18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

1. mál, fjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Áður en ég vík að því sem ég vildi sagt hafa hér fyrst og fremst, þá get ég ekki látið hjá líða að taka undir það með hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, að vissulega er frágangur þskj. 232 ekki aðeins óvenjulegur, heldur í raun rökleysa. Það segir sig sjálft, að menn flytja ekki till. með fyrirvara. En það breytir auðvitað ekki því, að till. er vafalaust alveg gild og hlýtur að vera borin hér upp með venjulegum hætti. En ég hef aldrei séð svona till. hér í þinginu og ég er viss um að þetta stenst ekki, en hefur fyrst og fremst enga merkingu. Það er það sem skiptir máli.

En ég vildi nota tækifærið til þess að þakka hv. fjvn. fyrir snögg og góð vinnubrögð og fagna því, að frv. er nú komið til 3. umr. Ég vil einnig þakka hv. þm. fyrir tiltölulega stuttar umr. hér við 3. umr. Menn hafa sagt það sem þeir þurftu að segja, en ekki verið með neinar málalengingar og það er þakkarvert.

Ég vildi aðeins mega nefna hérna tvær tillögur sem ég flyt. Önnur er á þskj. 263. Það er heimild til að ábyrgjast lán eða taka lán og endurlána virkjunaraðila, sbr. ákvæði 6. mgr. 2. gr. laga nr. 60/1981, allt að 50 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Og í öðru lagi að taka lán vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar fyrir árið 1981 er nemi allt að 45 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Að sjálfsögðu skýrist flutningur þessarar till. af því, að lánsfjáráætlun verður ekki afgreidd nú fyrir jól, en aftur á móti óhjákvæmilegt að hægt sé að ganga frá þessum lánum sem tilheyra árinu 1981.

Menn undrast nú kannske að þörf sé á því að leggja fram till. um fyrri liðinn sem lýtur að lánum vegna virkjunarframkvæmda á liðnu ári í samræmi við virkjunarlög sem hér voru samþykkt, en þetta er algert formsatriði. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir, að þessi fjárhæð yrði tekin að láni erlendis, en það láðist að taka það fram í virkjunarlögunum í fyrra að heimildin næði til erlends láns. Og menn eru svo formfastir, að þeir telja ekki hægt að ganga frá láninu öðruvísi en það sé beinlínis tekið fram. Þess vegna er nú endurtekinn þessi heimildarbeiðni og sérstaklega tekið fram að fjárhæðin geti verið í erlendri mynt. Þetta er sem sagt hreint formsatriði.

Síðari till. snýr bara að endurskoðaðri lánsfjáráætlun fyrir árið 1981. Ég hef haft samráð um það við stjórnarandstöðuna og ég held að allir séu sammála um að eðlilegt sé, úr því að lánsfjáráætlun er ekki afgreidd fyrir áramót að afla þessarar heimildar, hvort sem einstakir þm. reynast þá samþykkir því að heimildin sé veitt eða ekki. En í öllu falli er eðlilegt að freista þess hér við afgreiðslu fjárlaga að afla þessarar heimildar.

Ég vil í öðru lagi benda á brtt. sem ég flyt á þskj. 254, sem er brtt. við fjárlagafrv. og snýst um sjálfskuldarábyrgð vegna Flugleiðamálsins. Hér er um að ræða nákvæmlega sams konar heimild og veitt var í lögum um málefni Flugleiða sem samþ. voru á s. l. hausti, að því breyttu, að í staðinn fyrir 3 millj. bandaríkjadala, eins og var í frv. fyrir árið 1981, er nú um að ræða 1.6 millj. bandaríkjadala og tímasetningar eru að sjálfsögðu breyttar, færðar til um eitt ár.

Ég vil svo að lokum svara fsp. sem beint var til mín af hv. þm. 5. þm. Norðurl. v., Ingólfi Guðnasyni, en hann spurðist fyrir um frv., sem vísað hefði verið til ríkisstj. á s. l. vori, um söluskatt af flutningskostnaði. Þetta frv. var á þá leið, að sá hluti kostnaðarverðs vöru, sem stafi af aðkeyptum flutningi hennar milli staða innanlands, skuli ekki mynda stofn til söluskatts, og skuli söluskattsskyldum aðilum heimilt að draga aðkeyptan flutningskostnað innanlands vegna söluskattsskyldra söluvara sinna frá heildarveltu áður en söluskattsskil eru gerð.

Það er rétt að minna á það hér, að hugmynd af þessu tagi og frv. af þessu tagi hafa verið hér á ferðinni oftar en einu sinni, frv. var flutt líka á þinginu 1979–1980, en þau hafa aldrei náð afgreiðslu. Þessu frv. var svo vísað til ríkisstj. á s. l. vori, væntanlega vegna þess að menn voru ekki reiðubúnir til að samþykkja frv.

Um þetta mál fjallaði nefnd sem var að störfum á árunum 1973 og 1974 og átti að hafa það verkefni að kanna hvort hægt væri að lækka vöruverð og draga úr eða jafna flutningskostnað á vöru milli landshluta. Sú nefnd treysti sér ekki til að mæla með breytingu af þessu tagi og kenndi því um, að of miklir framkvæmdaörðugleikar væru í þessu sambandi. Ég vil taka það fram, að ég hef ráðgast við menn í mínu rn. um hugsanlega framkvæmd á ákvæði af þessu tagi, og ég verð að láta það koma hér fram, að þessi hugmynd hefur fengið ákaflega neikvæðar viðtökur í hópi embættismanna sem telja að það séu miklir vankantar og erfiðleikar á að framkvæma þessa söluskattslækkun og mikil hætta á undanskotum á söluskatti ef tilraun er gerð til þess að fella niður söluskatt af þessum afmarkaða hluta vöruverðs. Ég verð hins vegar að viðurkenna það, að ég hef ekki getað myndað mér neina endanlega skoðun um það, hvort þetta sé réttur dómur hjá embættismönnum. Ég býst við að þetta séu svipuð viðbrögð og verið hafa uppi hjá mörgum sem um þetta hafa fjallað mörg undanfarin ár, og ég vil heita fyrirspyrjanda Ingólfi Guðnasyni því, að ég vil gjarnan, að þetta mál sé kannað rækilega, og mun gera það á næstu vikum, svo að það komi í ljós hvort ekki sé hægt að finna einhverja þá hlið á þessu máli, einhverja leið í þessu máli sem geri kleift að ná því markmiði sem fólst í þessu frv., því að málið er gott og ég held að við séum sammála um að það þyrfti að ná fram að ganga í einu eða öðru formi. En vissulega verður að taka til greina gagnrýni af því tagi sem ég nefndi, að það séu annmarkar á framkvæmd og hætta á söluskattsundanskoti ef þetta sé leyft, og menn verða þá að velta því fyrir sér, hvort einhverjar aðrar leiðir væru hugsanlegar eða einhverjar breytingar á framkvæmd sem gerðu vankantana minni.

Ég vil sem sagt ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en ítreka það, að málið er alls ekki afgreitt af minni hálfu og ég mun kanna það rækilega á næstu vikum.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um fjárlagafrv. og afgreiðslu þess. Ég þakka þm. fyrir góð vinnubrögð nú við 3. umr. og ágætar umr.