18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

1. mál, fjárlög 1982

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlaga sýndi ég fram á tvennt varðandi húsnæðislánamál og mun ég ekki endurtaka það nema að sáralitlu leyti.

Í fyrsta lagi sýndi ég fram á það, að staða hins almenna húsbyggjanda hefur verið herfilega fyrir borð borin. Í stað þess að auka stórlega lán Byggingarsjóðs ríkisins þegar verðtrygging inn- og útlána var tekin upp, eins og bráðnauðsynlegt var, hafa lánin staðið í stað eða jafnvel minnkað. Verkamannabústaðakerfið, þótt gott sé, bætir þetta ekki nema að litlu leyti og aðeins fyrir tiltölulega fáa, enda er nú svo komið að bygging íbúða í landinu öllu er ekki nema helmingur þess sem allar áætlanir og spár seinni ára hafa sýnt fram á að nauðsynlegt væri. Á þetta einkum við um yfirstandandi ár og áætlanir fyrir það næsta. Auðvitað leiðir þetta til öngþveitis í húsnæðismálum landsmanna ef ekkert frekar verður að gert.

Í öðru lagi sýndi ég fram á það, að með óbreyttri stefnu siglum við hraðbyri í að íbúðalánakerfið í heild, þ. e. bæði Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna, komist í greiðsluþrot. Kerfið er nú að langmestum hluta fjármagnað með lántökum til styttri tíma og með mun hærri vöxtum en útlánin. Á næsta ári er áætlað að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins verði talsvert lægra í krónum talið en það var árið 1979, en lántökur sjóðsins hafa fertugfaldast á sama tíma. Árið 1979 voru framlög til Byggingarsjóðs ríkisins álíka há og lántökur sjóðsins. Samkvæmt fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun eiga lántökurnar að verða 46 sinnum hærri en framlög ríkissjóðs á næsta ári. Með þessu erum við að búa okkur til kerfi sem bindur öll framlög ríkissjóðs áratugi fram í tímann við það eitt að greiða vaxtamismun tekinna og veittra lána. Þó að við viljum breyta þessu eftir nokkur ár erum við bundin í báða skó áratugi fram í tímann. Kerfið verður því með öllu ófært um að veita húsbyggjendum og húskaupendum framtíðarinnar nokkra aðstoð.

Til að freista þess að fá á þessu nokkra bót, bæði fyrir þá, sem nú og á næstu árum þurfa á lánum að halda, og fyrir byggingarsjóðina báða og þar með lántakendur framtíðarinnar, hef ég freistað þess að leggja fram brtt. á þskj. 251 um hækkun framlags ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins um 130 millj. kr. Fjárhæð tillögunnar er miðuð við að kerfið í heild, þ. e. báðir byggingarlánasjóðirnir, fái álíka mikil framlög og orðið hefðu að óskertum mörkuðum tekjustofnum og óskertum öðrum lögboðnum opinberum framlögum frá ríki og sveitarfélögum samkvæmt eldri lögum. Hér er vissulega um mikið fé að ræða, en þó ekki meira hlutfallslega en ríkissjóður lagði til skamms tíma fram. Ég minni einnig á að þm. Alþfl. hafa lagt fram sparnaðartill. við fjárlögin sem nema miklu hærri upphæðum en hér er um að ræða. Þar við bætist svo að hér er aðeins verið að leggja til að byggingarsjóðirnir fái sína mörkuðu tekjustofna óskerta eða ígildi þeirra, en um þá tekjustofna var á sínum tíma samið við verkalýðshreyfinguna og vafasamt hvernig hægt er að taka þá af án nýrra samninga.

Ef miðað væri við þá stefnumótun í húsnæðislánamálum, sem ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar samþykkti árið 1979, þyrfti að hækka opinber framlög um næstum 200 millj. kr. frá því sem fjárlagafrv. fyrir næsta ár gerir ráð fyrir. Þá stefnumótun samþykktu sex af núv. hæstv. ráðh.

Þessari brtt. er ætlað að freista þess að bæta tvennt: Í fyrsta lagi að hækka verulega lán húsbyggjenda og húskaupenda og þá einkum og sér í lagi þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn. Í öðru lagi er till. ætlað að bæta stöðu húsnæðislánakerfisins þannig að það geti áfram verið stuðningur við húsbyggjendur og húskaupendur.

Það er algert ábyrgðarleysi að stefna vísvitandi og með opin augu að því að eyðileggja hið opinbera veðlánakerfi um langa framtíð án þess að nokkuð annað komi í staðinn. Ég skora á hv. þm. að spyrna við fótum. Því lengur sem það dregst, því erfiðara verður það.