekjum að ná verðbólgu niður í svipað stig og hún er í nágrannalöndunum, 12–18% eða slíkt. Þessir útreikningar voru gerðir af mörgum aðilum og mönnum bar nokkurn veginn saman um að það mundi kosta ríkið í tekjumissi á þeim tíma um það bil 13 milljarða gkr. að ná verðbólgu niður um hvert stig, en síðan yrðu að sjálfsögðu margfeldisáhrif af þessari lækkun verðbólgustigsins eins og margfeldisáhrifin eru rík við hækkun um hvert verðbólgustig. Það lét nærri og mönnum bar saman um það, að ef ríkið gæti misst af þeim tekjuauka sem það hefur haft af aukalegum skattlagningum frá 1978, þeim sköttum sem við hafa bæst frá þeim tíma, væri með þeim hætti auðvelt að ná verðbólguhraðanum á þessu ári niður í 12–18 stig í árslokin án þess að skerða nokkurs manns kjör. Þetta var sem sagt hægt ef ríkið gat hætt að innheimta þá nýju skatta sem á höfðu verið lagðir á þessum nýja vinstristjórnartíma. Þetta birtum við meira og minna í ræðum okkar og málflutningi og er sumt af þessum útreikningum aðgengilegt.

Við hugðumst við 1. umr. þessa máls benda á þessa leið, hvort hugsanlegt væri nú að jafnvel gæti tekist samstaða um það á Alþingi að sýna í verki, þannig að fólkið fengi trú á það, að hugmyndin væri að ganga til raunverulegrar niðurtalningar, það ætti ekki að sigla inn í stóraukna verðbólgu, eins og fyrirsjáanlegt er nú og allir sammála um að um sé að ræða, heldur gefa fólkinu trú á að einhver annarvalkostur væri. Ráðherrar hafa ekki séð ástæðu til að hlusta á þessi sjónarmið og munu áreiðanlega ekki gera meðan þessi stjórn situr. Engu að síður vildi ég vekja athygli á því og greina hæstv. forseta og þm. frá því, hvað fyrir okkur vakti þegar við óskuðum eftir að hæstv. fjmrh. sinnti þingskyldum sínum og mælti sjálfur fyrir frv. úr því að hann var á næstu grösum.

En umr. um þessi mál bíður betri tíma. Það er enginn vandi að breyta um stefnu. Ég sagði víst í umr. í gær að það mætti hafa mið af aðgerðum núv. hæstv. ríkisstj. og eins af þeirri vinstri stjórn sem mynduð var 1978, sem er nú í rauninni ein og sama stjórnin, þó að persónur séu aðrar, og gera flest öfugt við það sem hún hefur gert.

Þessi stefna, að sölsa ætíð meira af fjármunum þjóðfélagsins inn í ríkishítina og ríkissjóðinn, hefur þegar leitt til ófarnaðar. Sú ofstjórnarstefna á sviði peningamála, þar sem menn halda að þeir geti með því einu að taka peningana af borgurunum, stofnunum þeirra og atvinnufyrirtækjum inn í ríkissjóð og seðlabanka, með því einu geti þeir haft svo sterka stjórn á fjármálunum að það sé hægt að ná verðbólgu niður, hún hefur reynst röng. Þetta er víst það sem sumir hagfræðingar hafa kallað peningamálastefnu eða „monetarisma“ og mikið hefur verið skrifað um og var ætlað að gæti ráðið við verðbólgu í öðrum ríkjum sem er nú að vísu miklu minni. Ég held að flestir hafi nú fallið frá því, að þessi trúaratriði væru raunhæf. Þetta er að sumu leyti ekki ósvipað og hjá Margaret Thatcher í Bretlandi, en hún hóf feril sinn á því að hækka söluskatt úr 8% í 15% og dengja á stórfelldum orkuskatti ofan á olíuverðshækkanirnar og kynda þannig undir verðbólgu.

Það er sem sagt stefna Sjálfstfl., sem mörkuð var á fyrstu mánuðum þessa árs og hefur síðan verið í nánari útfærslu, að fara þveröfuga leið og skila aftur til borgaranna hluta þess ránsfengs sem til ríkisins hefur gengið, lækka bæði beina og óbeina skatta svo að við verðbólguna verði ráðið. Það hlýtur að verða hlutskipti sjálfstæðismanna og annarra frjálslyndra manna í þessu þjóðfélagi að feta þá braut þegar núv. hæstv. ríkisstj. geispar golunni.