19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

1. mál, fjárlög 1982

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í aths. hv. þm. Lárusar Jónssonar var þessi liður til umr. í hv. fjh.- og viðskn. Ed. við umfjöllun um lánsfjáráætlun. Þar voru ýmsar lánsheimildir teknar til baka eða strikað yfir þær, eins og sagt var, af formanni nefndarinnar að ósk ríkisstj., enda voru heimildir til erlendra lántaka orðnar það miklar að menn töldu að ein 30 erindi yrðu að afgreiðast í einu lagi með neii. Síðan gerist það sama daginn að fjmrh. smeygir þessari heimild inn hjá fjvn. á fjárlög, en sleppti öllum þeim mikilvægustu. Þetta er áreiðanlega langvitlausasta tillagan sem kom til hv. fjh.- og viðskn. Það á að kaupa borpramma sem metinn er á 1.5 milljarð gkr., en verða vafalaust 3 milljarðar hjá þeirri stofnun sem þetta áætlar, og árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður eins og öll framlög í hafnir í mínu kjördæmi og verður sjálfsagt eins og framlög í allar hafnir á Norðurlandi — í báðum kjördæmunum — þegar allt kemur til alls. Það er eftir öðru að taka út það langsamlega vitlausasta og smeygja því inn með þessum hætti á bak við menn án þess að þeir fái skýringar. Ég segir nei.