18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

1. mál, fjárlög 1982

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. um að framlag til Krabbameinsfélags Íslands hækki úr 1 millj. 700 þús. upp í 2 millj. 700 þús. Mér er ljóst að brtt., sem lá fyrir við 2. umr. og dregin var til baka til 3. umr., er upp á 2 millj. kr. hækkun. Ég legg hér aftur til að þetta framlag hækki um 1 millj., svo að það má segja að þessi till. sé að vissu leyti varatillaga við þá till., ef hún nær ekki fram að ganga.

Í bréfi heilbr.- og trmrn. til Tryggingastofnunar ríkisins, sem skrifað var í haust, var talið nauðsynlegt að starfsemi Krabbameinsfélags Íslands héldi áfram varðandi krabbameinsleit og skoðanir. Mælir ráðuneytið með því við tryggingaráð, að Krabbameinsfélaginu verði greitt fyrir þessar rannsóknir sem næst því gjaldi sem taxti Læknafélags Íslands er á hverjum tíma. Í þessu bréfi ráðuneytisins segir að í lögum um heilbrigðisþjónustu sé gert ráð fyrir að ráðh. geti sett gjaldskrá um greiðslur sjúkrasamlaga fyrir rannsóknir og meðferð veitta á heilsugæslustöð, aðra en læknishjálp. Því er það skoðun þess ráðuneytis, að með því að Tryggingastofnun ríkisins greiði fyrir þjónustu Krabbameinsfélags Íslands sé ekki verið að fara út fyrir greiðsluskyldu sjúkratrygginga.

Þess má líka geta, að Tryggingastofnunin hefur um nokkurt árabil greitt Krabbameinsfélaginu vegna frumurannsókna fjármagn sem ákveðið hefur verið af tryggingaráði eitt ár í einu. Það gjald er hvorki byggt á einum né öðrum taxta, eins og segir í bréfi frá Tryggingastofnuninni til Krabbameinsfélagsins sem skrifað var í nóvember s. l. Þar segir orðrétt:

„Leggur tryggingaráð þunga áherslu á það, að þetta sé í allra síðasta sinn sem slík greiðsla verði af hendi innt af hálfu Tryggingastofnunarinnar.“

Hins vegar hefur það komið fram, að Tryggingastofnunin kveður sig fúsa til að greiða fyrir umræddar rannsóknir verði henni ætlað fjármagn á fjárlögum til að mæta þeim, en svo hefur ekki verið hingað til. Það má því segja að alltaf sé óvissa um það frá ári til árs, hvort Tryggingastofnunin greiðir Krabbameinsfélaginu fyrir þessar hóprannsóknir. Ég hefði því talið eðlilegt að verða við beiðni Krabbameinsfélagsins til þess að þessar hóprannsóknir geti haldið áfram.

Það má segja að ekki síst fyrir atbeina þessa merka félagsskapar hefur Ísland vakið heimsathygli fyrir leghálskrabbameinsrannsóknir. Annars staðar er mikið vitnað til þeirra rannsókna, og það hefur verið trú þeirra, sem við rannsóknirnar starfa, að hægt sé að útrýma leghálskrabbameini í landinu. Margir aðrir möguleikar eru fyrir hendi varðandi krabbameinsleit sem ekki hefur verið hægt að hrinda í framkvæmd vegna þess að aðstöðu hefur víða vantað. Þar eru forgangsverkefni stóraukin leit að brjóstkrabbameini og leit að ristilkrabbameini.

Ég held að það sé almennt viðurkennt, að fyrirbyggjandi aðgerðir, bæði gegn þessum voveiflega sjúkdómi og öðrum, eru einstaklingum dýrmætar, dýrmætari en flest annað og sömuleiðis hvað snertir kostnað samfélagsins, því að eftir því sem komið er í veg fyrir fleiri veikindatilfelli, bæði af þessum sjúkdómi og öðrum, verður sjúkrahúsareksturinn ódýrari og sjúkrakostnaðurinn í landinu minni. Ég held að fyrirbyggjandi aðgerðir á þessu sviði og ekki síður ýmsum öðrum — svo að dæmi séu nefnd eins og starfsemi Hjartaverndar og fleiri slíkra félaga og starfsemi fjölmargra göngudeilda sem hafa hafið starfsemi á síðasta áratug — hafi orðið til mikils sparnaðar fyrir samfélagið í rekstri sjúkrahúsa og kallað á enn minni aðgerðir en ella hefði orðið að ganga í.

Mér er sagt það af fjárveitinganefndarmönnum, að vel hafi verið tekið undir þetta erindi í fjvn. og það hafi verið samhljóða álit nm., að nauðsynlegt væri að draga ekki úr þessari starfsemi. Hins vegar mun meiri hl. n. telja að það sé eðlilegt að ráðh. gefi Tryggingastofnuninni fyrirmæli eða sjái svo um að hún haldi þessum greiðslum áfram. En þá komum við aftur að því mikla vandamáli, hve oft er hægt að ávísa á sama fjármagnið. Talið er að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins vanti hvorki meira né minna en 240 millj. kr. til þeirrar starfsemi sem hún á að standa undir. Þetta gefur að vísu nokkra hugmynd um það, að fjárlög eru ekki víða raunhæf. Ég efast ekkert um að bæði núv. ríkisstj. og hver önnur ríkisstj. sem væri við völd mundi gera flest annað en að draga úr þjónustu við sjúkrahúsin. Því er mönnum nauðugur einn kostur að hækka þessi framlög. Það liggur í augum uppi nú í lok þessa árs, að hér er um allt of lága upphæð að ræða í þessu skyni. Og eftir því sem upphæðin er lægri og svið sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar þrengra er meiri óvissa um hvort tryggingaráð fellst á að halda þessum greiðslum áfram nema til komi sérstök samþykkt eða heimild ríkisstjórnar.

Ég tel að það sé miklu hyggilegra og eðlilegra að sjá fyrir þessum þörfum með fjárveitingu sem nemur kostnaði við þær rannsóknir sem Krabbameinsfélagið hefur áætlað að framkvæma á næsta ári. Þessi till. er því flutt sem varatillaga við till. hv. 10. landsk. þm. sem ég styð fyrir mitt leyti. En nái hún ekki fram að ganga kemur þessi till. til atkvæða.

Ég held að það eigi að vera sameiginlegt áhugamál þm. að stuðla að því, að þessi starfsemi dragist ekki saman, og jafnframt almenn stefnumörkun í fyrirbyggjandi aðgerðum í leit að sjúkdómum á byrjunarstigi, sem valda mörgum einstaklingum langvarandi veikindum eða dauða, og um leið að létta á kostnaði samfélagsins við rekstur sjúkrahúsa almennt.

Hina till. sem ég leyfi mér að flytja, flyt ég ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni, Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni og Guðmundi Karlssyni. Hún er þess efnis, að til orkujöfnunar verði varið 70 millj. kr. Í fjárlagafrv. eru áætlaðar til húsahitunar eða í styrki til þeirra, sem kynda með olíu, 30 millj. kr. Brtt. sem flutt var við 2. umr. og er endurflutt hér — 1. flm. er Þorvaldur Garðar Kristjánsson, hv. 4. þm. Vestf. — gerir ráð fyrir að þessi styrkur hækki í 50 millj. kr. En till., sem ég flyt ásamt þeim þm. sem ég nefndi áðan, til orkujöfnunar, er upp á 70 millj. kr.

Í fjárlagafrv. eru tekjur af orkujöfnunargjaldi áætlaðar 191.9 millj. kr., og það kom fram hér í gær í umr. um annað mál að af orkujöfnunargjaldinu er ætlað að gangi til ríkissjóðs um 103.6 millj. kr. Hér hefur verið flutt till. í þessu efni af hv. 6. landsk. þm. sem talaði fyrir henni áðan. En ég tel að það sé ekki alls kostar rétt röksemdafærsla sem þar kom fram, að af orkujöfnunargjaldinu sé aðeins tekið til annarra þarfa en til ríkissjóðs olíustyrkir, 30 millj. kr. Allt frá því að orku jöfnunargjald var sett á hefur hluti af því, farið í raun og veru sem bein fjárveiting til Orkusjóðs. sömuleiðis hafa farið til félagslegra framkvæmda á vegum Rafmagnsveitna ríkisins og til ýmissa orkumála verulegar upphæðir, sem mun láta nærri að séu í áætlun um 56–57 millj. kr. fyrir utan olíustyrkinn. Ég tel því ekki ástæðu til að lengra sé gengið á hendur ríkissjóð en það, að hann á að skila til þessa verkefnis að mínum dómi orkujöfnunargjaldinu að mestu leyti, en ekki að nota þessa gjaldheimtu til framdráttar almennum ríkisútgjöldum. Þess vegna flytjum við þetta, enda getum við auðveldlega náð þar samkomulagi, stjórnarandstaða og stjórnarflokkar, því að í sáttmála núv. ríkisstj. segir að unnið verði að verðjöfnun á orku, ekki síst á sviði húshitunar.

Hér hefur verið lýst yfir af ráðherrum í ríkisstj. að þeir séu fúsir að vinna að þessari verðjöfnun og telji hana vera eðlilega og sjálfsagða og sanngjarna. Þess vegna hafa þeir aðilar, sem standa að núv. ríkisstj., tekið þetta inn í sinn stjórnarsáttmála. Því eru ekki um það deilur. Stjórnarandstaðan, bæði Sjálfstfl. og sömuleiðis fulltrúi frá Alþfl., sem lauk hér máli sínu fyrir skömmu, telja eðlilegt að fara í auknum mæli inn á þessa braut. Og hvað er þá sjálfsagðara en að taka orkujöfnunargjaldið til þess að jafna hinn gífurlega mismun sem er á orkuverði til heimila og atvinnurekstrar á hinum ýmsu stöðum á landinu, sem hafa verið gerð svo góð skil hér á Alþingi nýlega að ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma til þess að fara frekar út í það?

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessar brtt. En áður en ég lýk máli mínu vil ég láta í ljós ánægju mína með sérstaklega eina till. frá fjvn. nú við þessa umr., sem er veruleg hækkun á framlagi til byggingar húss fyrir krabbameinslækningar. Ég sé að nefndin hefur orðið ásátt um að hækka það framlag, sem var í fjárlagafrv. 1 millj., í 4 millj. Mér er ljóst að þetta er tiltölulega lág upphæð miðað við allan framkvæmdakostnað við þá byggingu, og ég er samþykkur þeirri stefnumótun fjvn. að taka krabbameinslækningarnar út úr, þá byggingu þar sem þeim er ætlað að vera. En þó er auðvitað ekki hægt að afmarka þær að öllu leyti því að sami grunnur hlýtur að vera fyrir þetta hús þó að þessi stefnumörkun sé sem ég tel rétta og sjálfsagða. Ég er sömuleiðis þakklátur hæstv. fjmrh. fyrir það, að ég veit að hann hefur staðið að þessari hækkun sem aðrir. Þessu hefur verið fylgt eftir af mönnum úr öllum flokkum, enda er þetta eitt af þeim málum sem við hljótum að vera sammála um að eru mest aðkallandi í heilbrigðismálum, að þessar lækningar komist í betra horf en þær eru núna.

Ég ætla svo að síðustu að láta í ljós þakklæti mitt til allra þeirra manna sem í fjvn. starfa. Ég veit það og þekki af gamalli reynslu að það er mikið starf og síður en svo vinsælt. Þessi störf hvíla þungt á mönnum þann tíma, sem tekur að vinna að fjárlagafrv., og þá ekki síst á formanni nefndarinnar sem búinn er að sitja þar lengur en nokkur annar maður og hefur sýnt frábæra hæfileika til allrar vinnu þar og á skilið þakkir og hrós allra þm. fyrir sín óeigingjörnu störf við fjárlagafrv. bæði fyrr og nú.