18.12.1981
Sameinað þing: 38. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

1. mál, fjárlög 1982

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram allsérstæðar umr. um brtt. sem fluttar hafa verið varðandi listamannalaun. Það hefur komið fram, að hv. 4. þm. Vestf. dregur mjög í efa að brtt. 232 standist þinglegar kröfur, þar sem menn hafa skrifað hér undir með fyrirvara. Við athugun kemur í ljós að meira en helmingur flm. í menntmn. Nd. hefur skrifað undir með fyrirvara. Undir þetta mál hv. þm. tók hæstv. fjmrh., og ég held að þegar þessir tveir aðilar hafa lagt jafnmikinn þunga í þessar athugasemdir sínar og þeir hafa gert, þá hljóti að vera eðlilegt að beina því til flm., hvort þeir séu ekki reiðubúnir að draga þessa brtt. til baka þar sem hún er alls óþörf og allir þeir aðilar, sem þar eru nefndir, mundu að fullu halda sóma sínum þó að till. yrði dregin til baka. En það mundi leysa hæstv. forseta undan því að úrskurða hér á annan veg en forseti Ed. Alþingis hefur talað fyrir. Jafnframt mundi það losa þingið undan þeirri erfiðu kvöð að greiða atkv. eins viðkvæmu máli og hér er um að tefla og helst ætti aldrei að þurfa að koma til atkvgr. í sölum þingsins. Þess vegna þykir mér að það hafi verið ákaflega jákvætt, að hv. 4. þm. Vestf. skyldi gera þessa athugasemd, og vænti þess, að hann beiti sér fyrir því í hópi flm., að till. verði dregin til baka.