18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

20. mál, ár aldraðra

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Allshn. hefur fengið til meðferðar till. til þál. frá hv. 1. landsk. þm. ásamt fleiri þm. um ár aldraðra. Nefndin hefur fengið umsagnir um till. frá heilbr.- og trmrn. og Öldrunarráði Íslands og mælir með því að tillagan verði samþykkt með breytingum sem getið er á þskj. 198. Einn nm., hv. 8. landsk. þm., skrifar undir nál. með fyrirvara, þar sem hann taldi að réttara væri að formaður nefndarinnar yrði skipaður sérstaklega.

Eins og allshn. varð sammála um tillgr. skal hún orðast svo:

„Alþingi ályktar að tileinka árið 1982 málefnum aldraðra. Alþingi skal kjósa sjö manna nefnd til að vinna að framgangi þeirra og skal hún eiga samvinnu við stjórnskipaða nefnd, sem vinnur að lagasetningu um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Skulu þessir aðilar marka frambúðarstefnu í þessum málum og meta þá þörf, sem er á brýnum úrbótum í einstökum byggðarlögum eða fyrir landið í heild og að vinna að undirbúningi fjáröflunar og framkvæmda á þessu sviði. Sérstaklega skal lögð áhersla á samvinnu og þátttöku þeirra samtaka, sem láta sig mannúðar- og menningarmál varða.

Í samræmi við ályktun þessa skal hin þingkjörna nefnd í samráði við sveitarstjórnir og hagsmunaaðila koma á fót undirnefndum til starfa innan landshluta kjördæma, heilsugæslusvæða eða einstakra sveitarfélaga.“

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu brýnt er að málefni aldraðra séu tekin föstum tökum. Raunar sýnir saga okkar og margir bókmenntalegir dýrgripir að sú hugsun er ekki ný, að það sé bæði gott og göfugt að láta sig varða hina öldruðu. Í Auðunar þætti vestfirska segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er nú sagt einhverju sinni um vorið, að konungur býður Auðuni að vera með sér álengdar og kveðst mundu gera hann skutulsvein sinn og leggja til hans góða virðing.

Auðunn segir: „Guð þakki yður, herra, sóma þann allan, er þér viljið til mín leggja, en hitt er mér í skapi, að fara út til Íslands.“

Konungur segir: „Þetta sýnist mér undarlega kosið.“ Auðunn mælti: „Eigi má ég það vita, herra,“ segir hann, „að ég hafi hér mikinn sóma með yður, en móðir mín troði stafkarlsstig úti á Íslandi, því að nú er lokið björg þeirri er ég lagði til, áður en ég færi af Íslandi.“

Konungur svarar: „Vel er mælt,“ segir hann, „og mannlega, og muntu verða giftumaður. Sá einn var svo hluturinn, að mér myndi eigi mislíka, að þú færir braut héðan, og ver nú með mér þar til er skip búast.“ Hann gerir svo.“

Marga aðra dýrgripi eigum við sem víkja að þessari sömu ræktarsemi. Ég vil nefna einnig til kvæði Guðmundar Friðjónssonar: Ekkjan við ána, en einnig mætti minna á mörg ljóð, ekki síst þau ljóð sem skáld hafa ort til mæðra sinna og eru meðal mestu dýrgripa íslenskrar tungu. Í þessu ljóði segir, með leyfi hæstv. forseta.

„Sem vefstóll úti í horni hún var hin hinstu ár,

sem voðinni er sviptur, af ryki og elli grár.

En brýr og kinnar voru sem bókfell margra alda,

þær birtu langa sögu um marga daga og kalda.

Um héraðsbrest ei getur, þó hrökkvi sprek í tvennt,

er hríðarbylur geisar. Það liggur gleymt og fennt.

Og eins er lítill tregi og engin sorg á ferðum,

þó ekkja falli í valinn með sjötíu ár á herðum.“

Það, sem við leggjum til, herra forseti, er að sinna þessu fólki, sem sver sig í ætt við ekkjuna við ána, að það megi eiga gott ævikvöld og við helgum því árið 1982.