18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

1. mál, fjárlög 1982

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er sammála því sem hv. 5. þm. Suðurl. sagði um ástand húsnæðismálanna og þarfir Byggingarsjóðs ríkisins. Í þinginu er frv. til lánsfjárlaga þar sem gert er ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins sé sviptur tekjustofni sínum af launaskatti. Það raunhæfa í þessu máli nú er að freista þess að koma í veg fyrir að þær fyrirætlanir nái fram að ganga. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt fram till. um að fella niður þessa skerðingu. Því miður verð ég að segja það, að þegar greidd voru atkv. um þá till. í Ed. í gær sáu flokksmenn hv. 5. þm. Suðurl. ekki ástæðu til að greiða atkv. gegn skerðingunni. Ég segi þetta að gefnu tilefni um leið og ég tek fram að ég væni hv. 5. þm. Suðurl. ekki um óheilindi í þessu máli.

Ég stóð hér upp til að vekja athygli á brtt. sem ég ásamt fleiri ber fram á þskj. 241. Þetta eru tillögur sem voru bornar fram við 2. umr. fjárlaga og ég mælti þá fyrir. Ég mun ekki endurtaka það sem ég sagði þá, en ég vil aðeins undirstrika mikilvægi þeirra með örfáum orðum.

Tillögur þessar eru tvær; annars vegar að því er varðar sveitarafvæðingu og hins vegar að því er varðar hækkun á olíustyrk vegna húshitunar.

Till. um sveitarafvæðinguna felur í sér að framlag til sveitarafvæðingar verði hækkað úr 2.7 millj. kr. í 21 millj. eða til vara í 15.5 millj.

Árið 1975 gerði orkuráð áætlun um sveitarafvæðingu landsins og þar var gert ráð fyrir að allir sveitabæir fengju rafmagn frá samveitu ef meðalvegalengd á milli þeirra færi ekki fram úr 6 km. Nú eru eftir um 30 sveitabæir til að ná þessu marki og ljúka sveitarafvæðingunni. Þetta fólk, sem hér á hlut að máli, hefur beðið mörg ár eftir því að fá þessi sjálfsögðu þægindi. Það hefur reiknað með því. Ég vil aðeins með þessum orðum vekja athygli á því, að ef þessi brtt. verður ekki samþykkt verður á næsta ári ekkert gert í sveitarafvæðingunni. Það má ekki koma fyrir og því vænti ég þess að hv. þm. greiði till. þessari atkv. og tryggi framgang hennar.

Hin till. varðar upphæð olíustyrkja. Hún felur í sér að upphæð í þessu skyni sé hækkuð úr 30 millj., sem frv. gerir ráð fyrir, í 50 millj. 30 millj. kr. duga til að veita styrki á næsta ári sem ekki eru hærri en ákveðið var 1. jan. 1980. En á þessu ári, árinu 1981, eru veittar 50 millj. kr. í þessu skyni. Ég vænti þess, að olíustyrkurinn verði hækkaður á þessu ári þannig að þá þurfi um 50 millj. kr. til þessa á árinu. Ef Alþingi ætlar hins vegar aðeins að veita 30 millj. kr. í þessu skyni á næsta ári þýðir það að lækka yrði olíustyrkinn á næsta ári frá því sem hann yrði í ár. Það sjá allir hvílík óhæfa það er, sérstaklega ef menn eru minnugir þess, sem menn hafa alltaf á vörunum þegar rætt eru um þessi mál, hve óskapleg byrði það sé sem það fólk þarf að bera sem býr á olíukyndingarsvæðunum. Þess vegna vænti ég þess, að hv. alþm. sjái hvílík óhæfa það er að fella þessa brtt. og viðbrögð þeirra verði þess vegna á þann veg að greiða till. atkv. og tryggja henni framgang.