18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

1. mál, fjárlög 1982

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt., sem formenn allra stjórnmálaflokkanna flytja við 4. gr. fjárl., lið 03 399, um að þar komi nýr liður um aðstoð við pólsku þjóðina, 1 millj. kr.

Neyð pólsku þjóðarinnar er þekkt: hungur, matvælaskortur, hörgull á lyfjum og hjúkrunargögnum og fleiri vörum. Þetta bætist við aðrar hörmungar, sem pólska þjóðin hefur mátt þola að undanförnu, og ofbeldi, sem birtist okkur í fréttum á hverjum degi. Um þessi mál hefur verið ályktað hér á Alþingi og þróun mála fordæmd. Um neyð fólksins var fjallað þegar þáltill. okkar Alþfl.-manna var til umr. hér fyrir fáeinum kvöldum. Ég lagði þá áherslu á að nást mætti samstaða allra flokka til þess að rétta pólsku þjóðinni hjálparhönd. Hins vegar er ljóst nú að sú þáltill. nær ekki afgreiðslu fyrir jól. En það hefur tekist samkomulag milli allra stjórnmálaflokkanna um að veita pólsku þjóðinni liðsinni í þessum hörmungum með því að standa að þeirri till. sem ég mæli hér fyrir, um aðstoð við pólsku þjóðina 1 millj. kr. framlag af hálfu Alþingis.

Ég fagna því, að með þessum hætti mun Alþingi Íslendinga sýna í verki stuðning sinn við hina pólsku þjóð á þessum hörmungartímum. Vitaskuld leggja flm. áherslu á að þessi aðstoð komist til skila í réttar hendur. Sá fyrirvari er auðvitað á varðandi framkvæmd þessa máls. Ég vil leyfa mér að fagna þeirri samstöðu, sem náðst hefur um málið, og ég vænti þess, að Alþingi sameinist allt um samþykkt þessarar till. og sýni þannig hug sinn í verki til þessa þjáða fólks.