18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

1. mál, fjárlög 1982

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég fór að gá að brtt. sem ég er meðflm. að. Það er brtt. á þskj. 232 varðandi heiðurslaun listamanna. Ég ætla ekki að ræða efnislega þessa till., en ég finn mig knúinn til að vekja athygli hæstv. forseta á því sem ég ætla að sé ekki þinglegt við hana.

Ýmsir af flm. þessarar till. flytja hana með fyrirvara. Ég kannast ekki við það, að brtt., frumvörp eða þáltill. séu fluttar með fyrirvara. Ég hef ekki heldur orðið var við að þingsköp geri ráð fyrir slíku. Annaðhvort eru menn með till. og flytja till. eða flytja ekki till. Hins vegar geta menn gefið álit í nefndum með fyrirvara.

Ég vildi leyfa mér að vekja athygli hæstv. forseta á þessu, og það er hans að ákveða hvernig með skuli fara.