18.12.1981
Efri deild: 30. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

150. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá, en frv. þetta hefur verið afgreitt frá hv. Nd.

Það er kjarni þessa máls, að í tollalögum er það meginregla að einn hlutur er færður og tollaður samkv. einu tollnúmeri, jafnvel þótt um samsettan hlut sé að ræða, og þó að einstakir hlutar hins samsetta hlutar séu í gerólíkum tollflokkum hefur það engin áhrif á þá niðurstöðu að einn hlutur skal tollaður samkv. einu tollnúmeri. Það er hins vegar ljóst, að þessi regla veldur margvíslegum vandkvæðum. Frægt dæmi úr tollmeðferðarsögu hér á Íslandi er það, að ef menn flytja inn bíl eða bifreið ásamt yfirbyggingu er það tollað á einn veg, en ef farartækið er hins vegar flutt inn þannig að yfirbyggingin sé sér á parti og bifreiðin sé sér á parti eru tollflokkarnir aðrir og útkoman töluvert önnur í tollum. Það hefur sem sagt reynst afskaplega mikil mismunun eftir því, hvort hlutirnir voru fluttir inn í tvennu eða mörgu lagi eða sem einn hlutur.

Menn hafa rætt það, að nauðsyn bæri til að samræma þetta við allsherjarendurskoðun á tollskrá, en hún hefur dregist vegna þess að um viðamikið og stórt mál er að ræða, og ekki hefur orðið af því að menn leiðréttu þessi tilvik þar sem þau eru erfiðust við að eiga og hafa haft mest áhrif í íslensku efnahagslífi og á íslenskan iðnað.

En nú í seinni tíð verður vart við að á einu sviði er um að ræða svo hættulega þróun að ekki verður við unað án gagnaðgerða. Hér er sérstaklega um að ræða innflutning á húsum og mannvirkjum, þar sem um er að ræða innflutning á heilum einingahúsum sem lenda í miklu lægri tollflokkum með allt það, sem þeim fylgir, en hinir einstöku hlutar mundu gera ef þeir væru tollaðir sér. Hagsmunasamtök bentu á það nú á haustmánuðum, að hafinn væri stórfelldur innflutningur á einingahúsum erlendis frá, vöruðu við því, að að öllu óbreyttu mundi innlend framleiðsla einingahúsa verða lögð í rúst ef ekki væri gripið til gagnaðgerða, og óskuðu eindregið eftir að sett yrði lög sem gerðu aðstöðu íslenskra framleiðenda hliðstæða þeirri aðstöðu sem innflytjendur búa við að þessu leyti. Því er þetta frv. flutt. Það er flutt til varnar íslenskri framleiðslu og það hefur svo vel tekist til, að samkomulag er um það milli allra flokka hér á Alþingi að hraða afgreiðslu þessa máls þó það sé óneitanlega afar flókið efnislega og ekkert auðvelt að glíma við það á skömmum tíma.

Ég mælti fyrir þessu máli í hv. Nd. í gær og frv. er komið til Ed. með breytingu sem hv. fjh.- og viðskn. Nd. lagði til að gerð yrði á frv. Í frv. var ákvæði sem gerði kleift að lagt væri jöfnunarálag á fleiri innflutta vöruflokka en innflutt mannvirki og mannvirkjahluta. Það er sem sagt meginefni frv. að slíkt jöfnunarálag sé lagt á tollverð innfluttra húsa, og opnuð var leið til þess í 4. mgr. að þetta næði einnig til annarra vöruflokka þar sem svipað stendur á. Mönnum þótti samt sem áður varhugavert að veita fjmrn. svo víðtæka heimild án nánari skoðunar, því að naumur tími væri til að skoða málið í heild, og því varð það að ráði með ágætu samkomulagi við okkur fjmrn.-menn, að þetta ákvæði væri fellt niður, og það nær því fyrst og fremst til innfluttra mannvirkja og mannvirkjahluta. Hins vegar er ljóst að á mörgum öðrum sviðum, og þetta á þá kannske ekki síst við um húsgagnaiðnaðinn, ber brýna nauðsyn til að hliðstæð ákvæði séu sett til varnar innlendri framleiðslu og til að tryggja að innlend framleiðsla njóti ekki lakari kjara og sé ekki í langtum lakari aðstöðu en erlend framleiðsla.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en ítarleg grein er gerð fyrir því í aths. með frv. Ég hef aðeins farið hér örfáum orðum um kjarna málsins. Hann er sá, eins og ég hef þegar sagt, að leggja jöfnunarálag á tollverð innfluttra mannvirkja og mannvirkjahluta. Ég vek hins vegar á því athygli, að vegna þess að meðferð frv. hér á Alþingi getur nú talist nokkur hraðsuða og nauðsynlegt er að athuga þetta mál allt betur varð það að ráði í Nd. að lögin giltu aðeins í eitt ár eða til 31. des. 1982.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til fjh.- og viðskn.