18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

1. mál, fjárlög 1982

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að hafa mörg orð hér við 3. umr. fjárlaga, en ég vil þó nefna örfá atriði sem mér finnst ástæða til að koma á framfæri við þetta tækifæri. Það væri nóg að vísa til ítarlegs nál. 1. minni hl. fjvn. í sjálfu sér, en vegna nokkurra atriða, sem tekið hafa breytingum á milli 2. og 3. umr., kýs ég að nefna þau sérstaklega í þessari ræðu.

Það er ljóst, ef litið er á 1. gr. frv. — um tekjuáætlun ríkissjóðs — og þær breytingar sem á henni hafa verið gerðar milli 2. og 3. umr., að tekjur hækka um 19 millj. og hefur þá tekjuáætlunin hækkað um 168 millj. frá því að frv. var lagt fram. Einn stærsti þátturinn í aukningu áætlunartekna ríkissjóðs á næsta ári stafar af aðflutningsgjöldum, en þau hafa orðið meiri á þessu ári en gert var ráð fyrir og þó einkum á síðari hluta ársins. Þetta er athyglisvert, vegna þess að á sama tíma er spáð verulega óhagstæðum viðskiptajöfnuði, og sýnir að fólk er að kaupa vöru frá útlöndum af ótta við fyrirhugaðar gengisfellingar.

Sé litið til þessara 19 millj., sem tekjuáætlunin hækkar um á milli 2. og 3. umr., ber fyrst að nefna tollabreytingar vegna álagðra tolla á innflutt hús, eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem nú er til meðferðar á hv. Alþingi. Hér er gert ráð fyrir að 6 millj. komi í ríkissjóð af þessum ástæðum, en sú tala er ekki fundin við neina skoðun málsins, heldur ágiskunartala sem erfitt er að henda reiður á. Það skal tekið fram, að nú er gert ráð fyrir að þessi sérstaki tollur á innflutt hús verði eingöngu til bráðabirgða, þ. e. til eins árs, á meðan þetta mál er kannað frekar. Vitnaði formaður fjh.- og viðskn. Nd., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, í því sambandi til umsagnar Verslunarráðs Íslands sem gert hefur ýmsar aths. við frv.

Í öðru lagi, og það er athyglisvert, gerir meiri hl. fjvn. og um leið hæstv. ríkisstj. ráð fyrir að gjöldum á innflutning sælgætis og kex verði fram haldið frá 1. mars, en eins og öllum er kunnugt var gert ráð fyrir að það gjald félli niður frá 1. mars n. k. Mér er ekki kunnugt um að komið hafi fram raddir úr röðum framleiðenda um framlengingu þessa gjalds. Verður að telja af þeim ástæðum að hér sé um að ræða skatt sem sé til kominn fyrst og fremst eingöngu vegna tekna af honum í ríkissjóð.

Að lokum hefur liðurinn dráttarvextir verið hækkaður og segir það sína sögu.

Þá vil ég geta þess, að sú breyting hefur orðið á fjárlagafrv. í meðförum meiri hl. n. á milli 2. og 3. umr., að það, sem ætlað var til efnahagsaðgerða, 140 millj. kr., lækkar, verður 125 millj. og skerðist þannig um 15 millj. Þessum 15 millj. er ráðstafað til allt annars, til að koma til móts við þau útgjaldaáform sem meiri hl. samþykkti að leggja fyrir hv. fjvn. vegna þess hve frv. var illa unnið þegar það kom í þingsáli.

Það er athyglisvert varðandi 1. gr. frv., að liðurinn Önnur innlend fjáröflun hækkar um 40 millj. Þar er á ferðinni svokallað byggðalínugjald, en gera má ráð fyrir að það verði lagt á á næsta ári, eins og fram hefur komið hjá hæstv. ríkisstj. Verður að telja að hér sé um fölsun á bókhaldi að ræða því að auðvitað hlýtur slíkur skattur að eiga að renna til ríkissjóðs sem tekjur í sama formi og aðrir orkuskattar, eins og orkujöfnunargjald sem var lagt á söluskattsstofn og verðjöfnunargjald raforku sem er lagt á raforkuverð. Á þetta vil ég minnast sérstaklega.

Þegar tekjuáætlun frv. í 1. gr. er skoðuð kemur í ljós eftirfarandi, sem mér finnst ástæða til að leggja sérstaka áherslu á:

Í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir því í frv., að tekið verði upp tollkrítarfyrirkomulag þrátt fyrir marggefnar yfirlýsingar hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. um að það yrði gert. Reyndar átti það að hafa gerst á s. l. ári. Með samþykkt fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir er ljóst að þeirri vinnu, sem fram hefur farið á s. l. sumri, er stungið undir stól og það frv., sem liggur nú tilbúið í fjmrn., á að liggja þar og verður ekki lagt fram a. m. k. á næsta ári.

Í öðru lagi er ljóst, að ekki verður um lækkun aðflutningsgjalda eða niðurfellingu á aðföngum til iðnaðar að ræða á næsta ári nema ef vera skyldi í sambandi við heildarendurskoðun á tollskrárlögunum, en ekki sést á frv. að slík endurskoðun komi til með að leiða til lækkunar aðflutningsgjalda.

Í þriðja lagi er ljóst, að launaskattur verður áfram einn af tekjustofnum ríkisins þrátt fyrir digrar yfirlýsingar ýmissa hv. þm. og meira að segja hæstv. ráðh. og þá einkum ráðh. Framsfl., sem höfðu fullan fyrirvara um launaskattinn. Þeir hafa þess vegna orðið undir í baráttu sinni fyrir þessu máli — og það sem merkilegra er: að enn á ný er launaskattinum ráðstafað til allt annarra þarfa en lög gera ráð fyrir.

Í fjórða lagi er það athyglisvert með tilliti til yfirlýsingar hæstv. fjmrh.. að ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á tekjum vegna skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, en eins og þingheimur veit sagði hæstv fjmrh. í ræðu við 2. umr. fjárlaga að það væri til skoðunar að breyta þeim skatti, og var á honum að skilja að sú breyting yrði til lækkunar. Þetta kemur ekki fram í fjárlagafrv. nú við 3. umr. og hlýtur að segja sína sögu.

Næst vil ég geta um yfirlýsingar hæstv. félmrh. sem hann hefur gefið varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra, en það mál er einnig til meðferðar á hinu háa Alþingi. Samkv. frv. renna í sjóðinn 24.5 millj. kr., þar af 11 millj. beint úr ríkissjóði, en samkv. yfirlýsingum hæstv. félmrh. áttu að renna í sjóðinn 4–6 millj. til viðbótar. Það sést ekki í frv. Hv. fjvn. kemur til með að fá þetta mál til frekari meðferðar eftir nýár og þá með tilliti til skiptingar á fjármunum Framkvæmdasjóðsins. Vil ég í því sambandi sérstaklega geta um gífurlegar þarfir svokallaðrar B-álmu við Borgarsjúkrahúsið í Reykjavík, en hún nýtur ekki fjárframlags beint af fjárlögum.

Annað mál, sem snertir Reykjavík sérstaklega, er svokölluð skipaverkstöð sem kemur nú inn í fjárlagafrv. með brtt. frá fjvn. þar sem gert er ráð fyrir að 1.5 millj. renni til svokallaðrar skipaverkstöðvar. Ég vil rifja það upp, að þetta mál var þannig til komið að hæstv. samgrh. og félmrh. höfðu gefið yfirlýsingu og samið um að skipaverkstöð í Reykjavík fengi ákveðna fjármuni til ráðstöfunar, en erindið týndist í kerfinu. Hér er verið að bjarga því máli í höfn og bjarga hæstv. ráðh. frá því að hafa gefið innihaldslausar yfirlýsingar.

Varðandi B-hlutann tel ég ástæðu til að nefna örfá atriði.

Varðandi Rafmagnsveiturnar er ljóst að eins og fjárlagafrv. er afgreitt má gera ráð fyrir gífurlegri gjaldskrárhækkunarþörf Rafmagnsveitnanna. Talað er um í því sambandi að Rafmagnsveita Reykjavíkur þurfi 57% gjaldskrárhækkun um áramót og aðrar rafveitur 67–85% gjaldskrárhækkun að viðbættri gjaldskrárhækkun Landsvirkjunar. Hér er um svo gífurlegt stökk að ræða í verðlagningu á raforku að full ástæða er til að minnast á það mál sérstaklega. Notendur rafmagns geta þess vegna gert ráð fyrir, að óbreyttum fjárlögum og að óbreyttri lánsfjáráætlun, að raforkuverð í landinu allt að því tvöfaldist á næsta ári.

Þegar minnst er á þjónustustofnanir hins opinbera er ástæða til þess að minnast á Póst og síma, sem safnaði skuldum upp á 14.5 millj. kr. á árunum 1980–1981, á Ríkisútvarpið, sem árin 1979 og 1980 safnaði skuldum upp á 20 millj. kr. á þáverandi verðlagi, og loks á tap Ríkisskips, sem tapaði á þessum sömu árum, 1979 og 1980, 12.5 millj. kr. Ekkert hefur unnist upp í tap Skipaútgerðarinnar á yfirstandandi ári þrátt fyrir 70–80% gjaldskrárhækkun á farmgjaldi og uppskipunargjöldum.

Það er ástæða til þess að minnast á það jafnframt, þegar rætt er um Skipaútgerð ríkisins, að framlag ríkissjóðs nær því jafngildir launakostnaði fyrirtækisins. Sýnir það eitt sér að málefni þessa fyrirtækis þarf að taka til ítarlegrar skoðunar á næstunni, ekki síst með tilliti til þess, að komið hefur fram af hálfu annarra skipafélaga að verkefni Skipaútgerðar ríkisins megi að verulegum hluta leysa af hendi hjá þeim skipafélögum.

Annars var ekki ætlunin að ræða hér sérstaklega um þau fjölmörgu mál sem ástæða er til að fjvn. eða undirnefnd fjvn. fjalli um á næstunni. Það er af nógu að taka.

Um 6. gr. frv. er fátt eitt að segja. Þar eru gífurlega margar brtt. á ferðinni og hefur frsm. nefndarinnar hv. þm. Geir Gunnarsson, gert grein fyrir þeim tillögum. Ég vil þó fyrir hönd þeirra sjálfstæðismanna, sem sitja í 1. minni hl. n., segja frá því, að varðandi till., sem á að vera nr. 3.7 í 6. gr., um heimild til að kaupa fleka til borunar og sprenginga fyrir Vitamálastofnunina, höfum við sérstakan fyrirvara.

Í 7. gr. fjárlagafrv. er fjallað um skattvísitölu. Hún er óbreytt frá því að frv. kom fyrst fram í haust eða 150 stig. Ég vil minna á að samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar má gera ráð fyrir að launabreytingin á milli ára hafi orðið 52%. Það þýðir að skattvísitalan þyrfti að hafa verið í frv. 152 stig til þess að skattbyrðin ykist ekki. Í raun þýðir óbreytt skattvísitala milli 20 og 30 millj. kr. tekjuaukningu fyrir ríkissjóð á næsta ári og er þá vægt áætlað. Þetta leggst ofan á þá 931 millj. kr. skattaaukningu sem orðið hefur frá 1978. Má segja að aukin skattbyrði á landsins þegna sé um 1/8 af tekjum ríkissjóðs á þessum þremur árum.

Það, sem skiptir þó öllu máli varðandi þetta frv., er að ekkert er að marka verðlagsforsendur frv. um 33% verðlagshækkun á milli ára. Það þýðir í raun 25% verðbólgu frá áramótum til áramóta á næsta ári. Þetta gengur ekki upp nema hæstv. ríkisstj. efni til gífurlegra efnahagsaðgerða með því að lækka verðbólguna úr því sem spáð er að hún verði, þ. e. 55% í 25%. Slíkt verður ekki gert nema með „sléttari skiptum“ en fóru fram um síðustu áramót, svo að notað sé nýjasta hugtak sem Alþb. hefur fundið upp um það sem það kallaði fyrir þremur árum því ágæta nafni kauprán. Með því að halda þessum verðlagsforsendum í frv. gerir ríkisstj. ráð fyrir að efnt verði til slíkra ráðstafana, en síðast í morgun sagði formaður þingflokks Framsfl. í Ríkisútvarpinu að engin samstaða hefði enn náðst um það mál.

Ég minntist á það áður, að sjúkdómseinkennin í þessu frv. koma m. a. fram í því, að ríkissjóður fær auknar tekjur af aðflutningsgjöldum vegna þess að viðskiptajöfnuðurinn er óhagstæður. Það gerist aðallega af völdum þess, að gengið er í raun rangt skráð.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mjög mörgum fleiri orðum um frv. eins og það lítur út núna, en vísa til nál. 1. minni hl. fjvn. sem í áliti sínu bendir á hver séu einkenni þessa frv. og stefnan í fjárl. Hún byggist á því, að gefist hefur verið upp á niðurtalningarleiðinni, að enn þá þenjast út eyðsluútgjöld ríkissjóðs, skattheimta er aukin, lántökur eru auknar, minni fjárveitingar renna til sjóða og framkvæmda og markaðar tekjur eru teknar til almennra útgjalda ríkissjóðs, auk þess sem umfang ríkisumsvifa hefur aukist að mun.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég fyrir hönd okkar í 1. minni hl. þakka samnefndarmönnum okkar fyrir ágætt samstarf og þó sérstaklega hv. þm. Geir Gunnarssyni, formanni fjvn., sem af alkunnum skörungsskap og stjórnsemi hefur stýrt nefndarfundum í haust og vetur.