19.12.1981
Sameinað þing: 39. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

1. mál, fjárlög 1982

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að ýmsir þeir undirliðir, sem eru í lið nr. 59 og verið er að greiða atkv. um og heimila töku á erlendum lánum vegna þessara framkvæmda, komu til meðferðar í fjh.- og viðskn. beggja deilda og sérstaklega í fjh.- og viðskn. Ed. Þar var tekin sú ákvörðun af meiri hl. nm., og mér skilst hún væri studd í stórum dráttum af öðrum nm., að hafna óskum um að auka erlendar lántökur í heild, hins vegar væri hægt að samþykkja erlendar lántökur vegna þessara framkvæmda og annarra óska sem þar komu fram með því skilyrði að það leiddi ekki til þess, að heildarupphæð erlendrar lántöku á árinu hækkaði. Í trausti þess, að staðið verði við þá samþykkt, að þær framkvæmdir, sem hér er um að ræða, leiði ekki til heildaraukningar á erlendum lántökum á árinu, segi ég já.