18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

1. mál, fjárlög 1982

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 232. Það er brtt. frá menntamálanefndum beggja deilda. Auk mín skrifa á brtt. Ólafur Ragnar Grímsson (með fyrirvara), Ólafur G. Einarsson (með fyrirvara), Salome Þorkelsdóttir (með fyrirvara), Davíð Aðalsteinsson, Gunnar Thoroddsen, Halldór Blöndal (með fyrirvara), Þorv. Garðar Kristjánsson, Jón Helgason, Friðjón Þórðarson, Vilmundur Gylfason (með fyrirvara), Karl Steinar Guðnason (með fyrirvara) og Guðrún Helgadóttir (með fyrirvara).

Þessi brtt. er varðandi heiðurslaun listamanna samkvæmt ákvörðun Alþingis. Gerum við þá breytingu við fjárlagafrv., að í stað 301 þús. kr. komi 405 þús. kr. og sundurliðist heiðurslaunin þannig: Ásmundur Sveinsson 33 750, Finnur Jónsson sama upphæð, Guðmundur Daníelsson sama upphæð, Guðmundur G. Hagalín sama upphæð, Halldór Laxness sama upphæð, Indriði G. Þorsteinsson sama upphæð, Kristmann Guðmundsson sama upphæð, María Markan sama upphæð, Snorri Hjartarson sama upphæð, Tómas Guðmundsson sama upphæð, Valur Gíslason sama upphæð, Þorvaldur Skúlason sama upphæð.

Ég vil geta þess, að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var ekki aðili að þessari afgreiðslu.

Það er árlegt verkefni menntamálanefnda beggja deilda að taka afstöðu til heiðurslauna listamanna. Nokkuð var rætt í nefndinni um fjölgun, en um það náðist ekki samkomulag, enda flytja 13 af 14 nm. þessa brtt. og þar af sjö með fyrirvörum sem ég hef greint.

Það vill svo undarlega til, að á þskj. 229 er einnig brtt. við fjárlagafrv. og er hún sama efnis. Flm. að þeirri till. eru m. a. Guðrún Helgadóttir og Halldór Blöndal sem flytja einnig hina brtt., en með fyrirvara. Það má þá telja víst að þau fái góðar undirtektir undir sitt mál, hvor till. sem verður samþ.

Fleira er í sjálfu sér ekki um þetta að segja, en fyrst ég er kominn í ræðustól og hæstv. fjmrh. hlýðir á umr. tel ég mér skylt, til þess að öllu réttlæti sé fullnægt, að geta fsp. sem ég fyrir nokkrum vikum bar fram til fjmrh., þar sem ég spurðist fyrir um hvenær vænta mætti afgreiðslu ríkisstj. á frv. til l. um breyt. á lögum nr. 10 frá 22. mars 1960, um söluskatt, en þar er gert ráð fyrir að sá hluti kostnaðarverðs vöru, sem stafar af aðkeyptum flutningi hennar milli staða innanlands, skuli ekki mynda stofn söluskatts, en frv. var vísað til ríkisstj. 20. maí s. l. eftir 2. umr. málsins í Ed. Þar sem álagning söluskatts á flutningsgjald hefur afgerandi áhrif á búsetu manna í þessu landi og fjöldi þm. telur eflaust að menn eigi ekki að gjalda þess í skatti til ríkisins hvar þeir óska sér búsetu á þessu landi, þá hefði mátt álíta að eftir allan þennan tíma frá því að till. var vísað til ríkisstj., þ. e. 20. maí s. l., hefði eitthvað heyrst um afgreiðslu þessa máls. Einhverra hluta vegna — sennilega eru dagarnir of fáir og klukkutímarnir of fáir í hverjum sólarhring — hefur ekki unnist tími til að fá þessari fsp. minni svarað. En þess vegna minnist ég á það hér, að ef viðunandi úrlausnir fást ekki frá ríkisstj. varðandi þetta mál mun ég flytja eða fylgja frv. þessa efnis þegar þing kemur saman eftir jólaleyfi. Ég vil láta hæstv. fjmrh. og ríkisstj. vita um þessa fyrirætlan mína, þannig að áður en fullnaðarafgreiðsla fjárlaga fer fram geti hún gert ráð fyrir að frv. þessa efnis fáist samþykkt. Ríkissjóður mundi þar af leiðandi tapa nokkrum tekjum, sem ég veit í sjálfu sér ekki hvað eru miklar. Ég tel mér skylt, til að koma ekki aftan að hæstv. ríkisstj., að geta þessa þar sem ég mun, eins og ég gat um, flytja eða fylgja tillögum þess efnis, að flutningsgjald vöru milli innflutningshafnar eða framleiðslustaðar og neytenda myndi ekki söluskatt. Á ég von á að margir muni taka undir þá till., og þykist ég með þessum fáu orðum hafa gert hreint fyrir mínum dyrum við hæstv. ríkisstj. þannig að ég verði ekki sakaður um að koma í bakið á henni á einn eða neinn hátt með flutningi slíks frv.