18.12.1981
Efri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

96. mál, tímabundið vörugjald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vek athygli hv. dm. á því, að frv., sem hér er til umr., felur í sér m. a. hækkun á því tímabundna vörugjaldi frá hausti 1979 sem hefur verið framlengt undanfarin ár. Sú hækkun úr 18% í 24% leggur ein um 107 millj. nýkr. skattálögur á almenning á næsta ári. Það eru um 10.7 milljarðar kr. Allar skattahækkanir, sem orðið hafa síðan 1978, auka álögur á almenning um tæpar 931 millj. kr. eða 93.1 milljarð gkr. á næsta ári, en þetta jafngildir um 20 þús. kr. viðbótarálögum beinna og óbeinna skatta á hverja fimm manna fjölskyldu á árinu 1982. Þessu til viðbótar var fyrir skömmu heimiluð útsvarshækkun til sveitarfélaga og má áætla að hún leggi á menn 150 millj. kr. álögur á næsta ári.

Herra forseti. Ég ætlaði að tala við hæstv. viðskrh., ef hann mætti vera að því að doka við, og spyrja hann mjög einfaldra spurninga í tengslum við þetta mál.

Ég vek enn fremur athygli á því, að á sama tíma sem þessar miklu skattálögur hafa dunið yfir menn hafa þjóðartekjurnar ekki vaxið nema örlítið, þannig að að sjálfsögðu hafa þessar miklu skattálögur þrengt að mönnum og ekki síst þegar um er að ræða að þjóðartekjur hafa ekki vaxið og kaupmáttur taxtakaups hefur minnkað verulega.

En það var ekki tilgangur minn aðallega að vekja athygli á þessu, ég hef oft gert það áður og kom ekki í ræðustól að þessu sinni til þess, heldur af því að mér sýnist vera tími núna í tengslum við þetta mál til að ræða þessi skattamál örlítið nánar, þó að það sé ekki ætlun mín að efnt verði til neinna almennra umr. um skattamál.

Það kom fram í ræðu hæstv. viðskrh. við 1. umr. fjárlaga, að hæstv. ráðherrar Framsfl. hefðu haft fyrirvara um samþykkt frv. að því er varðaði ýmsar skattaálögur, sérstaklega á atvinnuvegina. Nú hefur það legið fyrir síðan við 2. umr. fjárlaga, að gert er ráð fyrir að þeir skattar, sem hæstv. ráðh. nefndi sérstaklega, launaskattur, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og fleiri slíkir skattar, verði lagðir á samkv. tekjuáætlun fjárlagafrv. á sama hátt og áður. Þess vegna er það spurning mín til hæstv. ráðh., hvort hæstv. ráðh. Framsfl. hafi fallið frá þessum fyrirvörum eða hvort það sé ætlunin að endurskoða þessar skattaálögur síðar og hvernig það verði þá unnið upp fyrir ríkissjóð, annaðhvort með niðurskurði eða nýjum sköttum. En aðalatriðið er þetta: Hafa hæstv. ráðh. Framsfl. fallið frá þessum fyrir svörum sínum eða má búast við að þessum sköttum verði breytt?